Olíumálaráðherrann er þarna að svara gagnrýni Greenpeace og fleiri aðila vegna ákvörðunar norsku ríkisstjórnarinnar í síðustu viku að auka þátttöku sína á Drekasvæðinu með því að láta ríkisolíufélagið Petoro ganga inn í þriðja sérleyfið með CNOOC og Eykon Energy.

Norski olíumálaráðherrann undirstrikar að olíustarfsemi á íslenska Drekasvæðinu velti ekki á þátttöku Noregs en rökstyður ákvörðun sína með þessum orðum: „Við teljum að þetta sé spennandi og að við getum fengið meira út úr þessu en sem nemur þeim kostnaði sem við höfum skuldbundið okkur til að leggja í þetta. Við teljum að bæði líti þetta efnahagslega spennandi út og þarna sé eftir nýrri þekkingu að slægjast. Þessvegna erum við með.“
Um mótmæli Greenpeace segir Tord Lien: „Ef þeir bera meira traust til fyrirtækis í eigu kínverska ríkisins en þeir hafa á norsku ríkisfyrirtæki þegar kemur að því að vernda umhverfið, þá verð ég dálítið hissa," en þegar blaðamaður bendir ráðherranum á að hann ætli að vinna með kínverska fyrirtækinu, svarar hann að það sé þá kostur að hafa Petoro með.
Spurður um ásökun Greenpeace um tvöfeldni með því að friða norska hluta Jan Mayen-svæðisins á sama tíma svarar Tord Lien: „Nú er það ekki olíu- og orkumálaráðherrann sem hefur fundið upp á því að hefja ekki starfsemi á þessum svæðum, bara svo það sé alveg skýrt."