Körfubolti

Kristinn samdi við Stella Azzurra

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/KKÍ

Kristinn Pálsson, 16 ára leikmaður Njarðvíkur og leikmaður yngri landsliða Íslands, leikur með ítalska unglingaliðinu Stella Azzurra Rome næsta vetur. Frá þessu er greint á heimasíðu KKÍ.

Kristinn þáði boð um að leika með liðinu um síðastliðna páska. Þar tók liðið þátt í sterku alþjóðlegu móti 19 ára liða sem haldið er árlega á Ítalíu.

Kristinn hélt út og æfði með liðinu í tæpa viku fyrir mótið sem fram fór í Lissone, sem er rétt fyrir utan Mílanó.

Kristni gekk vel á mótinu, liðið endaði í 3. sæti á mótinu þrátt fyrir að vera með mjög ungt lið og Kristinn var svo valinn besti ungi leikmaður mótsins.

Árangurinn verður að teljast afar góður enda voru með honum í liði strákar sem taldir eru vera á meðal fimm efnilegustu leikmanna í Evrópu í sínum árgangi.

Kristinn hafði einnig leikið með liðinu á móti í Barcelona á síðasta ári. Frammistaða hans varð til þess að honum var boðið utan um páskana.

Nú hefur Kristinn ákveðið að þiggja boð Stella Azzurra og vera næsta árið til að byrja með hjá liðinu þar sem hann mun stunda nám og æfa af krafti. Verið er að ganga frá öllum umsóknum og leyfum svo hann geti haldið út í júní. Stefnan er að hann æfi með liðinu í einn mánuð, komi svo heim en flytji endanlega út í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×