Íslenski boltinn

Passa betur upp á boltann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þjálfarateymi Íslands – Heimir Hallgrímsson, Lars Lagerbäck og Guðmundur Hreiðarsson.fréttablaðið/valli
Þjálfarateymi Íslands – Heimir Hallgrímsson, Lars Lagerbäck og Guðmundur Hreiðarsson.fréttablaðið/valli
Það er komið að seinni hálfleik í undankeppni HM 2014, en íslenska landsliðið mætir því slóvenska ytra á föstudaginn næstkomandi. Lars Lagerbäck tilkynnti í gær landsliðshóp sinn sem er ætlað það erfiða verkefni að sækja minnst eitt stig á erfiðum útivelli á Balkansskaga.

Ísland er með sex stig eftir fyrstu fjóra leikina en aðeins eitt stig skilur að liðin í 2.-4. sæti. Slóvenar eru í fimmta sæti með þrjú stig og hafa ekki náð að standa undir væntingum.

Það er ljóst að Ísland þarf helst að fá stig í Slóveníu til að vera með í baráttunni um annað sætið. „Ég tel að við ættum enn góða möguleika á öðru sætinu og sæti í umspili með stigi gegn Slóveníu," sagði Lagerbäck á blaðamannafundi í gær. „En ég stefni alltaf á sigur í mínum leikjum og það breytist ekki nú."

Nýr þjálfari hjá Slóvenum

Ísland gerði góða för til Balkanskagans í haust og sigraði þá Albaníu 1-0 í miklum rigningarleik. Lagerbäck telur að lið Slóvena sé svipað að styrkleika.

„Það er hins vegar ákveðin óvissa í kringum lið Slóvena því það er nýbúið að skipta um þjálfara," sagði Lagerbäck, en Slavisa Stojanovic var rekinn í desember. Srecko Katanec, sem kom Slóvenum á EM 2000 og HM 2002, var ráðinn aftur í starfið snemma á nýju ári.

„Nýr þjálfari breytti um varnaraðferð og var með þriggja manna varnarlínu í síðasta æfingaleik. En það kæmi mér ekki á óvart ef hann myndi breyta aftur í fjögurra manna vörn fyrir leikinn gegn okkur," sagði Lagerbäck, en þess má geta að tveir leikmenn eru í banni hjá Slóveníu. Alls eru þeir þrír hjá Íslandi – Rúrik Gíslason, Kári Árnason og Grétar Rafn Steinsson.

Barcelona-heilkennið

Slóvenía tapaði umræddum vináttuleik, 3-0, fyrir Bosníu og Hersegóvínu. Á sama degi tapaði Ísland sínum vináttulandsleik gegn Rússum á Spáni, 2-0.

Lagerbäck stillti upp sókndjörfu liði gegn Rússum en hann var þó fyrst og fremst ánægður með varnarvinnu liðsins í þeim leik. „Varnarleikurinn gegn Rússum var sá besti sem við höfum sýnt. Samvinna allra leikmanna í varnarleiknum var mjög góð. Við erum þó hikandi þegar við fáum boltann en bæði mörk Rússa komu þegar við töpuðum boltanum á slæmum stað," segir Lagerbäck.

„Ég hef kallað þetta Barcelona-heilkennið. Leikmenn geta stundum verið of metnaðargjarnir, þó svo að það sé gott að hafa metnað. En við þurfum að passa betur upp á boltann og fá leikmenn til að vera aðeins kaldari þegar þeir fá hann. Við þurfum að vera duglegir að búa til pláss þegar við fáum boltann og skapa pressu á varnarmenn andstæðingsins."

Fátt kom á óvart í vali Lagerbäck. Sölvi Geir Ottesen kemur þó aftur inn í liðið þrátt fyrir að vera í kuldanum hjá liði sínu, FCK, á kostnað Indriða Sigurðssonar. Þá er Ögmundur Kristinsson, markvörður Fram, verðlaunaður fyrir góða frammistöðu á undirbúningstímabilinu með sæti í landsliðinu. Stefán Logi Magnússon og Haraldur Björnsson eru báðir tæpir vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×