Haftlandinu góða Pawel Bartoszek skrifar 3. janúar 2013 06:00 Leiðtogar Evrópusambandsríkja hittust í janúar 2012 og samþykktu nýjan fjármálasáttmála til bjargar evrunni. Af 27 ríkjum ESB tóku 25 þátt í samkomulaginu, öll nema Bretland og Tékkland. Sáttmálinn setur ýmsar skorður á opinber fjármál aðildarríkjanna, meðal annars með reglum um hámarkshalla og hámarksskuldsetningu og fyrirmælum um sjálfvirk viðbrögð við því að þessi viðmið séu brotin. Þá skuldbinda ríkin sem standa að sáttmálanum sig til að lögfesta reglurnar og viðurkenna lögsögu Evrópudómstólsins í málum sem hann varða. Dómstóllinn mun þannig geta sektað ríki sem skulda of mikið og eyða of miklu. Skilyrði um skuldir og halla ESB-ríkja eru ekki ný af nálinni. Þau var líka að finna í Maastricht-sáttmálanum. Þau reyndust hins vegar ekki margra evrusenta virði en bæði Frakkland og Þýskaland brutu þau strax árið 2002 og viku sér undan sektum, með þeim rökum að "aðstæður væru svo sérstakar" og þau væru "alveg að fara að bæta sig". Það hefði vafalaust aukið trúverðugleika evrunnar ef þessi kjarnaríki ESB hefðu einmitt þurft að greiða sektir eins og hver annar. Það gerðist því miður ekki og hjálpaði kannski til við að skapa vandann. Í fjármálasáttmálanum sem tekur gildi nú um áramót er reynt að festa skilyrðin (aftur) í sessi og meira bit er sett í sektarákvæðin. Tvennt er vert að nefna. Það fyrra er jákvætt fyrir Evrópusinna: Evran enn til. Dauða hennar hefur oft verið spáð undanfarið ár. Paul Krugman spáði í maí síðastliðnum að Grikkland færi úr samstarfinu innan mánaðar og að evran sjálf ætti nokkra mánuði eftir. Þær spár hafa allavega ekki ræst enn og fjármálasáttmálinn er vísbending um að talsverður pólitískur vilji sé til að halda evrunni gangandi. Það síðara kallar á hreinskilnari umræðu um hvað Evrópusambandið sé að verða: Vart er hægt að neita þeim lengur sem halda því fram að Evrópusambandið sé að breytast í sambandsríki. Bretar voru á móti fjármálasáttmálanum. Fjármálasáttmálinn færir aukin völd til stofnana Evrópusambandsins. Í raun hefði átt að breyta Lissabonsáttmálanum til að sú breyting gæti tekið gildi og ættu Bretar að hafa neitunarvald um slíkar breytingar. En þegar á hólminn var komið höfðu þeir einungis neitunarvald um eigin þátttöku. Það er þegar ljóst að sameiginlegt fjármálaeftirlit Evrópusambandsins er á döfinni. Sama gildir um innistæðutryggingakerfi. Ég tek reyndar fram að ég er ekki á móti því að taka þátt í Evrópusambandi sem hefur þessi mál á sinni könnu, þó í því felist frekara valdaframsal. Það er betra en að dúsa næstu áratugi í haftlandinu góða.Með takmarkaðri ábyrgð Enginn er eyland. Ekki einu sinni eylönd eru það. En eylönd eru stundum sjálfhverf. Nú er uppi einhver umræða um "kennitöluflakk". Hér eru nokkrar spurningar sem spyrja mætti á eylandinu: Er kennitöluflakk eitthvað séríslenskt fyrirbæri? Ef já, af hverju? Ef nei, líta aðrar þjóðir á kennitöluflakk sem vandamál? Ef þær gera það, hafa þær einhverjar aðferðir til að sporna við því? Hvernig hafa þær aðferðir reynst? Í staðinn er okkur boðið upp á dæmisögur af mönnum sem stofnað hafa mörg félög, forðast að borga