Handbolti

Hnémeiðslin eru ekki genatengd

Örn Ingi.
Örn Ingi.

Örn Ingi Bjarkason lék ekkert með liði Aftureldingar eftir áramót en hann fór í erfiða hnéaðgerð í desember.

„Brjóskið var alveg farið á einum stað í hnénu og því þurfti að bora og mynda nýjan vef. Þetta var flókið og ég er enn langt frá því að vera 100 prósent góður. Þetta tekur sinn tíma,“ segir hinn 23 ára gamli Örn Ingi en hann vill ekki meina að hnémeiðslin séu genatengd en faðir hans, Bjarki Sigurðsson, glímdi við hnémeiðsli lungann af sínum ferli. „Verður ekki allt vitlaust ef ég segi það,“ segir Örn léttur.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að norsk félög hafi verið með Örn undir smásjánni. Hann játar því en segist ekki hafa heyrt frá þeim lengi. Hann sér ekki fram á að fara út á næstunni þó svo að hann stefni út síðar.

„Það stefnir í að ég verði áfram í Aftureldingu. Það er líka skynsamlegt fyrir mig því þá get ég stýrt betur álaginu á hnénu og náð mér alveg góðum. Auðvitað er ég samt alltaf að horfa út og ég mun skoða þá möguleika sem koma upp. Hnéð gengur þó fyrir núna,“ segir Örn Ingi en hann hvorki hleypur né hoppar enn sem komið er í endurhæfingunni. Hann hjólar og syndir aðallega og fær svo æfingar frá sjúkraþjálfara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×