Veiði

Túnfiskveiðar við Lagarfljót ganga vel

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hafdís Anna Svansdóttir tók fagnandi urriðunum sem vorleysingar úr Lagarfljóti skiluðu upp á tún á Finnsstöðum.
Hafdís Anna Svansdóttir tók fagnandi urriðunum sem vorleysingar úr Lagarfljóti skiluðu upp á tún á Finnsstöðum. Mynd/Hjördís Ólafsdóttir
Fjölskyldan á Finnsstöðum við Lagarfljót heldur í gamlar hefðir og veiðir urriða sem leitar í skurði í heimatúnum bæjarins í vorleysingum. Vel veiddist í þetta sinn. Sonur hjónanna á bænum skipti silungi fyrir hamborgara á hóteli á Seyðisfirði á árum áður.



„Það var meiri veiði núna en verið hefur undanfarin ár enda vatnið náttúrlega margfalt meira,“ segir Svanur Hallbjörnsson bifvélavirki sem gerði ágæta silungsveiði á túni við Lagarfljót um síðustu helgi.

Svanur er fæddur og uppalinn á Finnsstöðum rétt utan við Egilsstaði og sonur hjónanna sem þar búa enn. Um helgina var Svanur þar með konu sinni og börnum þegar Lagarfljót flæddi yfir bakka sína og inn yfir engi og upp á tún bæjarins. Tækifærið var notað til að leggja silunganet í kíl sem liggur að fljótinu.

„Þetta hefur verið gert síðan ég man eftir mér og alveg frá því í tíð forfeðra minna,“ segir Svanur sem kveður árangurinn nú hafa verið býsna góðan þær tvær nætur sem net voru lögð. Stærsti fiskurinn að þessu sinni hafi verið rúmlega tvö pund.

„Þegar snjóa leysir hækkar yfirborðið í fljótinu, mismikið eftir snjómagni. Þá flæði vatnið upp á nesið fyrir neðan bæinn og er eins og hafsjór að horfa yfir,“ útskýrir Svanur sem kveður vaðið og veitt í kílum sem venjulega yfir sé hægt að stökkva yfir. Þar sé moldarbotn sem fiskur leiti alla jafna ekki mikið í.

„En um leið og vatnið hækkar þá kemur fiskurinn og þá alveg inn á tún. Þarna hendir maður bara netinu niður,“ segir Svanur.

Í ljósi nýlegra fregna um bágt ástand lífríkis Lagarfljóts er Svanur spurður hvort hann í gegn um þennan árlega veiðiskap hafi tekið eftir breytingum. Hann segist ekki átta sig á þeim. „Þó fannst mér á tímabili veiðast færri fiskar en vatnið var þá að vísu minna,“ svarar hann.

Tólf til fjórtán fiskar komu í netin hvora nótt hjá Svani og fjölskyldu. Nánast full net segir hann.

Urriðarnir sem veiddust um helgina voru á bilinu eitt til rúmlega tvö pund.Mynd/Hjördís Ólafsdóttir
En er urriðinn úr Lagarfljóti góður matfiskur?

„Nei, hann er það náttúrlega ekki þanneiginn,“ játar Svanur. „En fiskurinn er misjafn. Það hefur alltaf verið moldarbragð af sumum en aðrir eru ágætir.“

Sem fyrr segir hefur þessi veiðiskapur, sem heimafólkið kallar „túnfiskveiðar“, verið stundaður um langan aldur á Finnsstöðum.

„Þegar ég var pjakkur var maður með tvö til þrjú net og veiddi kannski 100 til 150 fiska. Þá var farið með fiskinn og bíttað við kokkinn á Hótel Herðubreið á Seyðisfirði. Maður fékk tíu hamborgara fyrir höldupoka af silungi. Það var ágætt þegar maður var krakki,“ segir Svanur Hallbjörnsson.






×