opinber gjöld og vilja meina að það sé allt löglegt því lögmaður þeirra segir það. Þetta er gert á tíma þegar ríkisstjórnin er að leggja fram frumvarp um að breyta lögum um ársreikninga þannig að hægt verði að gera hluthafa persónulega ábyrga fyrir skuldum félagsins ef félagið klúðrar ársreikningum. Segjum að einhver ættingi biðji okkur um að leggja 250 þúsund krónur í einhvern rekstur. Ættinginn er í meðallagi traustur, en okkur finnst hann eiga skilið séns eins og aðrir. Við segjum því: "Jæja þá, ég missi í versta falli þessa peninga." Ákvörðunin yrði eflaust önnur ef við ættum á hættu á að missa húsið ef ættinginn skilar ekki ársreikningi á réttum tíma. Í flestum löndum innihalda skammstafanir fyrir hlutafélög orð eins og "limited" til að tákna að ábyrgð félagsins er takmörkuð við það fé sem hluthafar leggja til. Það er talið mikilvægt til að menn yfirhöfuð nenni að fjárfesta. Hugmyndir ríkisstjórnarinnar brjóta það prinsipp, og erfitt er að sjá hvernig þær hjálpa til við að minnka hið svokallaða "kennitöluflakk". Þær hugmyndir eru þó ekki jafnvondar og lagafrumvarp sem Lilja Mósesdóttir og fleiri þingmenn lögðu fram snemma á kjörtímabilinu. Þar átti að setja í lög að: "Heimilt [væri] að synja félagi skráningar eða afskrá það með hliðsjón af viðskiptasögu stjórnenda og helstu eigenda ef þeir hafa ítrekað verið þátttakendur í rekstri sem farið hefur í þrot." Segjum að menn reki hamborgarasjoppu, verði gjaldþrota, reyni aftur og verði aftur gjaldþrota. Á ekki að leyfa þeim að reyna á ný? Af hverju? Þeir eru reynslunni ríkari. Á að banna mönnum sem hrasað hafa of oft að standa upp? Nú vilja allir styðja vel við bakið á "nýsköpun". Nýsköpun er áhætturekstur þar sem líkur á gjaldþroti eru miklar. Vilji menn "efla umhverfi nýsköpunarfyrirtækja" þá verður það ekki gert með því að gera þeim sem fara á hausinn lífið leitt. Einungis einstaka nýsköpunarfyrirtækjum tekst að lifa af. Árangur Decode, sem selt var í árslok, er þannig stórmerkilegur. Í DV var sölu Decode lýst með þeim hætti að stofnandi fyrirtækisins hefði "sloppið með stórfé". Ráðlegging til þeirra sem vilja stunda viðskipti á haftlandinu góða: Ekki ganga illa. Og ekki ganga vel.Ný stjórnarskrá En auðvitað stendur til að breyta fleiru en lögum um lagaumhverfi hlutafélaga. Heil stjórnarskrá er undir. Þær áhyggjur sem undirritaður hefur haft af stefnu þess máls verða ekki margtuggnar hér en þó er það ánægjulegt að þingið hafi ákveðið að senda málið til Feneyjanefndar Evrópuráðsins. Það er reyndar ástæða til að hafa áhyggjur af því hvort meirihluti þings hafi vilja og burði til að hlusta á þær athugasemdir sem frá Feneyjanefndinni, eða öðrum, kunna að koma. Í það minnsta er ljóst að stór hluti fyrrum fulltrúa stjórnlagaráðs hefur á því takmarkaðan áhuga. Sú fjögurra manna nefnd sem fór yfir tillögur stjórnlagaráðs og samdi upp úr þeim frumvarp túlkaði verksvið sitt þröngt og þær breytingar sem hún gerði frá hugmyndum stjórnlagaráðs voru langflestar til bóta. Engu að síður brugðust margir fyrrum ráðsfulltrúar illa við. Sumir töldu að nefndin hefði gert "efnislegar breytingar" og létu í veðri vaka að hún hefði