Íslenski boltinn

Björn Daníel semur við Viking til þriggja ára

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Stefán
Miðjumaðurinn Björn Daníel Sverrisson gengur í raðir norska félagsins Viking að loknu yfirstandandi tímabili. Hann semur við Viking til þriggja ára.

Lúðvík Arnarson, varaformaður knattspyrnudeildar FH, staðfestir þetta í samtali við íþróttadeild. Forráðamenn Viking hafa ekki farið leynt með aðdáun sína á miðjumanninum knáa sem farið hefur á kostum með FH í sumar bæði í deildinni og forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Kaupverðið er ekki gefið upp en samkvæmt heimildum íþróttadeildar fá FH-ingar einhverjar milljónir fyrir miðjumanninn. Samningur Björns Daníels við FH rennur út í lok árs og því hefði hann farið frítt til annars félags að samningstímanum loknum. Þá fá FH-ingar hluta af söluverði verði hann seldur í framhaldinu til annars félags.

Ljóst er að FH-ingar vildu ekki missa Björn Daníel á miðju tímabili enda um lykilmann að ræða auk þess sem mikil meiðsli hafa herjað á herbúðir liðsins.

Indriði Sigurðsson og Jón Daði Böðvarsson leika með Viking. Liðið situr í 4. sæti deildarinnar eftir átján umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×