Tónlist

Ældi á sviðið á tónleikum Ælu

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Eitt af óvenjulegri atvikum Iceland Airwaves í ár átti sér stað á tónleikum Ælu á Gamla Gauknum á laugardagskvöld. Áhorfandi fór upp á svið á miðjum tónleikum og kastaði upp.

Liðsmenn Ælu létu atvikið ekki slá sig út af laginu og héldu áfram að spila. Áhorfandinn var fjarlægður af sviðinu af starfsmönnum staðarins en uppákoman vakti mikla kátínu meðal áhorfenda.

„Þetta var bara gjörningur hjá þessum áhorfenda - það mega allir æla á sviðinu okkar,“ segir Sveinn Helgi Halldórsson, bassaleikari Ælu. „Þetta atvik setti skemmtilegan svip á tónleikana og við slógum eiginlega í gegn. Það var mjög fjölmennt og strákarnir í hljómsveitinni Midlake mættu og skemmtu sér mjög vel. Við spiluðum svo aftur á sunnudagskvöldinu og þá var aftur allt fullt.“

Tónleikar Ælu reyndust heldur betur gæfuríkir því sveitin nældi sér umboðsmann á tónleikunum á laugardag. „Ég spurði salinn hvort það væri einhver til í að vera umboðsmaðurinn okkar. Það voru fjórir sem buðu sig fram,“ segir Sveinn Helgi.

Myndband af þessu ótrúlega atviki má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×