ekki það umboð. Það er della. Nefndin átti m.a. að gæta að innra samræmi tillagnanna og sjá til þess að þær stæðust alþjóðlega mannréttindasáttmála. Hún mátti auðvitað gera "efnisbreytingar" ef þess þurfti. En meiri della er sú fullyrðing sumra stjórnlagaráðsliða að gagnrýni sem nú kemur fram á frumvarpið, hvort sem er úr háskólunum eða annars staðar frá, komi fram of seint. Auðvitað er það ekki svo, tillögurnar eru enn í mótun, og jafnvel þótt lokatillögurnar væru komnar fram þá væri ekki of seint að gagnrýna þær með það fyrir augum að fá þær felldar. Loks, jafnvel þótt þær yrðu samþykktar væri það auðvitað ekkert of seint til að gagnrýna neitt. Drög að bandarísku stjórnarskránni voru á sínum tíma helst gagnrýnd fyrir skort á mannréttindakafla. Honum var bætt við skömmu eftir að stjórnarskráin tók gildi. Einmitt vegna gagnrýni sem komið hafði fram "of seint".Egg, steinar og eldur Sumt af því sem lesa má um stjórnarskrármálið felur í sér kröfur um að leikreglum lýðræðis og þingræðis verði kastað fyrir róða. Ég hef til dæmis lesið að ef nýkjörið þing samþykki ekki nýja stjórnarskrá þá myndi "fólkið aftur fara á göturnar". Höfum eitt á hreinu. Ef þingmeirihluti er ekki fyrir stjórnarskrárbreytingum á tveimur þingum með kosningum á milli, þá eiga þær ekki að ganga í gegn. Þeir sem bjóða sig fram til þings ættu að vera sammála um að þar, í þinghúsinu, eigi að vera sá staður sem ákvarðanir eru teknar en ekki á stéttinni fyrir framan það. Sumir frambjóðendur Dögunar eru tilbúnir að teygja sig ansi langt til að verja það að rúður hafi verið brotnar í þinghúsinu og kveikt í jólatrjám. Á sama hátt verður að hrósa Jóni Gnarr fyrir að hafa sagt það hreint út að "Reykvíkingar hafi orðið sér til háborinnar skammar" þegar kveikt var í jólatrénu á Austurvelli í janúar 2009. Auðvitað er það satt. Sama þótt það særi ofbeldismenn.Hrun og hrun Sumt breyttist ekkert á árinu. Gjaldeyrishöftin halda sem aldrei fyrr. Nú virðist vera komin þverpólitísk samstaða um að höftin eigi í raun að vera ótímabundin. Sú niðurstaða er auðvitað fátt annað en lýsing á ríkjandi ástandi. Planið um afnám þeirra var ekki að ganga neitt. Ég ætla að leyfa mér að líta um öxl. 1989, árið sem kommúnisminn hrundi í Pólland, var 600% verðbólga í landinu og efnahagurinn í molum. Fyrsti fjármálaráðherrann úr röðum Samstöðunnar, hagfræðingurinn Leszek Balcerowicz, lagði ofurskatta á launahækkanir, heimilaði gjaldþrot ríkisfyrirtækja, afnam gjaldeyrishöft og einkaleyfi ríkisins á innflutningi. Hann gerði líka margt annað, flest drastískt og flest á ógnarhraða. Þáttur Balcerowicz í endurreisn Póllands er mikill en vitanlega er enn í dag fullt af fólki sem hatar hann. Líklegast þarf drastískari aðgerðir en þær að setja fleiri plástra á höftin og vonast til að gengið leiti með undraverðum hætti aftur upp. Ég hef ekki hugmynd að lausn. En ef ég mætti óska mér einhvers þá væri það að fá í fjármálaráðuneytið einhverja vel menntaða og hugaða manneskju sem hefði slíka hugmynd og fengi stuðning til að framkvæma hana. Best ef henni væri sama þótt hún yrði hötuð af þorra landsmanna næsta áratug. