Viðskipti innlent

Síminn segir netöryggi landsmanna ekki hafa verið ógnað

Kristján Hjálmarsson skrifar
Bandaríska fyrirtækið Cisco hefur staðfest að bilun í hugbúnaði hafi verið orsök þess að netumferð fór ranglega um kerfi Símans í Montreal á leið sinni á áfangastað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum.

Fram kom á Vísi í lok nóvember að netvöktunarfyrirtækinu Renesys, sem fylgist með umferð á netinu út um allan heim, hafi haldið því fram að gagnastreymi á netinu hefði verið „rænt“ nokkrum sinnum á árinu og því beint í gegnum Ísland og Hvíta-Rússland. Þar kom fram að ræningjarnir hefðu beint sjónum sínum að ákveðnum borgum og voru þeir taldir hafa verið til að safna upplýsingum af fjárhagslegum toga. 

Nú hefur hins vegar annað komið í ljós, að því er segir í tilkynningu Símans

„Orsakagreining Cisco (e. Root Cause Analysis) staðfestir að engin merki eru um að gögnin hafi verið misnotuð við þessa röngu hegðun í hugbúnaðinum nú síðsumars. Netöryggi Íslendinga eða annarra var því ekki ógnað þótt umferðin hafi farið um kerfi Símans,“ segir í tilkynningunni.

Ástæða bilunarinnar greindist eftir ítarlega orsakagreiningu á búnaðinum.

„Bilunin varð uppspretta vangaveltna í erlendum og íslenskum netmiðlum um að gögnin hefðu hugsanlega verið misnotuð og vísvitandi beint á rangan aðila. Eins og Síminn greindi þá frá var slíku ekki til að dreifa og ekkert benti til þess að um viljaverk hefði verið að ræða. Með orsakagreiningu Cisco er það staðfest.

Endanlega var komist fyrir bilunina þann 22. ágúst sl. þegar hugbúnaðurinn var uppfærður. Síminn ítrekar að netöryggi Íslendinga eða annarra var ekki ógnað við bilunina,“ segir í tilkynningunni frá Símanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×