Lífið

Draumar Svölu Björgvins verða að veruleika

Marín Manda skrifar
Svölu Björgvinsdóttur er margt til lista lagt. Söngurinn er henni í blóð borinn og hún er hamingjusömust þegar sköpunargáfan fær að njóta sín á hverjum degi.

Í sumar gengur hún í hjónaband með sínum heittelskaða eftir 19 ára samband og fyrsta fatalínan hennar, KALI kemur á markað.  

Lífið ræddi við Svölu um brúðkaupið, tónlistina, Steed Lord og nýju tískulínuna.
Þú hefur nú búið í Los Angeles í rúmlega fjögur ár, hvernig upplifir þú glysborgina?



"Ég hef verið með annan fótinn í L.A. síðan árið 2000 og þekki borgina rosalega vel og hef alltaf elskað þessa borg. Ég hef ekki beint upplifað hana sem einhverja glysborg því hérna býr alls kyns fólk, ekki bara fræga og ríka fólkið.

Að sjálfsögðu er mikið af sjúklega ríku fólki hérna en svo þarftu ekki að keyra nema í 20 mínútur niður í miðbæ L.A. og þar sérðu allt aðra hlið á borginni. Þar er rosalegur fjöldi af heimilislausu fólki og fátæku fólki sem maður reynir að hjálpa á einhvern hátt.

Það eru til dæmis fjórir gamlir heimilislausir karlar sem búa undir brúnni í okkar hverfi og við gefum þeim reglulega mat, hreina sokka, teppi og púða. Þetta er eitthvað sem ég get aldrei vanist og alltaf þegar ég sé svona fólk á götunni þá langar mig að hjálpa þeim."

Listamannalífið

Svala segir Los Angeles bjóða upp á allt milli himins og jarðar en hægt er að fara í fjallgöngur, á ströndina og jafnvel á skíði.

"Við eigum mikið að nánum vinum í borginni og erum löngu búin að skjóta niður sterkum rótum. Hérna er alltaf gott veður og ódýrt og auðvelt að gera sér glaðan dag. 

Ég mæli með að þeir sem koma til L.A. í heimsókn séu hjá fólki sem hefur búið í borginni í nokkur ár því þú færð ekki rétta mynd af borginni nema þú sért meðal þeirra sem búa hérna. Annars ertu bara á Hollywood Blvd. og í einhverju túristarugli sem mér finnst persónulega hundleiðinlegt og ekkert sérstaklega áhugavert. Það eru svo margir fallegir staðir í Los Angeles sem er vert að skoða og það er hægt að upplifa borgina á mismunandi hátt."

Hvar er "heima" í þínum huga?



"Heima fyrir mér er þar sem ég og maðurinn minn Einar búum saman."

Hvernig er hefðbundinn dagur í lífi Svölu Björgvins?



"Mínir dagar eru mjög misjafnir. Ég vinn sem sjálfstæður listamaður og ég er alltaf að vinna við eitthvað. Það fer bara eftir því hvað er í gangi. Til dæmis núna vorum við í Steed Lord að semja lag fyrir ameríska þáttinn So You Think You Can Dance og þá fóru dagarnir í að undirbúa útgáfu lagsins og markaðssetningu, en við erum með okkar eigið plötufyrirtæki. Dagarnir eru því eiginlega aldrei eins því það er alltaf eitthvað nýtt verkefni í gangi sem maður tekur sér fyrir hendur. 

Það eina við að vera sjálfstæður listamaður er að maður veit aldrei hvaðan næstu laun koma. Þess vegna erum við alltaf með puttana í mörgum verkefnum til að geta lifað á listinni. En ég myndi aldrei vilja hafa þetta öðruvísi. Ég elska að geta unnið við það sem ég dýrka og dái og geta verið skapandi á hverjum degi."

Kemur það fyrir að þú saknir kuldans í hitanum og sólinni?

