Það er líka staðreynd að freistingarnar umkringja okkur á afskaplega þrúgandi máta í nútíma samfélagi. Við þurfum ekki annað en að opna Facebook eða Instagram til að fá það beint í æð að einhversstaðar er einhver vinur okkar að gúffa í sig hamborgara sem á þessari stundu virðist vera girnilegasti hamborgari í heimi og örlitlu neðar í straumnum sjáum við vininn sem er að skála í ísköldum bjór við vinnufélagana „Einn hrímaður hérna megin, #meistaram hvað?“.
Til þess að vinna bug á freistingum lífsins þarf bæði viljastyrk og sjálfsaga.
Eitt er að setja sér falleg og góð markmið, annað er síðan að fylgja þeim staðfastlega eftir. Til þess þarf viljastyrk.
Margir segjast ekki hafa neinn viljastyrk og hafi enga stjórn á sér gagnvart freistingum.
Góðu fréttirnar eru þær að viljastyrk er hægt að þjálfa upp. Til þess eru fjölmargar leiðir en fyrsta skrefið er að átta sig á því að freistingarnar og viljinn til þess að uppfylla þrár sínar samstundis munu alltaf verða þarna, það er einfaldlega eitthvað sem allir þurfa að lifa með. Með því að setja sér bæði skýr og ákveðin markmið ásamt því fylgja þeim eftir af sannfæringu er hinsvegar hægt að venja sig á að standast freistingarnar.

Viljinn sem þarf til þess að sannfæra sig um að freistingin gefi af sér minni ávinning en það að standast hana krefst styrks, aga og skilnings á sjálfum okkur. Í slíkum aðstæðum er lykilatriði að veita sér hvatningu með því að hugsa bæði um heildarmyndina sem og útkomuna sem sóst er eftir.
Það talaði aldrei neinn um það að auðvelt yrði að komast í gegnum októbermánuð fylltan af breytingum sem krefjast einbeitingar og aðhalds. Þeir sem hingað til hafa ekki rekist á sínar hindranir munu gera það síðar og þeir sem hafa átt erfitt með að fylgja sínum markmiðum eftir í upphafi mánaðarins eiga eftir að rekast á fleiri freistingar. En vitiði til, eins og í svo mörgu öðru þá á tilgangurinn það til að helga meðalið.
Við viljum því senda alla þáttakendur Meistaramánaðarins inn í helgina með heilög orð Destiny’s Child, um mikilvægi þess að sýna sinn innri styrk til þess að komast yfir erfiðari hjalla lífsins, að leiðarljósi.