Handbolti

Valur skoraði á fimmta tug marka | Haukar lögðu Fylki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stuðningsmenn Vals gátu fagnað góðum sigri í dag.
Stuðningsmenn Vals gátu fagnað góðum sigri í dag. Mynd/Ernir
Bikarmeistarar Vals fóru létt með Aftureldingu í Olísdeild kvenna í handknattleik í dag. Lokatölurnar urðu 41-16 fyrir gestina af Hlíðarenda.

Eins og við mátti búast höfðu gestirnir undirtökin í leiknum og leiddu í hálfleik með þrettán mörkum 19-6. Svipað var upp á teningnum í síðari hálfleik og 25 marka sigur Valskvenna niðurstaðan.

Tíu leikmenn Vals skoruðu í leiknum. Systurnar Rebekka Rut Skúladóttir og Hrafnhildur Skúladóttir skoruðu sjö mörk hvor. Hekla Daðadóttir skoraði sex mörk fyrir heimakonur.

Valur hefur unnið sigur í fyrstu þremur leikjum sínum. Afturelding er á botninum án stiga.

Haukar 32-19 Fylkir

Í Schenker-Höllinni unnu Haukar þrettán marka sigur á Fylki 32-19. Heimakonur höfðu sex marka forskot í hálfleik 16-10 og bættu við forskotið í síðari hálfleik.

Marija Gedroit skoraði átta mörk fyrir Hauka og Kolbrún Gígja Einarsdóttir og Ragnheiður Ragnarsdóttir fimm. Hildur Karen Jóhannsdóttir var markahæst gestanna með sex mörk. Díana Kristín Sigmarsdóttir skoraði fimm.

Selfoss 24-29 ÍBV

ÍBV vann 29-24 sigur á Selfyssingum í leik liðanna á Selfossi samkvæmt því sem fram kemur á Sunnlenska.is. Jafnt var á með liðunum í fyrri hálfleik og leiddu Selfyssingar 17-16.

Enn var leikurinn í járnum framan af síðari hálfleiknum en þá skellti vörn gestanna í lás. Selfyssingar skoruðu eitt mark á síðasta stundarfjórðunginum og ÍBV vann fimm marka sigur.

Grótta 25-21 Þór/KA

Grótta vann 25-21 sigur á Þór/KA á Seltjarnarnesi. Unnur Ómarsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Gróttu. Íris Björk Símonarsdóttir varði 19 skot í markinu. Martha Hermannsdóttir og Birta Fönn Sveinsdóttir skoruðu sex fyrir norðankonur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×