"Já stundum sakna ég íslenska veðursins og þá sérstaklega á veturna í L.A. Veturnir í L.A. eru eins og meiriháttar heitt sumar á Íslandi. Þá sakna ég að hafa ekki brjálaðan snjóstorm og vera veðurteppt inni hjá mér. Þess vegna elska ég þegar það rignir í L.A. því það gerist eiginlega aldrei og það er alltaf svo kósý."

Ertu í einhverju sambandi við aðra Íslendinga sem eru þarna í borginni sem vinna í tónlistariðnaðinum, eins og t.d. The Charlies?



"Já, ég er í fínu sambandi við aðra Íslendinga í borginni. Ein af mínum bestu æskuvinkonum, Dröfn Ösp Snorradóttir, býr bara 15 mínútum frá mér og hún flutti hingað út ári áður en ég flutti út, sem er skemmtileg tilviljun. Annars eru vinir okkar alls staðar að úr heiminum og við eigum mikið af bandarískum vinum líka. Vinahópurinn er stór og litríkur."

Hvernig kom það til að þið fluttuð til L.A. á sínum tíma?

"Það var alltaf plan að flytja aftur þangað og svo kom bara sá tími að við Einar vorum tilbúin að flytja og prófa að búa í nýrri borg saman og við kýldum bara á það. Það sem auðveldaði flutning var að ég hef verið með landvistarleyfi í Bandaríkjunum síðan 1999 því ég fékk listamannafararleyfi þegar ég fór á samning hjá EMI/Priority Records á sínum tíma.

Ég hef haldið þessu landvistarleyfi síðan þá og gat sett Einar, manninn minn, og bróður hans Edda á mitt leyfi og þá var lítið mál að flytja hingað. Annars er það ekki hægt ef þú ert ekki með landvistarleyfi, því miður."

Steed Lord gerir það gott

Eruð þið með umboðsmann eins og hinar stjörnurnar?



"Já, við höfum verið með nokkra umboðsmenn, alla frábæra. Síðastliðin tvö ár hefur Einar, maðurinn minn og meðlimur í Steed Lord, verið umboðsmaður okkar. Hann hefur verið að gera svakalega góða hluti með bandið því hann er svo vel tengdur og svo mikill drifkraftur í honum."

Hvaða tónleikar Steed Lord standa upp úr?

"Það eru margir æðislegir tónleikar sem standa upp úr. Ef ég á að nefna eina sem voru trylltir þá voru þeir í Seattle og það voru nokkur hundruð manns og allir sungu við lögin okkar og Íslendingur úr áhorfendahópnum hljóp upp á svið með risastóran íslenskan fána. Það var frábært og skemmtileg uppákoma."

Hvað er framundan hjá ykkur Steed Lord?

"Við erum að fara spila mikið á þessu ári. Kynna plötuna okkar, The Prophecy part 1, sem kom út í desember í fyrra. Við erum að fara að mynda tvö ný tónlistarmyndbönd fyrir Steed Lord og einnig að gera tónlistarmyndbönd fyrir aðrar hljómsveitir, sem er svakalega gaman. Hugsanlega verður Steed Lord með fleiri lög í So You Think You Can Dance-þættinum.

Einnig munum við semja ný lög bæði fyrir Steed Lord og aðra tónlistarmenn, sem er mjög skemmtilegt. Svo eru fleiri spennandi hlutir í gangi sem ég get ekki alveg sagt frá að svo stöddu.“

Hvernig hefur gengið að skipuleggja brúðkaup á Íslandi frá öðru landi?



„Sem betur fer á hafa foreldrar mínir og tengdapabbi minn og tengdamóðir verið að skipuleggja og plana. Við tökum reglulega Skype-fundi þar sem við segjum hvað við fílum og hvað ekki. Við erum mjög heppin að hafa þau til að græja allt og plana. Hefðum aldrei getað gert þetta annars.“

Ertu búin að finna brúðarkjólinn? Hvernig er hann og tók það langan tíma?



„Já ég keypti brúðarkjólinn á Ebay fyrir 8 árum. Ég sá hann þar og hugsaði „best að kaupa þennan kjól ef ég gifti mig einhvern tímann“. Mér fannst þetta bara einn sá fallegasti brúðarkjóll sem ég hafði séð. 

