Aldrei aftur Icesave! Guðmundur Andri Thorsson skrifar 4. febrúar 2013 06:00 Heyrst hefur úr ranni VG að tilviljun hafi ráðið niðurstöðunni í Icesave-málinu. Er það ekki eitthvað orðum aukið? Þó að Íslendingar hafi ekki verið vissir um að málflutningur þeirra næði eyrum dómara er ekki þar með sagt að þetta hafi bara verið einhver grís – niðurstaðan hafi verið látin ráðast af hlutkesti. Verðum við ekki að treysta því að dómarar hafi ígrundað málið, og jafnvel hugsanlega að þeir hafi komist að réttri niðurstöðu? Segir það ekki sína sögu um viðhorf okkar til laga og réttar að við skyldum upp til hópa telja að niðurstaðan yrði þeim sterka í vil? Eftir allan hamaganginn, alla geðshræringuna, alla svardagana og allar heitstrengingarnar, var eins og enginn ætti von á hinni réttu niðurstöðu.„Réttlætið það sigraði að lokum" Icesave-málið fór sem sagt nokkurn veginn eins og það átti að fara; réttlát niðurstaða fékkst með dómi. Þrotabú Landsbankans greiðir það sem því ber að greiða, íslenskur almenningur þarf ekki að taka á sig þær byrðar sem þessi tiltekna starfsemi þessa tiltekna einkabanka hefði lagt á hann – nóg er nú samt. Bankastjórar Landsbankans skrökvuðu þegar þeir héldu því fram að íslenska ríkið ábyrgðist innistæður Icesave-reikinganna. Hið sama gerðu ráðherrar fyrri ríkisstjórna og ráðuneytismenn. Til allrar hamingju var ekkert að marka íslenska ráðamenn í aðdraganda hrunsins. Niðurstaðan í málinu er stórsigur fyrir Ólaf Ragnar Grímsson. Við vitum að vísu ekki alveg fyrir víst hvað hefði gerst ef hann hefði ekki synjað Icesave-samningum tvívegis staðfestingar, og sent í þjóðaratkvæðagreiðslu, því að umræðan virðist yfirleitt miða við verstu hugsanlegu útkomuna – og kannski þarf að taka með í reikninginn ýmsa erfiðleika Íslendinga í kjölfar synjunarinnar við að afla sér lánsfjár – en ekkert af því breytir því að niðurstaða EFTA-dómstólsins gerir Ólaf að sigurvegara málsins. Hrakspár valinna aðila um það sem myndi gerast við synjun forseta og þjóðar á téðum samningum gengu ekki eftir. Og Íslendingar fá nú að baða sig í því ljósi að hafa verið þjóðin sem neitaði að taka á sig skuldir banksteranna. Þótt það sé að vísu rangt þá er ímyndin eigi að síður sú og þar með sjálfsmyndin. Niðurstaðan kann að virðast áfall fyrir Evrópusambandssinna og vatn á myllu einangrunarsinna – og er það áreiðanlega – en þó má ekki gleyma því að niðurstaðan sýnir að smáþjóð í evrópsku samstarfi hefur þetta skjól og í rauninni ekki annað: regluverkið, lögin, dómstóla og skuldbindandi úrskurði þeirra. Sú er hin kaldhæðnislega niðurstaða málsins: við sóttum réttlætið til Evrópu.Hverjum að kenna? En við þurfum alltaf að muna eitt: málið er ekki þeim að kenna sem reyndu að leysa það, með misgóðum árangri, við erfiðar aðstæður. Allt það fólk starfaði í góðri trú, og þótt það kunni að hafa verið misviturt og misheppið taldi það sig vera að forða þjóð sinni frá allsherjar greiðsluþroti, lánaþurrð og hallæri. Icesave-málið var ekki þeim að kenna sem mistókst að leysa það. Icesave-málið var þeim að kenna sem stofnuðu Icesave-reikningana. Það gerðu þeir ekki í góðri