Íslenski boltinn

„Áhuginn sem Viking sýndi mér gerði útslagið“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björn Daníel skrifar undir samninginn.
Björn Daníel skrifar undir samninginn. Mynd/Heimasíða Viking/Baldur Kristjánsson
„Ég er í skýjunum með að hafa samið við Viking sem hefur fylgst grannt með mér undanfarnar vikur," segir Björn Daníel Sverrisson.

Miðjumaðurinn úr Hafnarfirðingum samdi við norska félagið til þriggja ára. Skrifað var undir samninginn í gær en Björn Daníel mun þó ljúka leiktíðinni með FH-ingum.

„Viking hefur sýnt mér mestan áhuga og það er mikilvægt í mínum huga. Ég veit að ef ég legg hart að mér þá mun ég fá að spila. Þá gengur Viking vel í deildinni og félagið er glæsilegt," segir Björn Daníel í viðtali á heimasíðu Viking um ástæður þess að hann kaus Viking.

Björn Daníel mun halda utan til æfinga með Viking í október þegar keppnistímabilinu hér heima lýkur.

„Ég mun æfa í fjórar til fimm vikur með liðinu í haust áður en leikmenn fara í frí í desember. Svo mæti ég aftur á undirbúningstímabilið í janúar."

Björn Daníel segist hafa rætt málin við fyrirliða Viking, Indriða Sigurðsson, áður en hann skrifaði undir samninginn.

„Hann hafði góða hluti að segja um Viking og einnig Stavanger. Það hafði stór áhrif á ákvörðun mína. Það hjálpar mér að tveir Íslendingar séu á mála hjá félaginu og mun koma mér til góðs að eiga þá að þegar ég mæti til leiks."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×