Íslenski boltinn

HK/Víkingur féll úr efstu deild

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
HK/Víkingur leikur í 1. deild að ári.
HK/Víkingur leikur í 1. deild að ári. Mynd/Anton
Nýliðar HK/Víkings lögðu Aftureldingu 2-1 í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í dag. Liðið féll engu að síður úr deildinni.

HK/Víkingur þurfti að vinna þriggja marka sigur til að halda sæti sínu í deildinni á kostnað Mosfellinga. Berglind Bjarnadóttir kom heimakonum yfir snemma leiks og Rachel Marie Wood bætti við öðru marki fyrir hlé og staðan í hálfleik 2-0.

Heimakonum tókst ekki að skora þriðja markið og möguleikinn var algjörlega úr sögunni þegar Sigríður Þóra Birgisdóttir minnkaði muninn í viðbótartíma. Afturelding bjargaði sér þar með frá falli en HK/Víkingur leikur í 1. deild að ári líkt og Þróttur.

FH vann 5-2 sigur á Þrótti í Kaplakrika þrátt fyrir að vera 2-0 undir í hálfleik. Ashlee Hincks skoraði tvö mörk fyrir FH í frábærri endurkomu í síðari hálfleik.

Þróttur var löngu fallinn í 1. deild en FH er í 7. sæti deildarinnar og gat hvorki hækkað sig né lækkað fyrir leikinn.

Upplýsingar um markaskorara frá Úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×