Sport

Jón Margeir hjálpaði karlasveit Fjölnis að bæta tólf ára Íslandsmet

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Margeir Sverrisson.
Jón Margeir Sverrisson. Mynd/Fésbókarsíða Jóns Margeirs
Jón Margeir Sverrisson setti fimm Íslandsmet á fyrsta degi Íslandsmeistaramótsins í 25m laug sem hófst í Ásvallalaug í Hafnarfirði í kvöld og heldur síðan áfram í dag og á morgun. Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra fer fram samhliða Íslandsmótinu

Jón Margeir kórónaði afmælisdaginn sinn, 21 árs í dag, með því að synda fyrsta sprettinn með boðsundssveit Fjölnis í 4 x 200 metra skriðsundi en Fjölnir vann gullið og bætti tæplega þrettán ára gamalt Íslandsmet.

Fjölnismenn syntu á tímanum 7.34,50 mínútum og settu Íslandsmet en gamla metið átti sveit SH, 7.35,34 og var það frá því í mars árið 2001. Sveit Fjölnis skipuðu þeir: Jón Margeir Sverrisson, Kristinn Þórarinsson, Hilmar Smári Jónsson og Daníel Hannes Pálsson.

Jón Margeir hafði fyrr um daginn tvíbætt Íslandsmet sitt í 400 metra skriðsundi, sett met í 200 metra flugsundi og fyrsti spretturinn hans í boðssundinu var Íslandsmet í 200 metra skriðsundi. Jón Margeir hjálpaði síðan eins og áður sagði Fjölni að setja Íslandsmet í boðsundinu.

Eygló Ósk Gústafsdóttir úr Ægi bætti eigið Íslandsmet í tveimur greinum. Fyrst í í 200 metra baksundi þegar hún synti til sigurs á tímanum 2.06,59 mínútum. Gamla metið hennar var 2.07,10 mínútur frá því í desember 2011.

Eygló var þó ekki hætt og setti einnig Íslandsmet í 200 metra fjórsundi er hún synti á tímanum 2.13,41 mínútum og bætti gamla metið sitt frá því í október 2011 um tæpar tvær sekúndur (2.15,10 mínútur).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×