Viðskipti innlent

Reykjavík leggur CNN undir sig í nóvember

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Sjónvarpsþátturinn var frumsýndur í morgun á CNN og verður endursýndur á laugardag.
Sjónvarpsþátturinn var frumsýndur í morgun á CNN og verður endursýndur á laugardag.
CNN fjallar um Reykjavík í nóvember, bæði á ferðastöðinni CNNGo og á vefsíðu CNN. Þar birtust meðal annars greinarnar Thermal pools and comfy sweaters og 11 of Reykjavik's coolest bars í morgun, auk fleiri greina, en einnig var sýndur sjónvarpsþáttur sem tekinn var hér á landi yfir Iceland Airwaves-hátíðina sem haldin var í byrjun mánaðar.

Kamilla Ingibergsdóttir, kynningarstjóri hátíðarinnar, segir CNN hafa haft samband við forsvarsmenn Iceland Airwaves og viljað koma og fylgjast með hátíðinni. „Það kom tveggja manna tökulið sem var í Reykjavík yfir alla hátíðina, að forvitnast um borgina, þvælast um og skoða og gera skemmtilegt,“ segir Kamilla, og telur hún að myndir og greinar tali sínu máli.

„Þeir fóru til dæmis og tóku upp tónleika Ólafar Arnalds og svo fylgdi Unnsteinn í Retro Stefson þeim um borgina. Hann var svona þeirra „local guide“.“

Sjónvarpsþátturinn var frumsýndur í morgun á CNN og verður endursýndur á laugardag klukkan hálf sex að morgni og svo aftur á sunnudag klukkan 13:30. Frá og með morgundeginum verður síðan hægt að horfa á þáttinn á vefsíðu CNN.

Fylgjast má með Reykjavíkurskrifum CNN á ferðasíðu stöðvarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×