Hann er ónotaður en samt frá 1979. Það var enn þá gamall verðmiði inni í honum og allt. Hann kostaði mig samt bara $40 sem er bara djók. Kjóllinn er kremhvítur og úr silki-jersey. Svo verð ég með slör og í mjög háhæluðum skóm, því maðurinn minn er mjög hávaxinn og ég er pínkulítil.“

Hvernig verður brúðkaupið og hvar verður veislan? 

„Við ætlum að gifta okkur í sömu kirkju og mamma mín og pabbi, í Landakotskirkju. Ég var alin upp í kaþólskri trú því mamma og öll hennar fjölskylda eru kaþólsk. Ég á margar fallegar og góðar minningar frá Landakotskirkju og mig hefur alltaf langað að gifta mig í sömu kirkju og foreldrar mínir.“



Eruð þið á leiðinni í brúðkaupsferð eftir brúðkaupið? 

„Já, hugsanlega. Okkur langar að fara til Havaí. Við höfum aldrei farið þangað og við ætlum að stefna á brúðkaupsferð þangað í september eða þegar við höfum næst tíma.“

Hafið þið Einar hugleitt barneignir? „Já, okkur langar að fjölga mannkyninu. Það gerist bara þegar það á að gerast.“

Svala hefur alltaf verið sæt.
Eltir ekki tískustrauma

Þú varst kosin best klædda kona Íslands af Fréttablaðinu í fyrra, hvernig myndir þú lýsa stílnum þínum?



„Minn stíll er fjölbreytilegur og ávallt skemmtilegur. Ég klæði mig alveg nákvæmlega eins og mér sýnist, hef alltaf verið þannig og mun alltaf vera þannig. Ég elti ekki tískutrend og vil helst alltaf vera í fötum sem enginn klæðist og enginn getur keypt heldur. Hef alltaf viljað líta út öðruvísi en allir aðrir.“ 



Lumar þú á einhverjum tískuráðum sem þú vilt deila?

„Klæddu þig í það sem þú fílar. Ekki pæla í hvað öðrum finnst um þig og þinn fatastíl. Mér finnst að þegar maður klæðir sig í föt þá á það að gleðja mann og láta manni líða vel. Þetta eru bara föt og maður á að hafa smá húmor fyrir tísku.“



Ef gluggað yrði í fataskápinn þinn, af hverju er áberandi mikið? 

„Gullefni, pallíettur, fjaðrir, silki, munstruð og litrík föt. Búningar, samfestingar, síðkjólar, 90% vintage föt, rosalega mikið af skóm og skarti. Stórt safn af höttum og 80´s sundbolum.“



KALI-fatalínan verður að veruleika

Nú ertu að koma með þína eigin fatalínu með haustinu, er hönnuður í blóðinu? „Ég hef alltaf saumað á mig föt alveg síðan ég var unglingur. Ég sauma mikið af mínum eigin búningum með Steed Lord. Hef alltaf elskað að sauma og hanna föt. Og þegar ég fékk tækifæri til að koma með mína eigin fatalínu þá varð ég bara að stökkva á það. Og rosalega þakklát fyrir það tækifæri.“

Hver er hönnunaráherslan og fyrir hverja er línan?



„Ég ákvað að hanna föt sem mig sjálfa langar að klæðast þannig að línan er algjörlega minn persónulegi stíll. Ég myndi segja að línan sé fyrir konur á öllum aldri sem vilja standa út úr hópnum og vera í „unique“ fötum. Ég er með litríkar flíkur og svo líka með svartar klassískar flíkur. Minn innblástur fyrir þessa fyrstu línu var karakterinn Elvira, sem Michelle Pfeiffer lék í Scarface, og Pris, sem Darryl Hannah lék í Blade Runner.“

Hvað heitir nýja fatalínan og hvar er hún framleidd?