trú heldur til að skaffa pening, redda sér fyrir horn; Icesave-furstarnir sópuðu til sín sparifé auðtrúa fólks sem hélt að Íslendingar væru svo klárir að nota internetið. Þessir menn tengdu starfsemi sína blygðunarlaust við nafn lands og þjóðar, misnotuðu sér það góða orð sem fór af Íslendingum í löndum Evrópu, þegar þjóðirnar héldu að hér væri norrænt velferðarríki og íslenska þjóðin væri ung og klár og vel menntuð, og heiðarleg. Icesave-málið var þeim að kenna sem stóðu fyrir rangri stefnu í stjórmálum. Það var því að kenna að rangir menn komust yfir íslensku bankana í krafti tengsla sinna og áhrifa innan ráðandi stjórnmálaflokka. Framsóknarmenn fengu Kaupþing, Sjálfstæðismenn fengu Landsbankann og Sparisjóðina – ekki síst peningafabrikkuna óskiljanlegu í Keflavík – og sífellt var tekist á um Íslandsbanka. Þær upphæðir sem runnu út úr þessum bönkum til eigenda og vildarklúbbs þeirra eru óskiljanlegar. Umfram allt: Icesave-málið var rangri hugmyndafræði að kenna; markaðsnauðhyggjunni sem réð ríkjum um síðustu aldamót. Samkvæmt þeirri hugmyndafræði leita peningarnir ævinlega í rétta staði, svo fremi sem þeir fái að gera það, en stjórnmálamenn trufli ekki lögmál markaðsguðanna. Þessi trúarbrögð gera ráð fyrir því að bankamenn séu alltaf á réttri leið á meðan gróði sé af starfsemi þeirra. Ekki má trufla þá starfsemi með regluverki eða öðrum leiðindum. Fólk trúði því að Icesave væri gróðafyrirtæki af því tagi. En það var ekki svo. Við verðum að muna það. Það var ekki í lagi með Icesave. Aldrei aftur Icesave. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Heyrst hefur úr ranni VG að tilviljun hafi ráðið niðurstöðunni í Icesave-málinu. Er það ekki eitthvað orðum aukið? Þó að Íslendingar hafi ekki verið vissir um að málflutningur þeirra næði eyrum dómara er ekki þar með sagt að þetta hafi bara verið einhver grís – niðurstaðan hafi verið látin ráðast af hlutkesti. Verðum við ekki að treysta því að dómarar hafi ígrundað málið, og jafnvel hugsanlega að þeir hafi komist að réttri niðurstöðu? Segir það ekki sína sögu um viðhorf okkar til laga og réttar að við skyldum upp til hópa telja að niðurstaðan yrði þeim sterka í vil? Eftir allan hamaganginn, alla geðshræringuna, alla svardagana og allar heitstrengingarnar, var eins og enginn ætti von á hinni réttu niðurstöðu.„Réttlætið það sigraði að lokum" Icesave-málið fór sem sagt nokkurn veginn eins og það átti að fara; réttlát niðurstaða fékkst með dómi. Þrotabú Landsbankans greiðir það sem því ber að greiða, íslenskur almenningur þarf ekki að taka á sig þær byrðar sem þessi tiltekna starfsemi þessa tiltekna einkabanka hefði lagt á hann – nóg er nú samt. Bankastjórar Landsbankans skrökvuðu þegar þeir héldu því fram að íslenska ríkið ábyrgðist innistæður Icesave-reikinganna. Hið sama gerðu ráðherrar fyrri ríkisstjórna og ráðuneytismenn. Til allrar hamingju var ekkert að marka íslenska ráðamenn í aðdraganda hrunsins. Niðurstaðan í málinu er stórsigur fyrir Ólaf Ragnar Grímsson. Við vitum að vísu ekki alveg fyrir víst hvað hefði gerst ef hann hefði ekki synjað Icesave-samningum tvívegis staðfestingar, og