Tónlist

Samstaða og gleði í Græna herberginu

Tinna Rós Steinsdóttir skrifar
Eyþór Ingi vann yfirburðasigur í Söngvakeppninni á laugardagskvöld. Fréttablaðið/Valli
Eyþór Ingi vann yfirburðasigur í Söngvakeppninni á laugardagskvöld. Fréttablaðið/Valli
Það var spennuþrungið andrúmsloft í Græna herberginu þegar úrslitanna var beðið á laugardagskvöldið. Keppendur létu tímann líða með því að gantast og grínast hver í öðrum, skrifa eiginhandaráritanir og sitja fyrir á myndum og glæsilegt veitingaborðið laðaði nokkra að sér. Þegar auglýsingahléinu lauk og Þórhallur og Gunna Dís birtust aftur á skjánum sló þögn á hópinn samstundis. Spennan var þvílík að ekki var annað hægt en að hrífast með. Ég átti að minnsta kosti í mestum erfiðleikum með að hemja skjálfandi hnén. Þetta tók fljótt af. Eyþór Ingi rétt náði að kyngja snittunni og enn í sjokki var hann leiddur út úr herberginu og upp á svið. Hann var kominn í einvígið og eitt sæti enn laust. Spennan magnaðist og áður en ég vissi af var Unnur teymd fram hjá mér og orðin "vá, hvað er að gerast“ laumuðust úr munni hennar á milli táranna. Spennufallið í herberginu var gríðarlegt og þó þeir keppendur sem eftir sátu væru vonsviknir yfir sínu hlutskipti virtust þeir þó umfram allt samgleðjast keppinautum sínum. Meðan keppendurnir föðmuðust og hrósuðu hver öðrum fyrir frammistöðu kvöldsins mátti finna fyrir miklum stuðningi við þau tvö sem stóðu á sviðinu. Það var innilega fagnað, stokkið upp úr stólum og fallist í faðma þegar tilkynnt var að lagið Ég á líf hefði sigrað og víst má telja að þessi viðbrögð hefðu orðið sama hver hefði unnið.
Hvað er að gerast? Unni Eggertsdóttur var mjög brugðið þegar tilkynnt var að lag hennar, Ég syng, hefði komist í einvígið á laugardaginn.


Þeir Eyþór Ingi, Pétur Örn og Örlygur Smári gátu ekki annað en fallist í faðma þegar í ljós kom að þeir höfðu borið sigur úr býtum í keppninni. Unnur og hennar lið samgladdist þeim að sjálfsögðu innilega.


Höfundarnir Pétur Örn og Örlygur Smári ásamt Eyþóri Inga en þeir voru að vonum ánægðir með sitt í lok kvölds.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×