Lífið

"Hann reyndist mér vel á erfiðum tímum"

Ellý Ármanns skrifar

Kolbrún Björnsdóttir og Þórunn Erna Clausen, vinkonur og samstarfskonur Hermanns Gunnarssonar sem féll frá í gær aðeins 66 ára að aldri, gáfu sér tíma til að rifja upp góðar stundir sem þær fengu að upplifa með Hemma.

„Kolbeinn" og Hemmi.

Einlægari manni hef ég aldrei kynnst

„Hemmi var ljúfastur allra ljúflinga. Einlægari manni hef ég aldrei kynnst," segir Kolbrún Björnsdóttir útvarpskona og heldur áfram:  „Og hann var svo óskaplega næmur á líðan fólks og átti auðvelt með að ná til allra, bæði í gleði og sorg."

Alger stríðnispúki

„En hann var líka alger stríðnispúki og mjög kaldhæðinn. Hann gat til dæmis með engu móti kallað samstarfsfólk sitt þeirra nöfnum. Allir fengu nýtt nafn frá Hemma. Ég var Kolbeinn. En það misstu margir mikið við fráfall hans. Hemmi gaf svo mikið af sér og til allra. Mínar hugsanir eru hjá fjölskyldu hans og fóstru hans í Dýrafirði og votta ég þeim mína dýpstu samúð."

Eiginmaður Þórunnar, tónlistarmaðurinn Sigurjón Brink, sem er betur þekktur sem Sjonni, varð bráðkvaddur að heimili sínu í Garðabæ í janúar árið 2011.

Hjartahlýr og gefandi

„Hann elsku Hemmi var svo hjartahlýr og gefandi. Það er mér innilegur heiður að hafa fengið að kynnast honum. Ég man svo vel daginn sem ég hitti hann fyrst sem mjög feiminn unglingur og kom fram sem dansari og í viðtal í þáttinn hans „Á Tali", en pabbi minn og tvíburabróðir hans voru gestir þáttarins. Hann náði auðvitað að sprengja mig úr hlátri og eftir það var ég nú eitthvað rólegri fyrir viðtalið," segir Þórunn Erna Clausen leikkona þegar við ræðum um hennar samskipti við Hemma.

Hann átti mikið af vinum

„Hann var einnig vinnufélagi systur minnar til margra ára og mannsins míns heitins, og er ég því svo lánsöm að hafa fengið að kynnast honum betur seinna. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að hann virtist alltaf hafa nægan tíma til að tala við mann og gefa af sér. Hann reyndist mér vel á erfiðum tímum og leið mér alltaf örlítið betur eftir spjall við Hemma. Hann hafði endalausa trú á mér og studdi mig á sinn ljúfa hátt og alltaf kvaddi hann með innilegu faðmlagi og talaði svo vel um fjölskyldu mína og ástvini. Hann átti mikið af vinum og snerti líf svo ótrúlega margra."

Einstakur húmoristi

„Hann var íþróttamaður af Guðs náð, það eru ekki margir sem fæðast með slíka náðargjöf á íþróttasviðinu eins og hann og svo hafði hann einnig þá náðargjöf að geta fyllt líf annarra með ljósi og sýnt öðrum samúð og samkennd. Hann var einstakur húmoristi og hláturinn hans verður okkur öllum ógleymanlegur. Hann skilur svo mikið eftir sig og náði að koma svo miklu frá sér, en það er sárt að horfa á eftir honum svona allt of snemma. Ég á eftir að sakna þess mikið að smitast af hlátri hans og einlægni og langar að votta nánustu aðstandendum hans, fjölskyldu og vinum innilega samúð mína. Minning hans mun lifa í hjörtum þjóðarinnar um alla tíð," segir Þórunn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.