sent í þjóðaratkvæðagreiðslu, því að umræðan virðist yfirleitt miða við verstu hugsanlegu útkomuna – og kannski þarf að taka með í reikninginn ýmsa erfiðleika Íslendinga í kjölfar synjunarinnar við að afla sér lánsfjár – en ekkert af því breytir því að niðurstaða EFTA-dómstólsins gerir Ólaf að sigurvegara málsins. Hrakspár valinna aðila um það sem myndi gerast við synjun forseta og þjóðar á téðum samningum gengu ekki eftir. Og Íslendingar fá nú að baða sig í því ljósi að hafa verið þjóðin sem neitaði að taka á sig skuldir banksteranna. Þótt það sé að vísu rangt þá er ímyndin eigi að síður sú og þar með sjálfsmyndin. Niðurstaðan kann að virðast áfall fyrir Evrópusambandssinna og vatn á myllu einangrunarsinna – og er það áreiðanlega – en þó má ekki gleyma því að niðurstaðan sýnir að smáþjóð í evrópsku samstarfi hefur þetta skjól og í rauninni ekki annað: regluverkið, lögin, dómstóla og skuldbindandi úrskurði þeirra. Sú er hin kaldhæðnislega niðurstaða málsins: við sóttum réttlætið til Evrópu.Hverjum að kenna? En við þurfum alltaf að muna eitt: málið er ekki þeim að kenna sem reyndu að leysa það, með misgóðum árangri, við erfiðar aðstæður. Allt það fólk starfaði í góðri trú, og þótt það kunni að hafa verið misviturt og misheppið taldi það sig vera að forða þjóð sinni frá allsherjar greiðsluþroti, lánaþurrð og hallæri. Icesave-málið var ekki þeim að kenna sem mistókst að leysa það. Icesave-málið var þeim að kenna sem stofnuðu Icesave-reikningana. Það gerðu þeir ekki í góðri trú heldur til að skaffa pening, redda sér fyrir horn; Icesave-furstarnir sópuðu til sín sparifé auðtrúa fólks sem hélt að Íslendingar væru svo klárir að nota internetið. Þessir menn tengdu starfsemi sína blygðunarlaust við nafn lands og þjóðar, misnotuðu sér það góða orð sem fór af Íslendingum í löndum Evrópu, þegar þjóðirnar héldu að hér væri norrænt velferðarríki og íslenska þjóðin væri ung og klár og vel menntuð, og heiðarleg. Icesave-málið var þeim að kenna sem stóðu fyrir rangri stefnu í stjórmálum. Það var því að kenna að rangir menn komust yfir íslensku bankana í krafti tengsla sinna og áhrifa innan ráðandi stjórnmálaflokka. Framsóknarmenn fengu Kaupþing, Sjálfstæðismenn fengu Landsbankann og Sparisjóðina – ekki síst peningafabrikkuna óskiljanlegu í Keflavík – og sífellt var tekist á um Íslandsbanka. Þær upphæðir sem runnu út úr þessum bönkum til eigenda og vildarklúbbs þeirra eru óskiljanlegar. Umfram allt: Icesave-málið var rangri hugmyndafræði að kenna; markaðsnauðhyggjunni sem réð ríkjum um síðustu aldamót. Samkvæmt þeirri hugmyndafræði leita peningarnir ævinlega í rétta staði, svo fremi sem þeir fái að gera það, en stjórnmálamenn trufli ekki lögmál markaðsguðanna. Þessi trúarbrögð gera ráð fyrir því að bankamenn séu alltaf á réttri leið á meðan gróði sé af starfsemi þeirra. Ekki má trufla þá starfsemi með regluverki eða öðrum leiðindum. Fólk trúði því að Icesave væri gróðafyrirtæki af því tagi. En það var ekki svo. Við verðum að muna það. Það var ekki í lagi með Icesave. Aldrei aftur Icesave.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun