Handbolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Fram - Stjarnan 21-24

Guðmundur Marinó Ingvarsson í Safamýri skrifar
Mynd/Arnþór
Stjarnan er enn með fullt hús stiga á toppi Olís deildar kvenna í handbolta eftir 24-21 sigur á Fram í Safamýrinni í kvöld.

Fram hampaði Íslandsmeistaratitlinum í Safamýrinni í vor eftir sigur á Stjörnunni og hóf leikinn með látum og skoraði fimm fyrstu mörk leiksins. Liðið var komið sjö mörkum yfir áður en níu mínútur voru liðnar af leiknum, 8-1.

Það virtist sem Stjarnan hafi verið að horfa á A-landslið karla í knattspyrnu í stað þess að hita upp fyrir leikinn en er leið á fyrri hálfleik komst liðið betur og betur inn í leikinn.

Stjarnan reyndi að keyra upp hraðann strax í frá byrjun og keyrði hraða miðju hvað eftir annað sem liðið réð ekki við og Fram fékk mörg mörk úr hraðaupphlaupum á móti. Eftir að Stjarnan fór að ráða betur við hraðann náði liðið að minnka muninn í tvö mörk fyrir hálfleik, 12-10.

Stjarnan jafnaði metin strax í upphafi seinni hálfleiks og var komið yfir eftir aðeins fjögurra mínútna leik 14-13.

Eftir slakar upphafsmínútur leiksins lék Stjarnan frábæra vörn og til marks um það átti Fram í mestu vandræðum með að skapa sér færi manni fleiri og tapaði liðið boltanum ítrekað í þeirri stöðu í stað þess að ná skoti á markið.

Stjarnan náði mest fjögurra marka forystu í seinni hálfleik en Fram gafst aldrei upp og því hélst spenna í leiknum nánast allt til leiksloka.

Skúli: Vissum að við fengjum mótspyrnu„Við gerðum okkur rosalega erfitt fyrir. Á móti svona góðu liði eins og Fram á útivelli, 8-1, það er ekki góð byrjun. Það er mjög erfitt verkefni,“ sagði Skúli Gunnsteinsson þjálfari Stjörnunnar.

„Við vissum fyrir leikinn að við eigum mjög góða vörn ef við tjöldum henni almennilega og við náðum ekki að byrja þannig. Við vorum að klaufast áfram og vorum ekki ákveðnar en þegar við náum vörninni upp þá náum við að snúa leiknum svona rosalega. Líka að halda þeim í aðeins 21 marki eftir að hafa verið búinn að gefa þeim átta mörk á níu mínútum. Tölurnar gefa ekki til kynna þessa byrjun.

„Við höfum verið þokkalega ánægð með hraðaupphlaupin okkar og sóknina hjá okkur en hún var erfið í dag. Við vorum með hræðilega sóknarnýtingu í fyrri hálfleik. Við náðum að rétta úr kútnum og er mjög ánægður með seinni hálfleikinn,“ sagði Skúli en Stjarnan vann örugga sigra í fjórum fyrstu leikjunum sínum á tímabilinu og var þetta í fyrsta sinn sem liðið fékk virkilega harða mótspyrnu.

„Við vissum að við myndum fá mótspyrnu í dag. Þetta lið er vant að spila erfiða leiki. Mér finnst bara frábær karakter að við náðum að bjarga leiknum í jafnan leik fyrir hálfleik. Það er ekkert í handbolta að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik.“

Halldór: Vantaði klókindi og trú„Við fáum óskabyrjun og spilum okkar besta handbolta í vetur fyrsta korterið. En ef maður er raunsær í svona leik þá veit maður að hitt liðið kemur hægt og rólega inn í leikinn og það gerðist eins og við vissum,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari Fram eftir leikinn í kvöld.

„Ég er ósáttastur við fyrstu tíu mínútur seinni hálfleiks.  Við töpum þar fjórum mörkum strax. Það var sá kafli sem fer með trúna hjá okkur. Við höfum trú á að við getum unnið öll lið í deildinni en þegar þær komast tveimur, þremur mörkum yfir þá missum við trúna.

„Við dettum líka í þann pakka að skjóta illa á Floru (Florentinu Stanciu markvörð Stjörnunnar). Hún ver frá okkur þrjú, fjögur dauðafæri á þessum kafla og þetta verður okkur erfitt.

„Ég er sáttur við mína leikmenn að mjög mörgu leyti og við erum klárlega að bæta okkur. Það er það sem skiptir máli,“ sagði Halldór.

„Við erum með Steinunni (Björnsdóttur) ekki einu sinni á einum fæti. Hún er á hvorugum fæti nánast. Hún sneri sig illa í gær og er búin að vera meidd allt tímabilið í hinum fætinum og er búin að vera haltrandi í hverjum einasta leik. Hún er búin að gefa ótrúlega mikið af sér og spilar 60 mínútur í dag samt og sýnir hversu mikill karakter býr í okkar liði. Með hana heila hefðum við átt möguleika á öllum stigunum. Það vantar reynslu í liðið.

„Hafdís (Shizuka Iura) kemur frábær inn og skorar tvö frábær mörk og bara eins og þessar ungar stelpur eru. Ég er búinn að vera mjög ánægður með þær. Það má líka nefna Elvu (Þóru Arnardóttur) sem var frábær í vörninni. Við spiluðum okkar bestu vörn í vetur. Við erum með ungt lið og þurfum að halda áfram að vinna í okkar málum. Ég er svekktur að tapa þessum leik þegar þú kemst í þá stöðu að vera í jöfnum leik. Það vantaði klókindi og trú í mitt lið á ákveðnum kafla,“ sagði Halldór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×