Íslenski boltinn

Greta Mjöll: Ég fékk bara eitt stykki hnefa í andlitið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Greta Mjöll Samúelsdóttir í leiknum í kvöld.
Greta Mjöll Samúelsdóttir í leiknum í kvöld. Mynd/Valli

Greta Mjöll Samúelsdóttir, fyrirliði Breiðabliks endaði síðan leikinn á móti Selfossi í kvöld á því að vera borin útaf eftir slæmt höfuðhögg. Breiðablik vann leikinn 4-1 og er með fullt hús eftir fjórar umferðir.

„Það var ekki planið að enda leikinn svona. Ég fékk bara eitt stykki hnefa í andlitið og er með sönnunargögn fyrir því," sagði Greta Mjöll og benti á stokkbólgið nefið. Hún lenti í samstuði við Michele K Dalton, markvörð Selfossliðsins og lá lengi á eftir.

„Það er breitt nef og kúla á enninu. Ég þarf að passa mig á því að vera ekki að fara upp í þessa bolta því ég er búin að fá einhverja fimm heilahristinga. Það eru nokkrir læknar búnir að segja að ég megi ekki fá fleiri höfuðhögg," sagði Greta en verður hún með í næsta leik?

„Ég ætla bara að sjá til hvernig hálsinn hreyfist og hvort að nefið hjaðni. Það er full skakt fyrir minn smekk núna en ég vona að það sé bara bólga en kalli ekki á fimmtu aðgerðina á nefinu. Ég er komin með nóg af lýtaaðgerðum," sagði Greta í léttum tón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×