Veiði

Minkurinn magnaður skaðvaldur

Jakob Bjarnar skrifar
Tyson með mink í kjaftinum. Tyson er einhver besti minkahundur sem sögur fara af.
Tyson með mink í kjaftinum. Tyson er einhver besti minkahundur sem sögur fara af.
„Tyson hefur líf mörg hundruð minka á samviskunni. Það hefur aldrei verið haldið utan um það,“ segir Birgir Hauksson veiðimaður með meiru.

Birgir er að tala um hundinn sinn hann Tyson, einhvern besta minkaveiðihund sem sögur fara af. Hann verður sjö ára á árinu og er Terríer-blanda, mest Fox Terrier. „Hann er afkomandi hunda sem voru haldnir á vegum veiðistjóraembættisins meðan það var til. Við erum tveir félagarnir, ég og Jón Pétursson, sem erum nú með sex svona hunda sem við höldum í minkahúsi veiðistjóra, sem við höfum á leigu. Við lánum þá út þegar svo ber undir.“

Birgir býr í Reykjavík en heldur mikið til í Skorradal við veiðar og víða um Borgarfjörð.

Birgir er alhliða veiðimaður. Hefur farið talsvert út til að stunda skotveiðar; veitt birni, villigelti og dádýr. „Ég gerði þetta meðan krónan var skapleg,“ segir Birgir. Og hann hefur fengist við minka- og refaveiðar í áratugi. Byrjaði reyndar að fást við þetta sem gutti. Hann segir minkinn miklu meiri skaðvald en flestir geri sér grein fyrir. Bæði í fugli og fiski. Í bæli sem hann vann nýverið voru til dæmis níu níveiddir stokkandarungar ásamt heilum haug af laxaseiðum og reyndar flundru líka. Birgir segir að það væri glæsilegt ef minkurinn gæti haldið sig við flundruna en það er ekki svo gott.

Hægt að halda þessu í skefjum

„Löng reynsla segir mér það að mink er auðveldlega hægt að halda niðri ef það er unnið skipulega að því og öll sveitarfélög gerðu það sem þau eiga að gera í þessum málum.“ En, þar er misbrestur á. Meðan Skorrdælingar hafa staðið sig með miklum sóma þá hefur Borgarbyggð sett kvóta á minkaveiðimenn. Fyrirkomulag sem Birgir fær engan botn í. Hann nefnir sem dæmi að bakkalengd Grímsár og Tunguár í Lundarreykjadalshreppi hinum forna; sé vel á annað hundrað kílómetrar. Þar má veiða sextán minka og eins gott að sleppa þessu eins og standa í slíku. „Þeim datt þetta í hug eftir hrunið. En, þetta er náttúrulega bara vitleysa,“ segir Birgir.

Minkurinn fer um allt. Flæðir yfir. Einkum karldýr að vori og yfir sumarið. Þá fara þau um allt hálendið og eru þá til dæmis í eggjum og ungum og bara öllu sem þau komast í. Svo þegar vetrar færir hann sig nær sjó.

Skaðræðisskepna og úti um allt

„Minknum verður aldrei útrýmt hér. Það er á hreinu. En, ef það væri áhugi hjá sveitarfélögum og/eða ráðamönnum að halda þessu niðri, þá væri það ekkert mál. Þetta myndi kosta einhverja peninga fyrstu árin. Það þyrfti að ráða menn sem kunna til verka og nenntu þessu. Það tæki um fjögur til fimm ár að ná þessu niður í næstum ekki neitt. Svo yrðu þetta bara einhver eftirlitsstörf þaðan í frá. Og þyrfti ekki að kosta mikið,“ segir Birgir.

Hann ítrekar að minkurinn sé algjör skaðvaldur en menn séu margir hverjir algerlega blindir gagnvart því. Þó ekki stangveiðimenn sem bregður mörgum hverjum við þegar þeir sjá kvikindin synda yfir bestu veiðistaðina að morgni til.

„Þeir sem eru í veiðifélögum sem stunda klak með ærnum tilkostnaði eru ekki kátir þegar minkurinn veður í þetta þegar þessu er sleppt í ána á sumrin. Einn svona læðuminkur, ef hann fer í veiðitúr, tekur tíu laxaseiði á augabragði. Það er bráðnauðsynlegt að þetta kvikindi sé veitt og þá alls staðar. Síðustu tvö árin hef ég verið að veiða hér í Skorradalnum. Í fyrra náði ég í um 120 minka og þar áður 135 minka. Núna, þetta árið, eru ekki komnir nema fimmtíu minkar.“

Tyson – afbragð annarra hunda

Minkaveiðimenn beita ýmsum aðferðum við að ná í minkinn. Gildrur eru mikið notaðar á vorin þegar ætið er minna. Svo eru þeir skotnir með haglabyssum og skammbyssum í návígi. Og oft drepa hundarnir þá einfaldlega. „Þeir eru magnaðir þessir hundar en misjafnir, þótt þeir eigi kyn til. Eru jafnvel úr sama gotinu og geta þeir verið misgóðir. Þessi ræfill, hann Tyson, var hræddur við vatn fyrstu ár ævi sinnar. Sem er ekki gott fyrir minkahund. En, hann vann sér það til lífs að hann er öruggasti minkahundur sem ég hef vitað. Frábærlega gott á honum nefið. Hann finnur lykt af þeim í gegnum heilu árbakkana, og er rólegur og yfirvegaður við þetta. Sumir hundar fara á taugum, tryllast og hlaupa þá í hringi og horfa upp í loftið. Þetta er atvinnuhundur. Algjör minkaforingi.“

Minkur getur farið illa með hund

Þessi tegund – minkahundarnir hans Birgis – verður um tíu ára gömul. Birgir segir enga ættbók til um hundana. Sumir minkahundar geta reynst grimmir og stórhættulegir. En, Tyson er bara grimmur við minkinn. „Þessi er svo góður að dætur mínar kássast með hann, klappa honum og svona. Það er einn kosturinn sem ég sé við hann. Geðgóður og rólegur. Svo hefur hann engan áhuga á fuglum. Galli getur verið við minkahunda að þeir eiga til að hlaupa á eftir fuglum eins og vitleysingar.“

Birgir segir að viðureign hunds við mink geti verið mismunandi. Ef um hvolpa eða læður er að ræða tekur það hundana ekki langan tíma að drepa þá. En hinir stærri, fressminkarnir, geti reynst erfiðari. Þeir geti hæglega rifið trýnið af hundunum. „Það eru alveg dæmi um að hundar hafi farið illa út úr bardaga við mink, þeir náð að rífa úr þeim auga eða eitthvað,“ segir Birgir.






×