Bakþankar

Hin ávanabindandi sigurvíma

Álfrún Pálsdóttir skrifar

Í sumar fagna ég því að heil átta ár eru síðan ég hóf minn feril sem knattspyrnuáhangandi.

Ég er ein af þessum svokölluðu „antisportistum“ sem æfði hestaíþróttir og samkvæmisdans á yngri árum á meðan ég hræddist bolta. Hljóp á eftir honum fyrir kurteisissakir í leikfimi í grunnskóla en reyndi að forðast það eins og heitan eldinn að snerta boltann.

Ég komst þó ekki hjá því að vita að fótbolti væri vinsæl íþrótt hér á landi. Faðir minn dró mig stundum á völlinn þar sem ég eyddi tímanum í dagdrauma uppi í stúku. Í einni ferðinni standa pulsurnar í Akraborginni upp úr. Hitt sem stendur upp úr var þegar allsber maður hljóp inn á Laugardalsvöllinn og stöðvaði leikinn. Mér fannst þetta stórmerkilegur atburður og hugsaði lengi eftir á hvað hefði orðið um aumingjans manninn eftir að öryggisverðirnir yfirbuguðu hann á grasflötinni.

Þessi tiltölulega nýtilkomni áhugi minn á tuðrusparkinu kom mér á óvart því ég ætlaði ekki að láta glepjast þrátt fyrir þátttöku bóndans. Mætti fyrir kurteisissakir upp í stúku, með sólgleraugu og fylgdist meira með fólkinu í kring en leiknum sjálfum. Var í raun sama um úrslitin, eða lét sem mér væri það.

Svo gerðist eitthvað. „Antisportistinn“ sem hafði alltaf tekið dansgólfið á Sirkus fram yfir knattspyrnustúkuna um helgar sá ljósið. Í dag hef ég setið í flestum stúkum landsins, veit hvar bestu stæðin er að finna og hvaða völlur er barnvænstur. Ég er nú að halda með fjórða liðinu á höfuðborgarsvæðinu og hef klappað fyrir tveimur fyrir utan landsteinana. Ég les meira að segja vefsíður tileinkaðar íþróttinni, ekki bara af skyldurækni.

Loksins hef ég líka náð tökum á rangstöðureglunni. Hvern hefði grunað? En ég er líka búin að komast að því hvers vegna ég vildi sem minnst af íþróttinni vita í byrjun. Knattspyrna er einstaklega taugatrekkjandi leikur. Þunn lína milli hláturs og gráts. En eins ömurlegt og það er þegar þínu liði gengur illa þá er gleðin sem fylgir sigri frábær. Já, sigurvíman er ávanabindandi eins og aðrar vímur og gerir það að verkum að maður mætir ár eftir ár, með hjartað í buxunum til að klappa fyrir sínum mönnum.






×