Handbolti

Patrekur: Ekki staðið við loforð hjá Val

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Patrekur tekur við þjálfun Hauka í sumar.fréttablaðið/valli
Patrekur tekur við þjálfun Hauka í sumar.fréttablaðið/valli
Patrekur Jóhannesson var í gær ráðinn þjálfari Hauka og mun hann taka við starfinu í sumar. Hann tók við Val síðastliðið sumar og mun klára tímabilið að Hlíðarenda.

„Ég mun klára mitt starf hjá Val eins og atvinnumaður," sagði Patrekur á blaðamannafundi á Ásvöllum í gær. „Þetta truflar mig ekki neitt. Ég hef komið hreint og beint fram við Val frá upphafi," bætti hann við en Patrekur tilkynnti forráðamönnum Vals um miðjan desember að hann vildi hætta eftir tímabilið.

Þá fóru hjólin að snúast varðandi starfið hjá Haukum. Hann tekur við því af Aroni Kristjánssyni sem mun einbeita sér að landsliðsþjálfarastarfinu frá og með sumrinu.

Patrekur segir að ekki hafi verið staðið við loforð sem voru gefin hjá Val. „Ég lenti í því sama og Júlíus Jónasson [sem hætti hjá Val í desember 2010] – leikmenn fóru rétt fyrir tímabilið og svo var lofað leikmönnum sem komu ekki," sagði Patrekur.

Haukar og Valur eiga eftir að mætast minnst einu sinni í viðbót í deildinni en hlutskipti liðanna hafa verið ólík hingað til. Haukar eru langefstir með 23 stig en Valur situr á botni deildarinnar með sjö stig úr tólf leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×