Bílar

Besti akstursbíll í heimi?

Finnur Thorlacius skrifar
Magnað ökutæki Porsche 911 Turbo S
Magnað ökutæki Porsche 911 Turbo S
Reynsluakstur – Porsche 911 Turbo S

Það er líklega ekki hægt að bjóða bílablaðamanni uppá meiri veislu en það að reynsluaka nýjustu kynslóð Porsche 911 Turbo S, meðal annars á keppnisbraut . Þarf að segja meira en að þetta er öflugasti framleiðslubíll Porsche, 560 hestöfl og er 3,1 sekúndu uppí hundraðið. Hann er bæði ógnvænlegur sem ljón og fallegur sem antilópa og hefur eiginleika þeirra beggja, sprengikraft og fimi. Bíllinn var prófaður í Bad Driburg í Þýskalandi, nærliggjandi glænýrri 4,2 km langri aksturbraut og fallegum sveitum þar í nágrenninu.

Ógleymanlegur brautarakstur

Aksturinn á brautinni var svo eftirminnilegur að erfitt verður að finna aðra eins upplifun. Eknir voru fjöldamargir hringir með atvinnuökumanni á undan og fóru 4 bílar með bílablaðamönnum á eftir hverjum slíkum. Ávallt voru eknir 4 hraðahringir í beit sem urðu sífellt hraðari eftir því sem blaðmenn náðu meiri tökum á bílnum. Í kjölfar hverrar ökuhrinu varð að fara einn kælihring til að kæla bremsubúnað og vél. Akstursbrautinn sem opnuð var í apríl á þessu ári er um margt sérstök. Mesti hæðarmunur hennar er 70 metrar og mesti niðurhalli er 26 gráður og mesti upphalli 20 gráður. Því fær bílstjóri og farþegi rækilega í magann þegar farið er um þessar brekkur á eins miklum hraða og mögulegt er og ekki var laust við að hróp heyrðust inní bílunum sem í bland stöfuðu af gleði og hræðslu.

Rétt fyrir mesta niðurhallann var réttnefnd „mausefalle“, eða músagildra sem er býsna kröpp beygja og ótrúleg upplifun að skrensa hana fyrir þennan ógnvænlega niðurhalla.  Á hraðasta beina kafla brautarinnar var hægt að ná um 230 km hraða ef farið var hratt úr síðustu beygju fyrir beina kaflann og bremsað eins seint og gerlegt var fyrir beygjuna við enda hans. Eftir þá beygju kom svo annar kafli þar sem 215 km hraða var gerlegt að ná fyrir aðra krappa beygju.  Ávallt sáust hærri og hærri tölur eftir því sem þeir tveir íslensku ökumenn sem í bílnum voru náðu meiri tökum á bílnum.

„Launch control“ og svigakstur

Á öðrum stað við hlið brautarinnar var svo hægt að reyna enn betur dínamíska getu bílsins og hófst hún á kyrrstöðuupptaki með aðstoð „launch control“ búnaði bílsins. Sá búnaður leyfir ökumanni að taka af stað á fullum snúningi vélarinnar, en þá þarf að standa á bremsunni með vinstri fæti, botna bensínið með þeim hægri og sleppa svo bremsunni. Við það þýtur bíllinn af stað eins og um eldflaug væri að ræða. Víst er að bíllinn nær 100 km hraða á minni tíma en uppgefnum 3,1 sekúndum, enda gefur Porsche ávallt upp mjög hógværar frammistöðutölur bíla sinna. Fullyrt hefur verið að fyrri kynslóð bílsins hafi náð hundraðinu á 2,7 sekúndum svo búast má við að það sé gerlegt á 2,5 sekúndum á þessum nýja bíl og grunaði ökumanni það sterklega er þetta var reynt.

Ógerlegt er að halda haus við þessi átök og endar höfuð ökumanns ávallt í hauspúðanum við öll þessi átök og kinnarnar þrýstast aftur með andlitinu. Í framhaldi af þessum spretti tekur svo við stórt svæði þar sem komið hafði verið fyrir keilum sem fari átti á milli í svigi og skrikaði bíllinn þá gegnum hverja beygju. Því fylgdi gríðarmikill hávaði og eins gott að halda fast í stýrið því veggrip bílsins er svo gott að mikla krafta þarf til að ná að skrika bílnum í þessum kröppu beygjum.

