Bílar

Nýr Golf R er 296 hestöfl

Finnur Thorlacius skrifar
Volkswagen Golf R er öflugasta útgáfa bílsins
Volkswagen Golf R er öflugasta útgáfa bílsins
Volkswagen hefur framleitt R-útgáfu af Golf bílnum í háa herrans tíð, en þetta er alöflugasta gerð bílsins og ávallt mun öflugri en GTI gerð hans. Nýr Golf R verður sýndur almenningi í bílasýningunni í Frankfürt sem hefst eftir hálfan mánuð.

Þetta er fjórða kynslóð R-bílsins og nú með 296 hestafla vél sem aðeins hefur 2 lítra sprengirými og er fjögurra strokka. Fyrsta kynslóðin var með 237 hestafla vél, önnur 247 og sú þriðja 261 hestöfl. Því hefur aflaukningin á milli kynslóða aldrei verið meiri en nú, eða 35 hestöfl.

Bíllinn er aðeins 4,9 sekúndur í hundraðið en eyðir samt bara 6,9 lítrum á hverja hundrað kílómetra. Hámarkshraði bílsins er takmarkaður við 250 km/klst. Sem fyrr verður bíllinn með Haldex fjórhjóladrifi, en það hafa allar kynslóðir hans verið. Hann má fá með 6 gíra beinskiptingu eða 6 gíra sjálfskiptingu með tveimur kúplingum.

Golf R stendur 2 sentimetrum neðar en hefðbundinn Golf, en aðeins 0,5 cm neðar en Golf GTI. Kaupendur geta valið á milli fallegra 18 og 19 tommu felga undir bílinn. Lítið er enn uppgefið um innra byrði bílsins, en þó mun líklega bjóðast Nappa leðursæti og sæti klædd Alcantara efni.







×