Leikjavísir

Koma PlayStation 4 hefur lítil áhrif á markmið CCP

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
„Okkar samstarf við Sony er til margra ára og við sjáum ekki fram á annað en að það verði líflegt," segir Þorsteinn Högni Gunnarsson, yfirmaður viðskiptaþróunar hjá tölvuleikjafyrirtækinu CCP.

Fyrr í þessari viku boðaði japanska tæknifyrirtækið Sony komu fjórðu kynslóðar PlayStation leikjatölvunnar. Fyrirtækið gaf þó ekkert upp um útgáfudag, verð eða útlit tölvunnar.

Á undanförnum árum hefur CCP unnið að þróun fyrstu persónu skotleiksins DUST 514. Leikurinn er nú í opinni prufukeyrslu á PlayStation 3 leikjatölvunni.

Þorsteinn Högni segir að PlayStation 4 leikjatölvan — sem fer í almenna sölu seinna á þessu ári — breyti litlu fyrir þróun DUST 514. Sjö ár eru liðin frá því að PlayStation 3 fór í almenna sölu og augljóst hafi verið að Sony myndi á endanum kynna nýja kynslóð leikjatölvunnar. Þannig vonast Þorsteinn Högni til að líftími DUST 514 verði í takt við fjölspilunarleikinn EVE Online en hann hefur verið í stöðugri þróun síðasta áratug.

„Á þessum tíu árum sem við höfum staðið í þróun á EVE Online höfum við uppfært leikinn og fært hann yfir á ný stýrikerfi sem byggja á nýjum vélbúnaði. Þetta á bæði við um PC-tölvur og Mac. Það gefur auga leið að ef við ætlum okkur að halda þessum leikjum úti þá þurfum við að gera það á þeim tölvubúnaði sem er ríkjandi hverju sinni."

Þá segir Þorsteinn Högni að Sony hafi tekist afar vel með PlayStation 4 leikjatölvuna. „Við erum auðvitað afar spennt fyrir nýju tölvunni og þetta er skemmtilegt útspil hjá Sony."

„En staðreyndin er sú að við erum að einblína á PlayStation 3, sú er staða mála í dag og við eigum þar stór verkefni eftir ," segir Þorsteinn Högni að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×