Lífið

Russell Brand: Ég get ekki beðið eftir því að heimsækja þetta brjálaða land!

Sara McMahon skrifar
Russell Brand kemur til Íslands í desember til að skemmta landanum með uppistandssýningunni Messiah Complex.
Russell Brand kemur til Íslands í desember til að skemmta landanum með uppistandssýningunni Messiah Complex. Nordicphotos/getty
Ég er mjög áhugasamur um þig og land þitt, Ísland. Þið tókust á við mikla spillingu í fjármálakerfi ykkar nýverið, ekki satt? Ég tel að spilling af þessu tagi stafi af því að nú hugsar fólk fyrst og fremst um sjálft sig, þetta gildir sérstaklega um ríkisstjórnir og fólk innan fjármálafyrirtækja. Mín kenning er sú að ef við byggjum í menningarsamfélagi þar sem fólk samsamaði sig frekar hetjum sem stæðu fyrir almannahagsmuni þá yrði ástand sem þetta ekki að veruleika því samfélagslegu gildin væru önnur,“ segir grínistinn Russell Brand þegar blaðamaður Fréttablaðsins spyr hann út í uppistandssýningu hans, Messiah Complex. Brand kemur fram í Eldborgarsalnum þann 9. desember.

Fyndin og kjánaleg sýning

Nafn sýningarinnar, Messiah Complex, er dregið af samnefndum geðsjúkdómi, en þeir sem þjást af honum telja sig vera frelsara mannkyns eða ætlað slíkt hlutverk. Í sýningunni fjallar Brand meðal annars um trúarbrögð og menn á borð við Che Guevara, Gandhi, Malcolm X og Jesú Krist.

„Það sem vekur áhuga minn er að þessir menn voru ekki gallalausir, nema þá kannski Jesú. Þeir gerðu allir mistök og mér finnst mikill húmor leynast í þessu mennska og ófullkomna,“ útskýrir Brand og bætir við: „Ég held að við búum í dag við einhvers konar menningarlega messíasarduld.“

Umfjöllunarefni sýningarinnar kann að vera grafalvarlegt en Brand fullvissar blaðamann um að hún sé bráðfyndin þrátt fyrir það. „Þetta er fyndin og kjánaleg sýning þótt hún taki á mikilvægum málefnum. Mér þætti sýningin innantóm ef ég ætlaði aðeins að tala um sjálfan mig, þó svo að ég tali MJÖG mikið um mig sjálfan líka.“

Aðspurður segir Brand það breytast með tíð og tíma hvaða efni uppistandarar mega fjalla um og segir að hver og einn grínisti setji sér sín persónulegu mörk. „Hlutverk húmors er að linna ótta fólks. Það efni sem ekki má gera grín að er yfirleitt það sem fólk óttast hvað mest og þyrfti hvað helst að geta grínast með.“



Uppistand í stöðugri þróun

Grínistinn leggst í mikla rannsóknarvinnu á umfjöllunarefni sínu áður en hann hefst handa við að semja sýningar sínar. Hann segir ferlið langt og að sýning sem þessi sé í raun aldrei fullmótuð heldur í stöðugri þróun.

„Ég byrja á mikilli rannsóknarvinnu og prófa svo efnið á smærri sýningum. Þannig þróa ég hugmyndirnar allt þar til ég verð öruggur með það. Uppistand er þannig að hægt er að aðlaga sýninguna eftir áhorfendum, þetta snýst að miklu leyti um samspil á milli mín og áhorfenda og þess vegna geta engar tvær sýningar orðið nákvæmlega eins.“

Spenntur fyrir jólasveinunum

Brand kveðst spenntur fyrir Íslandsheimsókn sinni en viðurkennir að hann viti ekki mikið um land og þjóð. „Ég veit að Björk er íslensk, þar má sjá norðurljós, bjórinn kostar handlegg og fótlegg og mér skilst að þið séuð nokkuð róttæk þjóð í anda. Og jólasveinninn býr á Íslandi, er það ekki?“

Blaðamaður útskýrir fyrir Brand að í stað hins góðlátlega jólasveins sem Bretar þekkja búa hér þrettán hrekkjalómar sem séu að auki afkvæmi trölla. Grínistinn heimtar að fá að vita hvers konar hrekkjum bræðurnir taki upp á og verður ákaflega hrifinn.

„Þetta hljómar alveg magnað og mun betur en jólasveinninn okkar, andi hrekkjalómsins svífur yfir jólahátíð ykkar. Ég get ekki beðið eftir því að heimsækja þetta brjálaða land!“



Þáttastjórnendur vanmátu margt

Brand var gestur í spjallþættinum Morning Joe á sjónvarpsstöðinni MSNBC í lok júní og var þangað kominn til að kynna Messiah Complex fyrir Bandaríkjamönnum. Viðtalið fór ekki sem skyldi og í lok þess tók Brand málin í eigin hendur. Myndbrot úr þættinum fór í kjölfarið sem eldur um netheima og aflaði grínistanum mikilla vinsælda.

Á fólk það til að vanmeta þig vegna fyrri starfa og útlits líkt og þáttastjórnendur Morning Joe gerðu?

„Ég veit það ekki, ég hef ekki hugmynd um hvað fólki finnst um mig. En ég held að þetta tiltekna fólk hafi mögulega vanmetið mig, starf sitt eða, í þessu tilfelli, bandarísku þjóðina. Ég held bara að almennt hafi mikið vanmat átt sér stað þennan umrædda dag,“ segir hann og skellir upp úr.

Miða má kaupa á midi.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.