Umtalsverð áhætta í fjármálakerfinu Þorsteinn Pálsson skrifar 4. maí 2013 06:00 Þessi jákvæða þróun gefur þó ekki tilefni til að slakað sé á árvekni gagnvart þeirri umtalsverðu áhættu í fjármálakerfinu sem enn er til staðar.“ Þetta er ekki tilvitnun í aðvörunarorð frá því fyrir hrun heldur blákalt mat seðlabankastjóra í skýrslu bankans um fjármálastöðugleika sem birt var í vikunni. Þessi sterka og tvímælalausa áminning kemur í kjölfar kosningabaráttu þar sem allir flokkar, í afar misríkum mæli þó, slökuðu á árvekninni. Kosningabaráttan var öll út í hött. Tími loforðanna er einfaldlega ekki runninn upp. Þó að sumar hagstærðir hafi færst til betri vegar er ekki með neinum rökum unnt að vefengja mat seðlabankastjórans. Þegar stjórnmálamenn gefa við slíkar aðstæður mestu kosningaloforð allra tíma hljóta þeir að horfa á tilveruna frá skökku sjónarhorni. Í því uppgjöri sem nú er hafið innan Samfylkingarinnar er nýr formaður sakaður um að tala ekki eins og fólkið vill heyra. Trúlega er nokkuð til í þessu ámæli. En það lýsir vel þeirri miklu kreppu sem íslensk stjórnmál eru í um þessar mundir. Á tímum þrenginga á krafan þvert á móti að vera sú að stjórnmálaleiðtogar tali um það sem fólkið þarf að heyra. Þeir eru kosnir til að veita þá forystu. Hrunið varð af því að slakað var á árvekninni fjórum árum fyrr. Enginn sagði það sem fólkið þurfti þá að heyra: Að undirstaða lífskjaranna var froða. Og það fer aftur illa ef enginn sammælist seðlabankastjóranum nú í að segja það sem allir þurfa að heyra: Að sérhverja ákvörðun verði að taka í ljósi þeirrar staðreyndar að umtalsverð áhætta er í fjármálakerfinu.Hætta á ágreiningi við Seðlabankann Í stöðugleikaskýrslu Seðlabankans kemur skýrt fram að þjóðin á ekki gjaldeyri fyrir afborgunum erlendra lána á næstu árum. Viðskiptaafgangurinn hrekkur ekki til. Bankinn telur að sá vandi geti meira að segja farið vaxandi. Orðrétt segir í skýrslunni um erlendu lánin: „Án lengingar eða umtalsverðrar endurfjármögnunar er ljóst að ekkert svigrúm er til þess að nýta viðskiptaafgang í því skyni að hleypa út krónueignum erlendra aðila á næstu árum.“ Þessi ummæli verða varla skilin á annan veg en að í tengslum við samninga við kröfuhafa föllnu bankanna verði fyrst að ná niðurstöðu um framlengingu á erlendum lánum. Formaður Framsóknarflokksins sem nú vinnur að stjórnarmyndun hefur hins vegar sett það sem skilyrði að fyrst verði ákveðin endurgreiðsla á innlendum skuldum heimilanna. Verði ný ríkisstjórn mynduð á þessum forsendum gæti komið upp alvarlegur ágreiningur milli hennar og Seðlabankans. Bankanum er að lögum skylt að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar nema það gangi gegn markmiðinu um stöðugleika. Fari stefna nýrrar ríkisstjórnar þvert á það er bankanum óheimilt að framkvæma hana. Gerlegt ætti að vera að hindra greiðsluþrot þjóðarbúsins ef forgangsröðun Seðlabankans nær fram að ganga. Á hinn bóginn verða þeir sem mynda ríkisstjórn á grundvelli skilyrða Framsóknarflokksins og hyggjast setja þau í forgang að útskýra hvernig sneiða má hjá ágreiningi við Seðlabankann og koma í veg fyrir gjaldeyrisþurrð og greiðsluþrot.Verður Ísland á ný að vogunarsjóði? Í skýrslu Seðlabankans er sagt fullum fetum að búast megi við að auknar kröfur verði gerðar til banka um eigið fé til að tryggja stöðugleika. Í framhaldi af því segir: „Eiginfjárstaða íslensku bankanna gefur því minna svigrúm til arðgreiðslna en ætla mætti við fyrstu sýn.