Viðskipti innlent

Þrefalda framleiðslu á íslensku eldsneyti

Svavar Hávarðsson skrifar
Verksmiðjan breytir koltvísýringsútblæstri frá virkjun HS Orku í metanól, sem fljótandi eldsneyti fyrir bíla og önnur farartæki.
Verksmiðjan breytir koltvísýringsútblæstri frá virkjun HS Orku í metanól, sem fljótandi eldsneyti fyrir bíla og önnur farartæki. mynd/CRI
Carbon Recycling International (CRI) vinnur nú að stækkun verksmiðju sinnar við jarðvarmavirkjun HS Orku við Svartsengi og þrefaldar framleiðslugetu sína á metanóli fyrir mitt næsta ár.

Í bandaríska stórblaðinu Wall Street Journal er fjallað um kosti metanóls sem orkugjafa í samhengi við framtíðarskuldbindingar Bandaríkjanna um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Þar er CRI sérstaklega nefnt sem dæmi um hvað sé mögulegt og æskilegt, enda leiðandi fyrirtæki í heiminum á þessu sviði. 

Ólafur E. Jóhannsson, upplýsingafulltrúi CRI, segir að framkvæmdir standi nú yfir við verksmiðjuna í Svartsengi. Nú séu framleiddar 1,7 milljónir lítra á ári en um mitt næsta ár verður framleiðslan 5,1 milljón lítra.

Fjallað er um tæknina sem CRI notar til að framleiða eldsneyti úr koltvísýringi í stórblaðinu Wall Street Journal á fimmtudag. Þar halda á penna George Olah, nóbelsverðlaunahafi í efnafræði, og Chris Cox, fyrrverandi þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og stjórnarformaður verðbréfa- og kaupþingsnefndar Bandaríkjanna (SEC). Olah hefur sinnt ráðgjafastörfum fyrir CRI.

Tilefni skrifanna er stefnumörkun bandarískra stjórnvalda um hvernig má draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Í greininni er útskýrt hvernig framleiðendur í Bandaríkjunum votta bíla til notkunar með blöndu bensíns og etanóls, sem unnið er úr korni. Etanól hafi rutt öllum öðrum íblöndunarefnum í bensín úr vegi á grundvelli þrýstings frá kornbændum. Þingmenn geti brugðist við með því að samþykkja fyrirliggjandi frumvarp sem yrði þess valdandi að t.d. metanól, jarðgas og lífdísill myndu keppa á sama grunni og etanól án landbúnaðarstyrkja.

Þeir Olah og Cox komast að þeirri niðurstöðu að CRI hafi þegar sýnt fram á tæknilega og viðskiptalega hagkvæmni þess að fanga útblásturinn og breyta honum í eldsneyti og fyrirtækið sé í forystu á þessu sviði í heiminum.

Þeir benda á að metanólblandað bensín sé notað í milljónir bíla í Evrópu og BNA séu langt á eftir í þeirri þróun vegna fyrrnefnds lagaumhverfis.

Carbon Recycling International er ásamt níu öðrum tilnefnt til Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandsráðs. Tilkynnt verður hver hlýtur verðlaunin við hátíðlega athöfn í Ósló 30. október næstkomandi.

CRI og Orkuveita Reykjavíkur hafa rætt hugmyndir um að koma upp metanólverksmiðju við Hellisheiðarvirkjun, auk verksmiðju sem framleiðir brennisteinssýru úr brennisteinsvetnismengun frá orkuverinu. Mengun brennisteinsvetnis er vandamál sem OR vinnur að því að leysa.

Eins hefur CRI á teikniborðinu að byggja tífalt stærri verksmiðju á Reykjanesi en nú er starfrækt við Svartsengi.

Markaður fyrir endurnýjanlegt fljótandi eldsneyti í Evrópu er talinn munu tvöfaldast fyrir árið 2020. 

Evrópusambandið stefnir að því að setja hámark á notkun lífeldsneytis sem unnið er úr landbúnaðarafurðum frá og með næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×