Bíó og sjónvarp

Ísland meðal tökustaða í Transformers

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Leifur vildi ekki gefa upp tökustaði Transformers-myndarinnar (t.v.) og Jupiter Ascending að svo stöddu.
Leifur vildi ekki gefa upp tökustaði Transformers-myndarinnar (t.v.) og Jupiter Ascending að svo stöddu.
Meðal verkefna sem framleiðslufyrirtækið Truenorth kom að á árinu voru kvikmyndirnar Transformers: Age of Extinction eftir Michael Bay og Jupiter Ascending í leikstjórn Wachowski-systkinanna.

Í báðum tilfellum er um umfangsmikla framleiðslu að ræða en tökurnar hér á landi einskorðuðust við loftmyndatökur af íslenskri náttúru. Leifur P. Dagfinnsson hjá Truenorth vill þó ekki gefa upp hvar tökurnar fóru fram.

„Nei ekki að svo stöddu. Við verðum að virða sjónarmið kúnna okkar,“ segir Leifur en að hans sögn voru á milli 20 og 30 manns í hvoru tökuliði fyrir sig, en þau voru skipuð erlendu jafnt sem innlendu starfsfólki.

Ísland hefur verið vinsæll áfangastaður kvikmyndagerðarfólks undanfarin misseri og svo virðist sem vísindaskáldsögumyndir sé sú tegund mynda sem helst er tekin hér.

„Landslagið er auðvitað stór þáttur í þessu en 20 prósenta skattaafslátturinn hjálpar til. Hins vegar ef við ætlum að vera samkeppnishæfari verðum við að gera enn betur, sérstaklega í ljósi þess að nú mun líklega draga úr framleiðslu á innlendu, leiknu efni vegna afturköllunina á framlögum til Kvikmyndasjóðs.“

Ísland ekki ódýrasta land í heimi

Leifur talar um 25 til 30 prósenta afslátt eða að bjóða erlendu kvikmyndagerðarfólki aflandskrónur á lægra gengi. „Eins og staðan er núna þá sleppur þetta, en Ísland er alls ekki ódýrasta land í heimi. Allir sem hingað koma tala um hvað vinnuaflið hér sé öflugt og fólkið þægilegt og þess vegna verðum við að halda þessu gangandi,“ segir Leifur.

Aðspurður hvort hugmyndum um frekari afslátt hafi verið komið áleiðis til nýrrar ríkisstjórnar segir Leifur að verið sé að vinna í því. „Við erum alltaf að vinna í því að koma þeim á framfæri. En það þarf klárlega að setjast niður með þeim undir fjögur augu og fara yfir þetta. Við erum að taka saman tölur og gögn fyrir síðasta ár til að hafa í höndunum til að sýna fram á hvaða þýðingu þetta hefur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.