Lífið

Íslenskur strákur fer heljarstökk afturábak á hjólabretti

Kristján Hjálmarsson skrifar
Egill Gunnar Kristjánsson sýnir ótrúlega hæfileika þegar hann blandar hjólabretti við fimleika.
Egill Gunnar Kristjánsson sýnir ótrúlega hæfileika þegar hann blandar hjólabretti við fimleika.
Ótrúlegt myndband af þrettán ára íslenskum strák hefur farið um eins og eldur í sinu á netinu. Í myndbandinu sést drengurinn, Egill Gunnar Kristjánsson, fara afturábak heljarstökk á hjólabretti og lenda örugglega. Klukkan þrjú í dag höfðu rúmlega þrjú þúsund manns horft á myndbandið á Youtube.

"Ég er bara búinn að vera í tvö eða þrjú ár á hjólabretti en ég er búinn að æfa fimleika hjá Ármanni í fimm ár," segir Egill Gunnar.

Í myndbandinu, sem sjá má hér fyrir neðan, má sjá Egil Gunnar leika listir sínar en það er tekið á brettasvæðinu í Laugardalnum.

"Ég var svolítið hræddur fyrst þegar ég var að prófa back flipið en nú er þetta ekkert mál," segir Egill Gunnar.

Kristján Þorgeir Ársælsson, faðir Egils Gunnars, segir piltinn ákaflega efnilegan. "Hann fer backflip á öllu þessi drengur. Hann er greinilega að verða frægur á netinu," segir Kristján Þorgeir.

Að sögn Kristjáns Þorgeirs er Egill Gunnar fimleikamaður að upplagi. "Hann er bæði Íslandsmeistari og Norðurlandameistari í fimleikum. Svo hrífur þetta jaðarsport hann mikið, hjólabretti, snjóbretti og parkour. Það skiptir engu máli hvað þú setur á lappirnar á honum hann verður alltaf góður í því. Hann hefur rosalega hæfileika," segir faðirinn stoltur.

Hefur fót- og handleggsbrotnað

Kristján Þorgeir viðurkennir að vera stundum hræddur um piltinn. "Hann hefur fótbrotnað og handleggsbrotnað tvisvar en það stoppar hann ekki. Hann er hins vegar ekki hræddur við þetta. Hann er kominn með það mikla hæfileika að hann veit hvað hann getur og hvað ekki. Hann hefur það mikla stjórn á líkamanum og hann gæti náð langt ef hann heldur sér heilum," segir Kristján Þorgeir. "Auðvitað vil ég alltaf að hann sé með hjálm en maður fær ekki alltaf að ráða. Hann notar að vísu alltaf hjálm á snjóbrettinu og á reiðhjóli en honum finnst hjálmurinn flækjast fyrir í öðru."

Fleiri myndbönd af Agli Gunnari og afrekum hans má nálgast hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.