„Línan heitir KALI, sem er listamannanafnið mitt og hefur verið síðan Steed Lord varð til í janúar 2006. Öll línan er framleidd í Los Angeles til að byrja með. Það eru átta flíkur í þessari fyrstu fatalínu.“

Ertu að hanna í samvinnu við einhverja aðra? 

„Ég er með fjárfesta sem styður mig fjárhagslega að gera þessa fatalínu en ég er sú sem hanna hana algjörlega sjálf. Svo er ég með manneskju sem sér um að búa til sniðin fyrir mig og við vinnum í sameiningu við það.“ 

Hvar getur fólk svo nálgast flíkurnar? 

„Fatalínan mín KALI verður til sölu á nýrri vefbúð sem heitir Lastashop.com og hún mun vera með eingöngu íslenska hönnun. Þessi vefbúð er staðsett í Los Angeles en við sendum auðvitað um allan heim. Búðin opnar á netinu seinna í sumar og verður með hönnun frá Ziska, Munda og fleirum.“

Hvenær er fatalínan væntanleg á markað? 

„Við erum að fara í framleiðslu eftir nokkra daga og gerum svo „lookbook“ og alla markaðsvinnu. Þannig að línan verður væntanleg seinna í sumar.“

Fjölskyldan saman í Disneyworld
Slysið sem breytti lífinu

Þið Einar lentuð í bílslysi fyrir einhverjum árum síðan, hversu alvarlegt var það?

„Það var mjög alvarlegt. Við vorum fimm manns í bílnum, ég, Einar og bræður hans tveir, Elli og Eddi. Pabbi þeirra var að keyra.

Það kom bíll úr gagnstæðri átt á 100 km hraða og bílstjórinn missti stjórn á bílnum sínum og lenti beint framan á okkar bíl á Reykjanesbrautinni morguninn 9. apríl 2008. Við lentum öll á spítala á gjörgæslu. Við slösuðumst öll lífshættulega nema pabbi þeirra. Einar var á spítala í fjóra mánuði og fór í nokkrar aðgerðir.

Eddi fór líka í aðgerðir og við tvö fengum innvortis blæðingar og brotin bein. Það munaði mjög litlu að bæði Einar og Eddi hefðu látið lífið. Þetta var algjörlega súrrealísk upplifun en samt falleg á furðulegan hátt því við lifðum þetta af.

Stundum finnst mér eins og þetta hafi ekki gerst og mig hafi bara dreymt þetta. En síðan sé ég öll örin á Einari og þá rennur það alltaf upp fyrir mér að þetta gerðist í alvörunni.“

Telur þú að slysið hafi breytt þér að einhverju leyti?

„Já þetta breytir manni andlega og auðvitað líkamlega, sérstaklega þegar maður slasast alvarlega. Það er kannski klisjulegt að segja þetta en maður lítur á lífið öðruvísi og er þakklátur fyrir að vera á lífi.

Þetta líf er svo viðkvæmt og við verðum að muna að njóta augnabliksins. Vera góð hvert við annað og láta gott af sér leiða. Elta sína drauma og lifa lífinu í botn.“



Ertu hrædd þegar þú sest upp í bíl í dag?



„Já, ég hef ekki keyrt ein bíl síðan við lentum í slysinu og ég er mjög bílhrædd ef Einar er ekki að keyra. Vonandi kemst ég yfir það einn daginn.“

Hverja telur þú vera þína helstu styrki?



„Ég er svakalega tryggur vinur og ég elska heitt og mikið.“

Hver er þín fyrirmynd í lífinu?

„Foreldrar mínir og Krummi bróðir. Þau hafa kennt mér svo mikið og mótað mig. Þau eru alltaf til staðar og skipta mig gríðarlega miklu máli.“

Heldurðu að þú flytjir aftur til Íslands einhvern daginn?



„Það er aldrei að vita. Ég hugsa ekki langt fram í tímann. Akkúrat núna vil ég búa í L.A. og líður afskaplega vel hérna. Ég elska Ísland alltaf en ég vil frekar búa hérna í dag,“ segir Svala Björgvinsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.