Þrjú lykilorð Framsóknar Guðmundur Andri Thorsson skrifar 8. apríl 2013 06:00 Metsölubókin síðustu jól var um Gísla á Uppsölum og ég þekki mann sem segir að nú ætli sagan að endurtaka sig: „Framsókn er Gísli á Uppsölum," segir hann og sér fyrir sér þjóðina halda inn í sinn afdal og afneita heiminum, talandi hrognamál sem enginn skilur. Undanfarið hefur farið fram markviss leit að hinum þjóðlegu gildum með tilheyrandi lopapeysufári og lifrarpylsuáti; kannski er það sú leit sem leiðir svo marga á vit þessa séríslenska flokks, sem stjórnaði hér á áttunda áratugnum hagkerfi sem var eins konar heimsundur, með það verðbólgumarkmið að ná hundrað prósenta verðbólgu. Kannski er nostalgían að leiða þjóðina þangað – gekk ekki allt svo vel í verðbólgunni? – og bráðum verða allir karlar með barta og í útsniðnum buxum, konur í köflóttum pilsum í leðurstígvélum og Geirfinnur týnist aftur. Eftir einhverjum öðrum var haft að Framsókn væri fótanuddtæki ársins. Vanhugsuð, hvatvís hópsálarkaup sem enda á háaloftinu. Ég veit það ekki. Kannski er Framsókn bara Sjálfstæðisflokkurinn í ár á þessum tímum fullkominnar upplausnar í flokkakerfinu þar sem fjöldinn þeytist frá Jóni Gnarr til Ólafs Ragnars til Sigmundar Davíðs, í örvæntingarfullri leit að valkosti sem gengur fram af elítunni og framkallar harðorðar ályktanir á aðalfundi álitsgjafafélagsins á Facebook. „Eru þar flestir aumingjar", hefur lengi verið viðkvæðið um sjálft Alþingi – Búsáhaldabyltingin gekk út á að ríða húsum þar frekar en í Borgartúni þar sem raunverulegir sökudólgar breiddu úr sér, enda hefur byltingarfólkið sjálfsagt ekki ratað svo langt austur í borginni, og ekki jókst virðing Alþingis við framgöngu málmorranna í Sjálfstæðisflokknum undanfarin ár: og hví skyldi maður ekki kjósa Framsókn eins og hvað annað? Flokkur þeirra ópólitísku. Hvað er annars Framsókn? Varla sveitaflokkur lengur, enginn vinstri flokkur, varla einu sinni miðjuflokkur. En samt ekki einskær hægriflokkur með tilheyrandi einkavæðingarhótanir: Þrjú lykilorð eru að baki velgengni Framsóknarmanna um þessar mundir: Heimilin – Icesave – þjóðrækni.Næsta orrusta Úrskurður EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu breytti öllu. Hann sýndi svo sem að smáþjóðir njóta réttar í evrópsku lagaumhverfi þegar gömul stórveldi sækja að þeim en enginn tók eftir því heldur var mórallinn þessi: Það var rétt hjá okkur að fella þessa samninga. Elítunni skjátlaðist. Skítt með það að vilja haga sér á ábyrgan hátt gagnvart innistæðueigendum í Englandi og Hollandi. Tröll hirði þessar ensku ömmur. Við skuldum engum neitt. Því harðari og óbilgjarnari sem menn voru, þeim mun réttar höfðu þeir fyrir sér. Þetta var nefnilega stríð. Nú geta frambjóðendur Framsóknar sagt þetta um allar efasemdir um loforð þeirra: Já, já, þið hélduð líka að við hefðum rangt fyrir okkur í Icesave – og málið útrætt. Skiptir þá engu máli að Framsóknarfrömuðirnir höfðu rangt fyrir sér í því að taka upp norska krónu og Kanadadal. Og ótal öðrum málum. Skiptir þá engu að þeir eru arftakar flokksins sem rústaði félagslega – norræna – húsnæðiskerfinu; kom af stað fasteignabólunni með lánaaustri til fólks sem getur ekki greitt þau; blés upp aðra bólu með Kárahnjúkavirkjun; blés upp enn aðra bólu með kvótakerfinu; gerði liðsodda sína að auðkýfingum á rússneska vísu með nálægð við valdastólana. Flokksins sem ríkti yfir Framsóknaráratugnum eins og hver önnur hæð yfir Grænlandi. Gott og vel. Fólk telur – og kannski réttilega – að orrustan um Ísland geisi enn. Og að þeir sem berjist séu annars vegar erlendir „kröfuhafar" og hins vegar „heimilin í landinu". Það er áreiðanlega nokkur einföldun – kröfuhafarnir og hákarlarnir margir innlendir – og „heimilin" misjafnlega illa leikin og margur laumufarþeginn þar sjálfsagt veinandi um skjaldborg fyrir sig. Það breytir því ekki að þetta er frásögnin sem Framsókn býður upp á og mörgum þykir hún spennandi. Nú er fyrir dyrum næsta orrusta í þessu stríði: snjóhengjuorrustan. Kenningin er sú að Íslendingar hafi komið sér í svo ævintýralegar skuldir