Lífið

Ásthildur hlaut aðalverðlaunin

Ásthildur Kjartansdóttir hlaut aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar Arctic Heat um helgina fyrir stuttmyndina Brynhildur og Kjartan. fréttablaðið/vilhelm
Ásthildur Kjartansdóttir hlaut aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar Arctic Heat um helgina fyrir stuttmyndina Brynhildur og Kjartan. fréttablaðið/vilhelm
Stuttmynd Ásthildar Kjartansdóttur hlaut aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar Arctic Heat helgina sem leið. Ásthildur var nýkomin heim af Eddunni þegar henni var tilkynnt um sigurinn á Arctic Heat en hátíðin var fyrst haldin árið 1997. „Ég var að koma heim af Eddunni og þá beið mín póstur þar sem mér var tilkynnt um sigurinn. Ég var auðvitað mjög ánægð með það,“ segir Ásthildur. Stuttmyndin ber titilinn Brynhildur og Kjartan og fjallar um eldri hjón sem búa saman í lítilli íbúð. Maðurinn þjáist af Alzheimer og reynir eiginkona hans að takast á við veikindin með honum. „Þetta er vissulega stórt og mikið efni fyrir mynd sem er ekki nema fjórtán mínútur að lengd, en það næst samt að draga upp heillega mynd af þeirra aðstæðum.“ Myndirnar sem keppa til verðlauna á Arctic Heat eru í leikstjórn kvenna og þurfa leikstjórarnir einnig að hafa ríkisfang í einhverju Norðurlandanna. Alls komast 27 myndir í undanúrslit og velur dómnefnd sigurvegara úr þeim hópi. Sá hlýtur um 85 þúsund krónur að launum. Þegar Ásthildur er innt eftir því hvort kvikmyndahátíð sem þessi sé nauðsynleg í dag telur hún svo vera. „Ætli þetta sé ekki viðbragð við því ástandi sem ríkir innan kvikmyndabransans. Það skiptir engu máli hverjum það er að kenna, svona er þetta og það er ekki gott,“ segir hún að lokum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×