“ Ný ríkisstjórn verður að svara hvort eigi að setja í forgang: Kröfuna um aukið eigið fé bankanna til að verja almannahagsmuni eða óskirnar um að nota stöðuna til að endurgreiða verðbólgu liðinna ára. Fjármálastöðugleiki þjóðarbúsins er í húfi eins og fyrir fimm árum. Þá fór illa. Það þarf að semja við vogunarsjóði. En það er líka hægt að breyta Íslandi aftur í vogunarsjóð. Aðilar vinnumarkaðarins hafa gefið til kynna að þeir séu fúsir til að ræða bætt kjör á grundvelli bættrar samkeppnisstöðu. Ný ríkisstjórn getur ekki látið við það eitt sitja að tala fallega um þá hluti. Hún þarf að sýna aðgerðaáætlun. Hugsanlega má nota varfærna langtímaáætlun um skattalækkanir í þessum tilgangi. En hitt væri óðs manns æði að ákveða þær fyrir fram og utan við víðtæka heildarsamninga við aðila vinnumarkaðarins um bætta samkeppnisstöðu þjóðarbúsins. Í launamálunum eru tveir kostir: Það er hægt að senda verðbólguskilaboð eða tilboð um alvöru þríhliða viðræður um bætta samkeppnisstöðu. Seinni kosturinn krefst tafarlausra ákvarðana um gríðarlegt aðhald á öllum sviðum. Enn hefur enginn kynnt ábyrg áform í þeim efnum í samræmi við þá árvekni sem Seðlabankinn kallar eftir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Skilum skömminni Elín Birna Olsen Skoðun Getur þú fengið þá hjálp sem þú þarft ef andlega heilsan hrörnar? Sigurrós Eggertsdóttir Skoðun Gekk ég yfir sjó og land og ríkisstofnanir líka Magnús Guðmundsson Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Reynir Samband sveitarfélaga að spilla gerð kennarasamninga? Ragnar Þór Pétursson Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Halldór 23.11.2024 Halldór Hefur sálfræðileg meðferð áhrif á líkamlegt heilbrigði? Rúnar Helgi Andrason Skoðun Miskunnsami nýmarxistinn Kári Allansson Skoðun
Þessi jákvæða þróun gefur þó ekki tilefni til að slakað sé á árvekni gagnvart þeirri umtalsverðu áhættu í fjármálakerfinu sem enn er til staðar.“ Þetta er ekki tilvitnun í aðvörunarorð frá því fyrir hrun heldur blákalt mat seðlabankastjóra í skýrslu bankans um fjármálastöðugleika sem birt var í vikunni. Þessi sterka og tvímælalausa áminning kemur í kjölfar kosningabaráttu þar sem allir flokkar, í afar misríkum mæli þó, slökuðu á árvekninni. Kosningabaráttan var öll út í hött. Tími loforðanna er einfaldlega ekki runninn upp. Þó að sumar hagstærðir hafi færst til betri vegar er ekki með neinum rökum unnt að vefengja mat seðlabankastjórans. Þegar stjórnmálamenn gefa við slíkar aðstæður mestu kosningaloforð allra tíma hljóta þeir að horfa á tilveruna frá skökku sjónarhorni. Í því uppgjöri sem nú er hafið innan Samfylkingarinnar er nýr formaður sakaður um að tala ekki eins og fólkið vill heyra. Trúlega er nokkuð til í þessu ámæli. En það lýsir vel þeirri miklu kreppu sem íslensk stjórnmál eru í um þessar mundir. Á tímum þrenginga á krafan þvert á móti að vera sú að stjórnmálaleiðtogar tali um það sem fólkið þarf að heyra. Þeir eru kosnir til að veita þá forystu. Hrunið varð af því að slakað var á árvekninni fjórum árum fyrr. Enginn sagði það sem fólkið þurfti