erlendis að það verði í sjálfu sér að stórfelldri tekjulind fyrir „heimilin í landinu" þegar þarf að fara að afskrifa þær. Í þau átök við „kröfuhafa" þarf vissa óskammfeilni sem fólk trúir Framsóknarmönnum betur til en grandvörum og skilvísum vinstri mönnum.Að missa plottið En vinstri menn gleymdu sér í annarri frásögn sem margt fólk á öllu erfiðara með að lifa sig inn í. Það er sagan um Hrunið – ekki bara bankanna heldur alls kerfisins, allra gilda, allra siða; að hrunið hafi verið „okkur öllum" að kenna og að samfélagið yrði að taka upp nýtt fyrirkomulag allra hluta til að koma í veg fyrir að sagan endurtæki sig. Þessi hugmynd var hin hliðin á hugmyndinni um Íslendinga sem mestu afbragðsþjóð heimsins – nú var hún orðin misheppnaðasta þjóð heims. Öll endurspeglaðist þessi hugsun og viðleitni í Stjórnarskrármálinu. Sú vinna bar vitni þeirri hugsun að stofna þyrfti nýtt lýðveldi – hið fyrra hefði brugðist; væri ónýtt og á engu væri byggjandi af því sem þjóðin hefði gert á fullveldistíma sínum. Þetta er nokkuð ströng kenning og mörgu fólki hefur reynst erfitt að lifa sig inn í hana – ekki síst þegar vinstri menn hreinlega gátu ekki hætt að tala um stjórnarskrána sem ekki varð að veruleika – tóku sér stöðu í ósigrinum miðjum en sýndu „heimilunum í landinu" fullkomið áhugaleysi. Vinstri menn voru á kjörtímabilinu fjarska duglegir að sanna að þeir kynnu að skera niður ríkisútgjöld og standa sig gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum – væru ábyrgir – en áttuðu sig ekki á því að þetta var eiginlega eitruð blanda fyrir þá: annars vegar ábyrgðarkenndin gagnvart „kröfuhöfunum" og hins vegar hugmyndin um að samfélagið allt hefði á einhvern hátt „brugðist" og byrja þyrfti allt upp á nýtt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Kosningar 2013 Skoðun Mest lesið Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Kjaftæði Elliði Vignisson Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun Falleinkunn fyrrum forseta Vilhjálmur Þorsteinsson,Viktor Orri Valgarðsson Skoðun Fólk eða fífl? Anna Gunndís Guðmundsdóttir Skoðun Vill íslenska þjóðin halda í einmenninguna? Matthildur Björnsdóttir Skoðun Ólögleg meðvirkni lækna Teitur Ari Theodórsson Skoðun Afleiðingar verkfallsaðgerða á minnstu börnin - krafa um svör Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir Skoðun Verklausi milljónakennarinn Þórunn Sveinbjarnardóttir Skoðun
Metsölubókin síðustu jól var um Gísla á Uppsölum og ég þekki mann sem segir að nú ætli sagan að endurtaka sig: „Framsókn er Gísli á Uppsölum," segir hann og sér fyrir sér þjóðina halda inn í sinn afdal og afneita heiminum, talandi hrognamál sem enginn skilur. Undanfarið hefur farið fram markviss leit að hinum þjóðlegu gildum með tilheyrandi lopapeysufári og lifrarpylsuáti; kannski er það sú leit sem leiðir svo marga á vit þessa séríslenska flokks, sem stjórnaði hér á áttunda áratugnum hagkerfi sem var eins konar heimsundur, með það verðbólgumarkmið að ná hundrað prósenta verðbólgu. Kannski er nostalgían að leiða þjóðina þangað – gekk ekki allt svo vel í verðbólgunni? – og bráðum verða allir karlar með barta og í útsniðnum buxum, konur í köflóttum pilsum í leðurstígvélum og Geirfinnur týnist aftur. Eftir einhverjum öðrum var haft að Framsókn væri fótanuddtæki ársins. Vanhugsuð, hvatvís hópsálarkaup sem enda á háaloftinu. Ég veit það ekki. Kannski er Framsókn bara Sjálfstæðisflokkurinn í ár á þessum tímum fullkominnar upplausnar í flokkakerfinu þar sem fjöldinn þeytist frá Jóni Gnarr til Ólafs Ragnars til Sigmundar Davíðs, í örvæntingarfullri leit að valkosti sem gengur fram af elítunni og framkallar harðorðar ályktanir á aðalfundi álitsgjafafélagsins á Facebook. „Eru þar flestir aumingjar", hefur lengi verið viðkvæðið um sjálft Alþingi – Búsáhaldabyltingin gekk út á að ríða húsum þar frekar en í Borgartúni þar sem raunverulegir sökudólgar breiddu úr sér, enda hefur byltingarfólkið sjálfsagt ekki ratað svo langt austur í borginni, og ekki jókst virðing Alþingis við framgöngu málmorranna í Sjálfstæðisflokknum undanfarin