Halldór Helgason keppti á X Games-leikunum í Aspen í Bandaríkjunum í kvöld. Hann komst ekki áfram í úrslit í Slopestyle-snjóbrettakeppninni.
Alls tóku sextán keppendur þátt og átta efstu komust áfram. Hver keppandi fékk tvær ferðir.
Halldór náði sér ekki á strik í þeirri fyrri og féll á miðri leið. Hann byrjaði svo mjög vel í þeirri síðari og lenti nokkrum vel útfærðum stökkum.
Hann lenti hins vegar illa eftir stökk á næstsíðasta palli og það dugði til að fella hann úr keppni. Hann fékk 15,66 stig fyrir fyrri ferðina og 20 stig fyrir þá síðari. Halldór hafnaði í tólfta sæti.
Shaun White, þekktasti snjóbrettakeppandi heims, var á meðal keppenda og hafnaði í sjöunda sæti í undankeppninni þrátt fyrir að hafa lent í basli í seinni ferðinni sinni.
Halldór keppir í Big Air stökkkeppninni aðfaranótt laugardags. Keppnin hefst klukkan 03.30 en Halldór vann gull í þessari grein árið 2010. Sýnt verður beint frá keppninni á ESPN America, sem má finna á fjölvarpi Stöðvar 2.
Halldór komst ekki áfram
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
