Körfubolti

Siggi Ingimundar: Var Kjartan inn á vellinum í gær?

Það andar köldu á milli Sigurðar og Kjartans Atla.
Það andar köldu á milli Sigurðar og Kjartans Atla. Samsett mynd/Sylvía
Kjartan Atli Kjartansson, leikmaður Stjörnunnar, var ekki ánægður með framkomu Sigurðar Ingimundarsonar, þjálfara Keflavíkur, í leik liðanna í gær. "Ég ætla að kasta kveðju á Sigurð Ingimundarson fyrir að segja að ég geti ekki neitt í körfubolta. Það er alltaf gaman þegar fyrrum landsliðsþjálfarar haga sér svona og eru að rífa kjaft við mann. Íþróttinni til sóma," sagði Kjartan Atli við karfan.is í gærkvöld.

Vísir heyrði í Sigurði í dag og spurði hann út í þessu meintu ummæli í garð Kjartans Atla.

"Hann ætti kannski að einbeita sér að leiknum frekar en að því hvað ég segi. Ég sagði ekkert við hann. Var hann annars inn á? Ég veit það ekki," sagði Sigurður en af hverju heldur hann að Kjartan sé svona sár?

"Ég þekki hann ekki neitt og hef aldrei talað við hann. Ég kann ekkert illa við hann og veit ekkert um hann. Ég sagði ekkert við hann. Hann hefur bara verið pirraður út af leiknum og fundist frábær hugmynd eftir leik að segja þetta. Það er allt í lagi. Hann má gera það eins og hann vill," sagði Sigurður en er Kjartan þá að ljúga?

"Ég veit ekkert hvað hann er að gera. Ég hef ekki hugmynd um það. Mér finnst það ekki skipta máli."

Það var annars mikill hiti í leiknum í gær og munaði litlu að upp úr syði.

"Þetta er bara úrslitakeppnin. Fólki leiðist ekkert að það sé smá líf í þessu. Menn eru að reyna að vinna," sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×