Fastir pennar

Breytt landslag

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Athyglisvert er að skoða kannanir Markaðs- og miðlarannsókna (MMR) á því hvaða stjórnmálaflokkum fólk treysti bezt til að fara með forystu í ákveðnum málaflokkum. Þær gefa fyllri mynd af pólitíska landslaginu en hreinar fylgiskannanir. Þessar kannanir hafa verið gerðar fimm sinnum frá hruni og Fréttablaðið hefur birt niðurstöður þeirra, síðast nú á laugardag.

Stóra breytingin í þessum könnunum varð tiltölulega snemma á kjörtímabilinu; sá mikli meðbyr sem núverandi stjórnarflokkar höfðu í upphafi samstarfs síns hvarf. Vorið 2009 var öðrum hvorum stjórnarflokknum bezt treyst til forystu í flestum málaflokkum og samanlagt taldi yfir helmingur kjósenda annan hvorn flokkinn bezt til forystu fallinn í öllum málum sem um var spurt. Strax tæpu ári síðar hafði þetta breytzt mikið og Sjálfstæðisflokkurinn sótt í sig veðrið á nýjan leik. Síðan hefur leiðin aðallega legið niður á við hjá Vinstri grænum, en Samfylkingin nær sér reyndar aðeins á strik nú miðað við könnunina fyrir ári. Það breytir ekki því að stjórnarflokkarnir glutruðu niður hinu stóra tækifæri fyrstu hreinræktuðu vinstri stjórnarinnar og hafa ekki náð að rétta hlut sinn aftur.

Að undanförnu hafa stjórnarflokkarnir hamrað á því að endurreisn efnahagslífsins eftir hrunið hafi gengið svo glimrandi vel og þjóðin sé byrjuð að uppskera eftir erfið og mögur ár. Kjósendur trúa þeirri sögu ekki betur en svo að í öllum málaflokkum sem eitthvað tengjast efnahagsmálum hefur traust í garð stjórnarflokkanna hrunið. Flestir kjósendur segjast treysta Sjálfstæðisflokknum í þeim málum, jafnvel talsvert fleiri en þeir sem segjast ætla að kjósa flokkinn.

Kjósendur treysta Sjálfstæðisflokknum raunar bezt í fjórtán af fimmtán málaflokkum sem um var spurt. Staða flokksins er að þessu leyti gjörbreytt frá fyrstu könnun kjörtímabilsins. Hins vegar vekur athygli hvað Framsóknarflokkurinn hefur spilað illa úr sinni stjórnarandstöðu; bæði fylgið og traustið hljóta að valda forystu flokksins vonbrigðum.

Athyglisvert er að sjá hvernig traust til stjórnarflokkanna í málum sem þeir bera sérstaklega fyrir brjósti hefur hrunið. Þar má nefna skattamálin hjá báðum stjórnarflokkum og heilbrigðismál, auðlindamál og umhverfismál hjá VG, þótt síðarnefnda flokknum sé enn treyst örlítið betur en Sjálfstæðisflokknum til að fara með umhverfismálin.

Í könnunum MMR í fyrra og árið þar áður sögðust talsvert margir treysta öðrum en hefðbundu stjórnmálaflokkunum fjórum bezt fyrir tilteknum málaflokkum. Björt framtíð er í nýjustu könnuninni komin á blað og virðist taka til sín talsvert marga sem ekki vildu þá treysta neinum gömlu flokkanna. Hins vegar eru þeir mun færri sem treysta BF til að leiða hina ýmsu málaflokka en ætla að kjósa flokkinn, enda hafa kjósendur enga reynslu af BF við stjórnvölinn.

Tilkoma nýs flokks, sem virðist geta komið mönnum á þing, breytir hins vegar ekki því að líkt og í fyrra segjast aðeins um 60% yfirleitt treysta einhverjum flokki bezt til að fara með forystu einhverra málaflokka. Það hlutfall var tæplega 80% við upphaf kjórtímabilsins. Hópurinn sem hefur ógeð á allri pólitík er áfram stór og það er áhyggjuefni fyrir alla flokka.






×