Handbolti

Stella fer með til Eyja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Valli
Stella Sigurðardóttir mun ferðast með liði Fram til Vestmannaeyja í dag en liðið mætir þá ÍBV í úrslitakeppni N1-deildar kvenna. Fram er yfir, 2-1, og getur tryggt sér sæti í lokaúrslitunum með sigri.

Fram varð hins vegar fyrir miklu áfalli í síðasta leik þar sem Birna Berg Haraldsdóttir handarbrotnaði og Stella sneri sig á ökkla.

Birna verður ekki meira með á tímabilinu en Stella gæti spilað í dag. „Það kemur bara í ljós hvernig hún verður í upphitun. Þá sjáum við hvort hún getur spilað,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Fram. „Það er alveg ljóst að þetta verður púsluspil en nú er annarra í hópnum að stíga upp og taka ábyrgð. Öll lið geta lent í skakkaföllum.“

Í hinni undanúrslitarimmunni eigast við Valur og Stjarnan en þar er staðan 2-1 fyrir síðarnefnda liðið og mætast þau í Garðabæ í dag. Leikirnir hefjast kl. 15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×