þá að heyra: Að undirstaða lífskjaranna var froða. Og það fer aftur illa ef enginn sammælist seðlabankastjóranum nú í að segja það sem allir þurfa að heyra: Að sérhverja ákvörðun verði að taka í ljósi þeirrar staðreyndar að umtalsverð áhætta er í fjármálakerfinu.Hætta á ágreiningi við Seðlabankann Í stöðugleikaskýrslu Seðlabankans kemur skýrt fram að þjóðin á ekki gjaldeyri fyrir afborgunum erlendra lána á næstu árum. Viðskiptaafgangurinn hrekkur ekki til. Bankinn telur að sá vandi geti meira að segja farið vaxandi. Orðrétt segir í skýrslunni um erlendu lánin: „Án lengingar eða umtalsverðrar endurfjármögnunar er ljóst að ekkert svigrúm er til þess að nýta viðskiptaafgang í því skyni að hleypa út krónueignum erlendra aðila á næstu árum.“ Þessi ummæli verða varla skilin á annan veg en að í tengslum við samninga við kröfuhafa föllnu bankanna verði fyrst að ná niðurstöðu um framlengingu á erlendum lánum. Formaður Framsóknarflokksins sem nú vinnur að stjórnarmyndun hefur hins vegar sett það sem skilyrði að fyrst verði ákveðin endurgreiðsla á innlendum skuldum heimilanna. Verði ný ríkisstjórn mynduð á þessum forsendum gæti komið upp alvarlegur ágreiningur milli hennar og Seðlabankans. Bankanum er að lögum skylt að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar nema það gangi gegn markmiðinu um stöðugleika. Fari stefna nýrrar ríkisstjórnar þvert á það er bankanum óheimilt að framkvæma hana. Gerlegt ætti að vera að hindra greiðsluþrot þjóðarbúsins ef forgangsröðun Seðlabankans nær fram að ganga. Á hinn bóginn verða þeir sem mynda ríkisstjórn á grundvelli skilyrða Framsóknarflokksins og hyggjast setja þau í forgang að útskýra hvernig sneiða má hjá ágreiningi við Seðlabankann og koma í veg fyrir gjaldeyrisþurrð og greiðsluþrot.Verður Ísland á ný að vogunarsjóði? Í skýrslu Seðlabankans er sagt fullum fetum að búast megi við að auknar kröfur verði gerðar til banka um eigið fé til að tryggja stöðugleika. Í framhaldi af því segir: „Eiginfjárstaða íslensku bankanna gefur því minna svigrúm til arðgreiðslna en ætla mætti við fyrstu sýn.“ Ný ríkisstjórn verður að svara hvort eigi að setja í forgang: Kröfuna um aukið eigið fé bankanna til að verja almannahagsmuni eða óskirnar um að nota stöðuna til að endurgreiða verðbólgu liðinna ára. Fjármálastöðugleiki þjóðarbúsins er í húfi eins og fyrir fimm árum. Þá fór illa. Það þarf að semja við vogunarsjóði. En það er líka hægt að breyta Íslandi aftur í vogunarsjóð. Aðilar vinnumarkaðarins hafa gefið til kynna að þeir séu fúsir til að ræða bætt kjör á grundvelli bættrar samkeppnisstöðu. Ný ríkisstjórn getur ekki látið við það eitt sitja að tala fallega um þá hluti. Hún þarf að sýna aðgerðaáætlun. Hugsanlega má nota varfærna langtímaáætlun um skattalækkanir í þessum tilgangi. En hitt væri óðs manns æði að ákveða þær fyrir fram og utan við víðtæka heildarsamninga við aðila vinnumarkaðarins um bætta samkeppnisstöðu þjóðarbúsins. Í launamálunum eru tveir kostir: Það er hægt að senda verðbólguskilaboð eða tilboð um alvöru þríhliða viðræður um bætta samkeppnisstöðu. Seinni kosturinn krefst tafarlausra ákvarðana um gríðarlegt aðhald á öllum sviðum. Enn hefur enginn kynnt ábyrg áform í þeim efnum í samræmi við þá árvekni sem Seðlabankinn kallar eftir.