Körfubolti

Jamarco Warren fór ekki langt - samdi við ÍA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zachary Jamarco Warren í leik með Snæfelli.
Zachary Jamarco Warren í leik með Snæfelli. Mynd/Stefán
Zachary Jamarco Warren mun spila áfram körfubolta á Íslandi þótt að Snæfell hafi látið kappann fara á dögunum því þessi bandaríski leikstjórnandi er búinn að semja við 1. deildarlið Skagamanna. Skagamenn segjast ætla að spila hraðari bolta nú þegar þeir hafa Warren innan sinna raða.

Jamarco Warren, sem er 177 sm leikstjórnandi, lék sex leiki með Snæfelli í Lengjubikarnum og var með í þeim 17,3 stig að meðaltali auk þess að gefa 5,4 stoðsendingar og taka 5,0 fráköst í leik.

„Við fréttum af því á mánudaginn að Snæfell hafi sagt upp samningi sínum við Jamarco og að hann væri bara á leiðinni úr landi.  Þar sem Akranes er í leiðinni á milli Stykkishólms og Keflavíkur fannst okkur kjörið að fá hann á æfingu“ sagði Hannibal Hauksson formaður Körfuknattleiksfélags ÍA í viðtali á heimasíðu félagsins.

„Hann leit mjög vel út á þessari æfingu, og ennþá betur á annarri æfingunni.  Kemur með allt annan hraða inn í liðið sem ég held við ættum að geta nýtt okkur vel í vetur“  sagði Áskell Jónsson, nýráðinn þjálfari ÍA í körfunni, en Áskell tók við liðinu af Sigurði Elvari Þórólfssyni.

Jamarco mun væntanlega spila sinn fyrsta leik í kvöld þegar Hamar tekur á móti ÍA í Hveragerði í opnunarleik 1. deildarinnar. Leikurinn hefst klukkan 19.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×