Íslenski boltinn

Lágmark að við fáum almennilegan bolta

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jóhann Laxdal, leikmaður Stjörnunnar
Jóhann Laxdal, leikmaður Stjörnunnar
„Við erum búnir að taka tvær æfingar með þessum bolta og þetta er bara eitthvað djók," segir Jóhann Laxdal, leikmaður Stjörnunnar, en hann er ekki par sáttur við boltann sem notaður verður í Pepsi-deildinni í sumar.

Boltinn er frá Adidas og leysir Nike-bolta af hólmi sem hefur verið notaður síðustu tvö ár.

„Það er mjög skrítið að þessi bolti hafi verið valinn þar sem það er hægt að fá betri bolta á svipuðu verði. Þessi bolti er bara lélegt rusl. Nike-boltinn í fyrra var mun skárri. Við nennum ekki að spila með þessum bolta. Ef gæðin eiga að verða betri í deildinni þá er lágmark að við fáum almennilegan bolta."

Það eru samtök félaga í efstu deild, Íslenskur toppfótbolti, sem tekur ákvörðun um hvaða bolta skal nota hverju sinni.

„Þessi bolti hefur verið í gangi í einhvern tíma. Þessi bolti er í næsthæsta gæðaflokki hjá Adidas rétt eins og Nike-boltinn sem var notaður. Íslensk félög eru því miður ekki nógu fjáð til þess að fara í dýrustu boltana," segir Jón Rúnar Halldórsson, formaður Íslensks toppfótbolta og knattspyrnudeildar FH.

„Við erum kannski ekki nógu vísindalegir í okkar vali en við erum að prófa okkur áfram. Adidas er samt gott merki og ég efast um að fyrirtækið láti frá sér bolta í næsthæsta gæðaflokki sem ekkert er varið í."

Samtökin leita eftir tilboðum frá boltaframleiðendum áður en ákvörðun er tekin. Liðin vilja æfa með sama bolta og spilað er með. Þess vegna er ekki óalgengt að þau kaupi 30-50 bolta.

„Þá skiptir máli hvort boltinn kostar 5-6.000 eða 11-12.000 kr. Það munar um það. Við erum að reyna að velja meiri gæði. Það er líka oft trúarbragðaskoðun hvort menn vilja Adidas eða Nike. Svo man ég að einhverjir voru líka ósáttir þegar við ákváðum að nota Nike-boltann. Þannig er þetta bara."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×