Himnasendingar og hvalrekar Ólafur Þ. Stephensen skrifar 8. nóvember 2013 07:00 Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er bjartsýnismaður. Um það bera vott tvær ræður, sem hann hefur haldið undanfarna daga. Þá fyrri hélt hann á atvinnumálaráðstefnu á Hallormsstað, eins og sagt var frá í Fréttablaðinu í gær. Þar sagðist Sigmundur Davíð telja að trúin ein á olíufund á Drekasvæðinu gæti haft mikil áhrif. Undirbúningsvinna og rannsóknir hefðu áhrif á fjárfestingu og uppbyggingu, jafnvel fjárhag ríkisins. „Þau vaxtakjör sem bjóðast á þessar skuldir sem við erum að reyna að greiða niður, þau ráðast af framtíðarhorfum í íslensku atvinnulífi,“ sagði forsætisráðherrann. „Og það að 320 þúsund manna þjóð væri komin með sterk rök fyrir því að verulegar olíu- og gaslindir væri að finna í lögsögunni myndi væntanlega auka lánstraust Íslands til mikilla muna og hefði þannig strax mikil bein fjárhagsleg áhrif.“ Það er rétt að það gæti falið í sér gríðarleg tækifæri fyrir Ísland ef olía eða gas fyndist á Drekasvæðinu. En það er stórt ef. Og heldur snemmt að draga ályktanir um að lánshæfi ríkissjóðs skáni bara af því að menn hafa trú á að olían finnist. Sennilega taka erlendir lánveitendur og fjárfestar handfastan árangur í hagstjórn fram yfir bjartar vonir um olíufund. Hina ræðuna hélt forsætisráðherrann á Alþingi í gær, um „róttækustu aðgerðir stjórnvalda nokkurs staðar í veröldinni í þágu skuldsettra heimila“ eins og hann kallar það sjálfur. Þar var farið yfir það að starf hinna ýmsu nefnda og starfshópa gengi samkvæmt áætlun. Sjálf forsendan fyrir heimsmetinu var þó aðeins nefnd í framhjáhlaupi, nefnilega að „nýta hluta þess svigrúms sem myndast við skuldaskil fallinna fjármálafyrirtækja í leiðréttinguna“. Sigmundur Davíð útskýrði ekki betur fyrir okkur en áður hvernig ríkissjóður myndi græða hundruð milljarða á samningum við kröfuhafa hinna föllnu banka. En við vitum að hann er gríðarlega bjartsýnn á slíka lausn. Reyndar vantaði líka alveg í ræðu forsætisráðherrans greiningu á því hvað það myndi gera fyrir lánshæfismat Íslands að kreista útlenda fjárfesta til að fjármagna stórkostlegustu kosningaloforð í heimi. Það er gott að vera bjartsýnn. Og að sjálfsögðu eigum við að vera vakandi fyrir tækifærunum og grípa þau þegar þau gefast. Við getum hins vegar ekki stólað á himnasendingar og hvalreka. Stjórnvöld þurfa að sýna að þau geti náð árangri án happdrættisvinninga. Til að tryggja hag fyrirtækja og heimila í landinu er einna brýnast að ná tökum á gjaldmiðlinum. Það þarf að tryggja stöðugleika sem greiðir fyrir milliríkjaviðskiptum og afnema gjaldeyrishöftin. Það þarf að tryggja að enn ein gengiskollsteypan valdi ekki enn einni stökkbreytingunni á lánum heimilanna – því að sú sem átti sér stað árin 2007-2008 var ekki sú fyrsta og verður heldur ekki sú síðasta á meðan við búum við krónuna. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ýtt frá sér nærtækasta kostinum á að Ísland geti eignazt stöðugan gjaldmiðil og komizt út úr gjaldeyrishöftunum. Það væri miklu nær að leggja fram raunhæft plan um slíkt en að byggja skýjaborgir sem gefa sér þá forsendu að við verðum heppin. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er bjartsýnismaður. Um það bera vott tvær ræður, sem hann hefur haldið undanfarna daga. Þá fyrri hélt hann á atvinnumálaráðstefnu á Hallormsstað, eins og sagt var frá í Fréttablaðinu í gær. Þar sagðist Sigmundur Davíð telja að trúin ein á olíufund á Drekasvæðinu gæti haft mikil áhrif. Undirbúningsvinna og rannsóknir hefðu áhrif á fjárfestingu og uppbyggingu, jafnvel fjárhag ríkisins. „Þau vaxtakjör sem bjóðast á þessar skuldir sem við erum að reyna að greiða niður, þau ráðast af framtíðarhorfum í íslensku atvinnulífi,“ sagði forsætisráðherrann. „Og það að 320 þúsund manna þjóð væri komin með sterk rök fyrir því að verulegar olíu- og gaslindir væri að finna í lögsögunni myndi væntanlega auka lánstraust Íslands til mikilla muna og hefði þannig strax mikil bein fjárhagsleg áhrif.“ Það er rétt að það gæti falið í sér gríðarleg tækifæri fyrir Ísland ef olía eða gas fyndist á Drekasvæðinu. En það er stórt ef. Og heldur snemmt að draga ályktanir um að lánshæfi ríkissjóðs skáni bara af því að menn hafa trú á að olían finnist. Sennilega taka erlendir lánveitendur og fjárfestar handfastan árangur í hagstjórn fram yfir bjartar vonir um olíufund. Hina ræðuna hélt forsætisráðherrann á Alþingi í gær, um „róttækustu aðgerðir stjórnvalda nokkurs staðar í veröldinni í þágu skuldsettra heimila“ eins og hann kallar það sjálfur. Þar var farið yfir það að starf hinna ýmsu nefnda og starfshópa gengi samkvæmt áætlun. Sjálf forsendan fyrir heimsmetinu var þó aðeins nefnd í framhjáhlaupi, nefnilega að „nýta hluta þess svigrúms sem myndast við skuldaskil fallinna fjármálafyrirtækja í leiðréttinguna“. Sigmundur Davíð útskýrði ekki betur fyrir okkur en áður hvernig ríkissjóður myndi græða hundruð milljarða á samningum við kröfuhafa hinna föllnu banka. En við vitum að hann er gríðarlega bjartsýnn á slíka lausn. Reyndar vantaði líka alveg í ræðu forsætisráðherrans greiningu á því hvað það myndi gera fyrir lánshæfismat Íslands að kreista útlenda fjárfesta til að fjármagna stórkostlegustu kosningaloforð í heimi. Það er gott að vera bjartsýnn. Og að sjálfsögðu eigum við að vera vakandi fyrir tækifærunum og grípa þau þegar þau gefast. Við getum hins vegar ekki stólað á himnasendingar og hvalreka. Stjórnvöld þurfa að sýna að þau geti náð árangri án happdrættisvinninga. Til að tryggja hag fyrirtækja og heimila í landinu er einna brýnast að ná tökum á gjaldmiðlinum. Það þarf að tryggja stöðugleika sem greiðir fyrir milliríkjaviðskiptum og afnema gjaldeyrishöftin. Það þarf að tryggja að enn ein gengiskollsteypan valdi ekki enn einni stökkbreytingunni á lánum heimilanna – því að sú sem átti sér stað árin 2007-2008 var ekki sú fyrsta og verður heldur ekki sú síðasta á meðan við búum við krónuna. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ýtt frá sér nærtækasta kostinum á að Ísland geti eignazt stöðugan gjaldmiðil og komizt út úr gjaldeyrishöftunum. Það væri miklu nær að leggja fram raunhæft plan um slíkt en að byggja skýjaborgir sem gefa sér þá forsendu að við verðum heppin.