Ótrúlegt ökutæki

Ekki tók verra við þegar teknir voru tveir stórir hringir um sveitirnar í kring, annar 120 og hinn 160 km langir. Lágu þeir báðir um fagrar sveitir, fallega sveitabæi og kafla á hraðbrautum þar sem hámarkshraði er ótakmarkaður. Þar sem hámarkshraði bílsins er 318 km/klst var að sjálfsögðu markmiðið að ná sem næst því. Mikil umferð á hraðbrautunum komu hinsvegar í veg fyrir að því yrði að fullu náð, en þó sást tala rétt yfir 280. Ennþá átti þessi ótrúlegi bíll nóg eftir er þeim hraða var náð og ekki tók það heldur langan tíma.

Bíllinn er aðeins 10,1 sekúndu að ná 200 km hraða og hraðaaukningin heldur bara áfram jafnhratt uppfrá því. Þvílíkt ökutæki. Engu að síður var öryggistilfinning ökumanns jafn mikil og aldrei fannst honum bílnum ofboðið við öll þessi átök. Hann er einfaldlega smíðaður fyrir slíkt.  Fyrir bíl með þessa akstursgetu er hreint magnað hve auðvelt er að aka honum og á það alls ekki við flesta þá bíla sem standa honum að sporði hvað afl og upptöku varðar.

Bæting á öllum sviðum

Sjö gíra PDK sjálfskipting bílsins er algerlega óaðfinnanleg og engin leið væri að skipta bílnum betur með beinskiptingu. Í reynsluakstrinum í Þýskalandi var einnig prófað eintak af bílnum sem ekki er með S í enda nafnsins og er hann þá „aðeins“ 520 hestöfl. Virkilega þurfti að leita að muninum á þessum tveimur bílum, en þó fannst örlítill munur á millihröðun bílsins. Í þessari nýju kynslóð Porsche 911 Turbo er fyrsta sinni komin afturhjólastýring í bílinn og geta afturhjólin snúið mest 2,8 gráður öfugt við framhjólin, allt til að fara megi hraðar í beygjur. Afturhjólin geta líka beygt allt að 1,5 gráðu í sömu átt og framhjólin, sem eykur stöðugleika bílsins á mikilli ferð og til hraðra akreinaskipta.  

Lengra er á milli öxla bílsins en á forveranum og eykur það einnig stöðugleikann. Bíllinn er með vindkljúfa að framan og aftan sem spretta fram eftir hraða bílsins og negla hann á veginn og magnað er að sjá hvernig þeir virka. Enn á ný hefur því Porsche tekist að smíða bíl sem bætir miklu við getu síðustu kynslóðar, en hver sem er getur ekið. Einnig er með hreinum ólíkindum hvað Porsche hefur bætt eyðslu- og mengunartölur um leið og afl. Það er ótrúlegt að aka bíl sem efast má um að nokkur annar bíll getur sigrað á öllum sviðum aksturs og þó eru margir þeirra miklu dýrari. Það eru engin takmörk fyrir því hvað verkfræðingum Porsche tekst og alltaf vekur það furðu hve mikið þeir geta bætt bíla sína.

Kostir:Akstursgeta, afl, fegurð

Ókostir:Dýr, allir að horfa

3,8 l. bensín, 560 hestöfl

Fjórhjóladrif

Eyðsla: 9,7 l./100 km í bl. akstri

Mengun: 227 g/km CO2

Hröðun: 3,1 sek.

Hámarkshraði: 318 km/klst

Verð frá: 20.000.000 kr.

Umboð: Bílabúð Benna

Bíll og ökumaður tilbúnir í næstu hringi á brautinni
Ekki óvistlegt vinnuumhverfi
Þær gerast ekki fallegri innréttingarnar
Mörg hundruð milljón króna virði af Porsche 911 Turbo S við upphaf reynsluaksturs





×