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pawel Bartoszek Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Leiðtogar Evrópusambandsríkja hittust í janúar 2012 og samþykktu nýjan fjármálasáttmála til bjargar evrunni. Af 27 ríkjum ESB tóku 25 þátt í samkomulaginu, öll nema Bretland og Tékkland. Sáttmálinn setur ýmsar skorður á opinber fjármál aðildarríkjanna, meðal annars með reglum um hámarkshalla og hámarksskuldsetningu og fyrirmælum um sjálfvirk viðbrögð við því að þessi viðmið séu brotin. Þá skuldbinda ríkin sem standa að sáttmálanum sig til að lögfesta reglurnar og viðurkenna lögsögu Evrópudómstólsins í málum sem hann varða. Dómstóllinn mun þannig geta sektað ríki sem skulda of mikið og eyða of miklu. Skilyrði um skuldir og halla ESB-ríkja eru ekki ný af nálinni. Þau var líka að finna í Maastricht-sáttmálanum. Þau reyndust hins vegar ekki margra evrusenta virði en bæði Frakkland og Þýskaland brutu þau strax árið 2002 og viku sér undan sektum, með þeim rökum að "aðstæður væru svo sérstakar" og þau væru "alveg að fara að bæta sig". Það hefði vafalaust aukið trúverðugleika evrunnar ef þessi kjarnaríki ESB hefðu einmitt þurft að greiða sektir eins og hver annar. Það gerðist því miður ekki og hjálpaði kannski til við að skapa vandann. Í fjármálasáttmálanum sem tekur gildi nú um áramót er reynt að festa skilyrðin (aftur) í sessi og meira bit er sett í sektarákvæðin. Tvennt er vert að nefna. Það fyrra er jákvætt fyrir Evrópusinna: Evran enn til. Dauða hennar hefur oft verið spáð undanfarið ár. Paul Krugman spáði í maí síðastliðnum að Grikkland færi úr samstarfinu innan mánaðar og að evran sjálf ætti nokkra mánuði eftir. Þær spár hafa allavega ekki ræst enn og fjármálasáttmálinn er vísbending um að talsverður pólitískur vilji sé til að halda evrunni gangandi. Það síðara kallar á hreinskilnari umræðu um hvað Evrópusambandið sé að verða: Vart er hægt að neita þeim lengur sem halda því fram að Evrópusambandið sé að breytast í sambandsríki. Bretar voru á móti fjármálasáttmálanum. Fjármálasáttmálinn færir aukin völd til stofnana Evrópusambandsins. Í raun hefði átt að breyta Lissabonsáttmálanum til að sú breyting gæti tekið gildi og ættu Bretar að hafa neitunarvald um slíkar breytingar. En þegar á hólminn var komið höfðu þeir einungis neitunarvald um eigin þátttöku. Það er þegar ljóst að sameiginlegt fjármálaeftirlit Evrópusambandsins er á döfinni. Sama gildir um innistæðutryggingakerfi. Ég tek reyndar fram að ég er ekki á móti því að taka þátt í Evrópusambandi sem hefur þessi mál á sinni könnu, þó í því felist frekara valdaframsal. Það er betra en að dúsa næstu áratugi í haftlandinu góða.Með takmarkaðri ábyrgð Enginn er eyland. Ekki einu sinni eylönd eru það. En eylönd eru stundum sjálfhverf. Nú er uppi einhver umræða um "kennitöluflakk". Hér eru nokkrar spurningar sem spyrja mætti á eylandinu: Er kennitöluflakk eitthvað séríslenskt fyrirbæri? Ef já, af hverju? Ef nei, líta aðrar þjóðir á kennitöluflakk sem vandamál? Ef þær gera það, hafa þær einhverjar aðferðir til að sporna við því? Hvernig hafa þær aðferðir reynst? Í staðinn er okkur boðið upp á dæmisögur af mönnum sem stofnað hafa