Sport

Murray ekki í vandræðum | Federer-baninn úr leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Andy Murray komst örugglega áfram í 16-manna úrslit á Wimbledon-mótinu í tennis eftir sigur á Spánverjanum Tommy Robredo.

Murray vann í þremur settum, 6-2, 6-4 og 7-5. Murray hefur vart stigið feilspor á mótinu til þessa og enn ekki tapað setti.

Hann á fremur auðvelda leið í úrslitaleikinn þar sem hann mætir líklega Novak Djokovic, efsta manni heimslistans, sem keppir í 32-manna úrslitum á morgun.

Helstu tveir keppinautar þeirra undanfarin ár, Rafael Nadal og Roger Federer, eru þó báðir úr leik. Nadal tapaði strax í fyrstu umferð en Federer í annarri.

Sigur Úkraínumannsins Sergiy Stakovsky á Federer, sjöföldum Wimbledon-meistara, eru ein óvæntustu úrslit í sögu keppninnar. Viðureignin tók greinilega sinn toll því Stakovsky féll í dag úr leik er hann tapaði fyrir Austurríkismanninum Jürgen Melzer í fjórum settum, 2-6, 6-2, 5-7 og 3-6.

David Ferrer og Tommy Haas komust báðir áfram í dag en í kvennaflokki bar helst til tíðinda að Angelique Kerber féll úr leik. Sú þýska er sjötti keppandinn af tíu hæst skrifuðu í einliðaleik kvenna sem er úr leik á mótinu þetta árið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×