Lífið

Frank Ocean bannar frauðplast í Höllinni

Freyr Bjarnason skrifar
Frank Ocean og starfslið hans vilja ekki sjá frauðplast á tónleikaferð sinni um Evrópu.
nordicphotos/Getty
Frank Ocean og starfslið hans vilja ekki sjá frauðplast á tónleikaferð sinni um Evrópu. nordicphotos/Getty
Fimmtíu manna starfslið í kringum tónleika Franks Ocean í Laugardalshöll 16. júlí leggur mikla áherslu á að allt tengt tónleikaferð hans sé umhverfisvænt og heilsusamlegt.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins vill starfsliðið ekki sjá neitt úr frauðplasti eða plasti, hvorki í búningsherbergjum Oceans og aðstoðarfólks hans né í þeim herbergjum þar sem þau borða matinn sinn á tónleikaferðinni. Þannig má ekki bjóða þeim upp á einnota diska og einnota glös heldur þarf að vera um leirtau að ræða sem hægt er að setja í uppþvottavél.

Rannsóknir hafa gefið til kynna að frauðplast sé mögulega krabbameinsvaldandi efni og því vill Ocean ásamt aðstoðarfólki hafa vaðið fyrir neðan sig.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að kröfulisti Oceans sé annars í hóflegri kantinum. Sagt er að hann leggi mikla áherslu á að geta drukkið heitt te eða heitt súkkulaði í búningsherbergi sínu. Engiferrót og enn fleiri tegundir af tei munu einnig vera á kröfulista hans, enda mikilvægt að rödd þessa sjóðheita söngvara sé í toppstandi þegar upp á svið er komið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.