Kvennalið Fram tekur þátt í EHF bikarnum í vetur en karlaliðið tók þá ákvörðun að vera ekki með.
„Við leyfðum leikmönnum að ráða þessu sjálfir," segir Árni Ólafur Hjartarson, formaður handknattleikdeildar Fram, í samtali við Vísi. Hann segir ferð kvennaliðsins að mestu leyti fjármagnaða af leikmönnum.
„Stelpurnar vildu skella sér í Evrópukeppnina. Það kom ekkert annað til greina hjá þeim," segir Árni. Þetta verður sjötta árið í röð sem Fram tekur þátt í Evrópukeppni í kvennaflokki. Liðið féll út við fyrstu hindrun gegn sterku liði Tertnes Bergen frá Noregi í fyrra.
Haukar munu senda karlalið í Evrópukeppnina líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í morgun. Kollegar þeirra í Fram og ÍR verða hins vegar ekki með.
„Strákarnir fara utan í æfingaferð í ágúst sem þeir fjármagna að mestu leyti sjálfir. Þeim finnst það bara nóg. Þeir fá kannski meira út úr því handboltalega séð að fara utan í vikuferð," segir Árni um ákvörðun karlaliðsins.
Framarar urðu Íslandsmeistarar í báðum flokkum á síðustu leiktíð. Lykilmenn eru þó horfnir á braut hjá báðum liðum og verður erfitt að fylla í þeirra skörð. Danski markvörðurinn Stephen Nielsen, sem kom til Framara í sumar, lofar góðu að sögn Árna. Hann segir aldrei að vita nema fleiri bætist í hópinn en annars verður að miklu leyti treyst á yngri leikmenn í vetur.
„við erum með marga efnilega stráka. Við vorum með þrjá eða fjóra í U19 ára landsliði drengja í fyrra og níu í æfingahópnum hjá stelpunum. Fjórar eða fimm þeirra voru í lokahópnum," segir Árni. Ungir leikmenn félagsins verði að fá tækifæri.
„Ef þeir fá aldrei að spila þá gerist náttúrulega aldrei neitt."
Kom ekkert annað til greina hjá stelpunum
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar

Mest lesið



Baðst afsökunar á tæklingunni í Garðabænum
Íslenski boltinn



Liverpool tilkynnir um risasamning við Adidas
Enski boltinn