mörg félög, forðast að borga opinber gjöld og vilja meina að það sé allt löglegt því lögmaður þeirra segir það. Þetta er gert á tíma þegar ríkisstjórnin er að leggja fram frumvarp um að breyta lögum um ársreikninga þannig að hægt verði að gera hluthafa persónulega ábyrga fyrir skuldum félagsins ef félagið klúðrar ársreikningum. Segjum að einhver ættingi biðji okkur um að leggja 250 þúsund krónur í einhvern rekstur. Ættinginn er í meðallagi traustur, en okkur finnst hann eiga skilið séns eins og aðrir. Við segjum því: "Jæja þá, ég missi í versta falli þessa peninga." Ákvörðunin yrði eflaust önnur ef við ættum á hættu á að missa húsið ef ættinginn skilar ekki ársreikningi á réttum tíma. Í flestum löndum innihalda skammstafanir fyrir hlutafélög orð eins og "limited" til að tákna að ábyrgð félagsins er takmörkuð við það fé sem hluthafar leggja til. Það er talið mikilvægt til að menn yfirhöfuð nenni að fjárfesta. Hugmyndir ríkisstjórnarinnar brjóta það prinsipp, og erfitt er að sjá hvernig þær hjálpa til við að minnka hið svokallaða "kennitöluflakk". Þær hugmyndir eru þó ekki jafnvondar og lagafrumvarp sem Lilja Mósesdóttir og fleiri þingmenn lögðu fram snemma á kjörtímabilinu. Þar átti að setja í lög að: "Heimilt [væri] að synja félagi skráningar eða afskrá það með hliðsjón af viðskiptasögu stjórnenda og helstu eigenda ef þeir hafa ítrekað verið þátttakendur í rekstri sem farið hefur í þrot." Segjum að menn reki hamborgarasjoppu, verði gjaldþrota, reyni aftur og verði aftur gjaldþrota. Á ekki að leyfa þeim að reyna á ný? Af hverju? Þeir eru reynslunni ríkari. Á að banna mönnum sem hrasað hafa of oft að standa upp? Nú vilja allir styðja vel við bakið á "nýsköpun". Nýsköpun er áhætturekstur þar sem líkur á gjaldþroti eru miklar. Vilji menn "efla umhverfi nýsköpunarfyrirtækja" þá verður það ekki gert með því að gera þeim sem fara á hausinn lífið leitt. Einungis einstaka nýsköpunarfyrirtækjum tekst að lifa af. Árangur Decode, sem selt var í árslok, er þannig stórmerkilegur. Í DV var sölu Decode lýst með þeim hætti að stofnandi fyrirtækisins hefði "sloppið með stórfé". Ráðlegging til þeirra sem vilja stunda viðskipti á haftlandinu góða: Ekki ganga illa. Og ekki ganga vel.Ný stjórnarskrá En auðvitað stendur til að breyta fleiru en lögum um lagaumhverfi hlutafélaga. Heil stjórnarskrá er undir. Þær áhyggjur sem undirritaður hefur haft af stefnu þess máls verða ekki margtuggnar hér en þó er það ánægjulegt að þingið hafi ákveðið að senda málið til Feneyjanefndar Evrópuráðsins. Það er reyndar ástæða til að hafa áhyggjur af því hvort meirihluti þings hafi vilja og burði til að hlusta á þær athugasemdir sem frá Feneyjanefndinni, eða öðrum, kunna að koma. Í það minnsta er ljóst að stór hluti fyrrum fulltrúa stjórnlagaráðs hefur á því takmarkaðan áhuga. Sú fjögurra manna nefnd sem fór yfir tillögur stjórnlagaráðs og samdi upp úr þeim frumvarp túlkaði verksvið sitt þröngt og þær breytingar sem hún gerði frá hugmyndum stjórnlagaráðs voru langflestar til bóta. Engu að síður brugðust margir fyrrum ráðsfulltrúar illa við. Sumir töldu að nefndin hefði gert "efnislegar breytingar" og