ár: og hví skyldi maður ekki kjósa Framsókn eins og hvað annað? Flokkur þeirra ópólitísku. Hvað er annars Framsókn? Varla sveitaflokkur lengur, enginn vinstri flokkur, varla einu sinni miðjuflokkur. En samt ekki einskær hægriflokkur með tilheyrandi einkavæðingarhótanir: Þrjú lykilorð eru að baki velgengni Framsóknarmanna um þessar mundir: Heimilin – Icesave – þjóðrækni.Næsta orrusta Úrskurður EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu breytti öllu. Hann sýndi svo sem að smáþjóðir njóta réttar í evrópsku lagaumhverfi þegar gömul stórveldi sækja að þeim en enginn tók eftir því heldur var mórallinn þessi: Það var rétt hjá okkur að fella þessa samninga. Elítunni skjátlaðist. Skítt með það að vilja haga sér á ábyrgan hátt gagnvart innistæðueigendum í Englandi og Hollandi. Tröll hirði þessar ensku ömmur. Við skuldum engum neitt. Því harðari og óbilgjarnari sem menn voru, þeim mun réttar höfðu þeir fyrir sér. Þetta var nefnilega stríð. Nú geta frambjóðendur Framsóknar sagt þetta um allar efasemdir um loforð þeirra: Já, já, þið hélduð líka að við hefðum rangt fyrir okkur í Icesave – og málið útrætt. Skiptir þá engu máli að Framsóknarfrömuðirnir höfðu rangt fyrir sér í því að taka upp norska krónu og Kanadadal. Og ótal öðrum málum. Skiptir þá engu að þeir eru arftakar flokksins sem rústaði félagslega – norræna – húsnæðiskerfinu; kom af stað fasteignabólunni með lánaaustri til fólks sem getur ekki greitt þau; blés upp aðra bólu með Kárahnjúkavirkjun; blés upp enn aðra bólu með kvótakerfinu; gerði liðsodda sína að auðkýfingum á rússneska vísu með nálægð við valdastólana. Flokksins sem ríkti yfir Framsóknaráratugnum eins og hver önnur hæð yfir Grænlandi. Gott og vel. Fólk telur – og kannski réttilega – að orrustan um Ísland geisi enn. Og að þeir sem berjist séu annars vegar erlendir „kröfuhafar" og hins vegar „heimilin í landinu". Það er áreiðanlega nokkur einföldun – kröfuhafarnir og hákarlarnir margir innlendir – og „heimilin" misjafnlega illa leikin og margur laumufarþeginn þar sjálfsagt veinandi um skjaldborg fyrir sig. Það breytir því ekki að þetta er frásögnin sem Framsókn býður upp á og mörgum þykir hún spennandi. Nú er fyrir dyrum næsta orrusta í þessu stríði: snjóhengjuorrustan. Kenningin er sú að Íslendingar hafi komið sér í svo ævintýralegar skuldir erlendis að það verði í sjálfu sér að stórfelldri tekjulind fyrir „heimilin í landinu" þegar þarf að fara að afskrifa þær. Í þau átök við „kröfuhafa" þarf vissa óskammfeilni sem fólk trúir Framsóknarmönnum betur til en grandvörum og skilvísum vinstri mönnum.Að missa plottið En vinstri menn gleymdu sér í annarri frásögn sem margt fólk á öllu erfiðara með að lifa sig inn í. Það er sagan um Hrunið – ekki bara bankanna heldur alls kerfisins, allra gilda, allra siða; að hrunið hafi verið „okkur öllum" að kenna og að samfélagið yrði að taka upp nýtt fyrirkomulag allra hluta til að koma í veg fyrir að sagan endurtæki sig. Þessi hugmynd var hin hliðin á hugmyndinni um Íslendinga sem mestu afbragðsþjóð heimsins – nú var hún orðin misheppnaðasta þjóð heims. Öll endurspeglaðist þessi hugsun og viðleitni í Stjórnarskrármálinu. Sú vinna bar vitni þeirri hugsun að stofna þyrfti nýtt lýðveldi – hið fyrra hefði brugðist; væri ónýtt og á engu væri byggjandi af því sem þjóðin hefði gert á fullveldistíma sínum. Þetta er nokkuð ströng kenning og mörgu fólki hefur reynst erfitt að lifa sig inn í hana – ekki síst þegar vinstri menn hreinlega gátu ekki hætt að tala um stjórnarskrána sem ekki varð að veruleika – tóku sér stöðu í ósigrinum miðjum en sýndu „heimilunum í landinu" fullkomið áhugaleysi. Vinstri menn voru á kjörtímabilinu fjarska duglegir að sanna að þeir kynnu að skera niður ríkisútgjöld og standa sig gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum – væru ábyrgir – en áttuðu sig ekki á því að þetta var eiginlega eitruð blanda fyrir þá: annars vegar ábyrgðarkenndin gagnvart „kröfuhöfunum" og hins vegar hugmyndin um að samfélagið allt hefði á einhvern hátt „brugðist" og byrja þyrfti allt upp á nýtt.