létu í veðri vaka að hún hefði ekki það umboð. Það er della. Nefndin átti m.a. að gæta að innra samræmi tillagnanna og sjá til þess að þær stæðust alþjóðlega mannréttindasáttmála. Hún mátti auðvitað gera "efnisbreytingar" ef þess þurfti. En meiri della er sú fullyrðing sumra stjórnlagaráðsliða að gagnrýni sem nú kemur fram á frumvarpið, hvort sem er úr háskólunum eða annars staðar frá, komi fram of seint. Auðvitað er það ekki svo, tillögurnar eru enn í mótun, og jafnvel þótt lokatillögurnar væru komnar fram þá væri ekki of seint að gagnrýna þær með það fyrir augum að fá þær felldar. Loks, jafnvel þótt þær yrðu samþykktar væri það auðvitað ekkert of seint til að gagnrýna neitt. Drög að bandarísku stjórnarskránni voru á sínum tíma helst gagnrýnd fyrir skort á mannréttindakafla. Honum var bætt við skömmu eftir að stjórnarskráin tók gildi. Einmitt vegna gagnrýni sem komið hafði fram "of seint".Egg, steinar og eldur Sumt af því sem lesa má um stjórnarskrármálið felur í sér kröfur um að leikreglum lýðræðis og þingræðis verði kastað fyrir róða. Ég hef til dæmis lesið að ef nýkjörið þing samþykki ekki nýja stjórnarskrá þá myndi "fólkið aftur fara á göturnar". Höfum eitt á hreinu. Ef þingmeirihluti er ekki fyrir stjórnarskrárbreytingum á tveimur þingum með kosningum á milli, þá eiga þær ekki að ganga í gegn. Þeir sem bjóða sig fram til þings ættu að vera sammála um að þar, í þinghúsinu, eigi að vera sá staður sem ákvarðanir eru teknar en ekki á stéttinni fyrir framan það. Sumir frambjóðendur Dögunar eru tilbúnir að teygja sig ansi langt til að verja það að rúður hafi verið brotnar í þinghúsinu og kveikt í jólatrjám. Á sama hátt verður að hrósa Jóni Gnarr fyrir að hafa sagt það hreint út að "Reykvíkingar hafi orðið sér til háborinnar skammar" þegar kveikt var í jólatrénu á Austurvelli í janúar 2009. Auðvitað er það satt. Sama þótt það særi ofbeldismenn.Hrun og hrun Sumt breyttist ekkert á árinu. Gjaldeyrishöftin halda sem aldrei fyrr. Nú virðist vera komin þverpólitísk samstaða um að höftin eigi í raun að vera ótímabundin. Sú niðurstaða er auðvitað fátt annað en lýsing á ríkjandi ástandi. Planið um afnám þeirra var ekki að ganga neitt. Ég ætla að leyfa mér að líta um öxl. 1989, árið sem kommúnisminn hrundi í Pólland, var 600% verðbólga í landinu og efnahagurinn í molum. Fyrsti fjármálaráðherrann úr röðum Samstöðunnar, hagfræðingurinn Leszek Balcerowicz, lagði ofurskatta á launahækkanir, heimilaði gjaldþrot ríkisfyrirtækja, afnam gjaldeyrishöft og einkaleyfi ríkisins á innflutningi. Hann gerði líka margt annað, flest drastískt og flest á ógnarhraða. Þáttur Balcerowicz í endurreisn Póllands er mikill en vitanlega er enn í dag fullt af fólki sem hatar hann. Líklegast þarf drastískari aðgerðir en þær að setja fleiri plástra á höftin og vonast til að gengið leiti með undraverðum hætti aftur upp. Ég hef ekki hugmynd að lausn. En ef ég mætti óska mér einhvers þá væri það að fá í fjármálaráðuneytið einhverja vel menntaða og hugaða manneskju sem hefði slíka hugmynd og fengi stuðning til að framkvæma hana. Best ef henni væri sama þótt hún yrði hötuð af þorra landsmanna næsta áratug.