Fastir pennar

Eru mannasiðir voðalega 2007?

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Dónaskapur, illmælgi, hótanir og heimska þeirra sem virkastir eru í athugasemdum við fréttir vefmiðlanna hafa verið í sviðsljósinu undanfarið.

Síðast í gær gekk Bubbi Morthens fram fyrir skjöldu og sagði ummæli þessa fólks valda sér undrun og sorg. Hann hvatti fólk til að fara að hugsa sinn gang og hætta að níða fólk á netinu og sagði tíma til kominn að þeir sem slík ummæli rita væru dregnir til ábyrgðar. Bubba virðist ætla að verða að ósk sinni því að í fréttum um helgina kom fram að nokkur kærumál væru nú fyrir dómi vegna ærumeiðandi ummæla á netinu.

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður sagði í fréttum Stöðvar 2 að lögin væru skýr og að dómstólar hefðu einnig fellt afgerandi dóma í þessum efnum en það virtist ekki hafa áhrif á suma netverja.

Vilhjálmur bendir á að meiðandi ummæli sem skráð séu á netmiðla geti kostað þann sem skrifar þau allt að nokkrum milljónum króna og virðist telja að hættan á fjárútlátum sé best til þess fallin að fá fólk til að sjá að sér. Kannski er það rétt hjá honum en það má spyrja hvert samfélagið sé eiginlega komið ef það eina sem aftrar fólki frá að ausa annað fólk svívirðingum er óttinn við að þurfa að borga fyrir það.

Upp á síðkastið hefur verið ákveðin hreyfing í þá átt að reyna að draga úr þessu netskítkasti og ýmsir skrifað um að nú sé mál að linni. Dónaskapur og persónulegar árásir á fólk vegna skoðana þess séu okkur ekki sæmandi. Bregður þá svo við að upp rís bylgja óánægjuradda sem tengir þessi tilmæli við sveiflur í pólitíkinni og þykir þau benda til að verið sé að þagga niður í „alþýðunni“ nú þegar ný góðærisstjórn kemur til valda.

Reiðin sem grasserað hafi í þjóðfélaginu síðan í hruni megi ekki lengur heyrast. Þöggun, þöggun í þágu auðvaldsins. Það er vandlifað. Reiðin úr hruninu er eðlileg og á rétt á sér, þótt niðurstöður nýafstaðinna kosninga bendi reyndar ekki til að hún sé ráðandi afl hjá meirihluta þjóðarinnar.

Hvernig sú reiði er tjáð er allt annað mál. Hvernig gagnast það þeim sem er reiður yfir hruninu og eftirmálum þess að ausa fólk sem hann/hún þekkir ekki neitt skít og svívirðingum? Hvernig er hægt að túlka tilmæli um að hætta að ráðast á persónur fólks vegna skoðana þess sem tilraun til þöggunar og mæla dónaskapnum bót?

Raunar var þessi talsmáti í kommentakerfunum byrjaður löngu fyrir hrun, en ekki hefur orðbragðið batnað á undanförnum árum. Það hljóta að vera til heilbrigðari leiðir til að fá útrás fyrir þessa reiði en keppni í sem stórkarlalegustum skít-austri á netinu. Mannasiðir hafa hingað til ekki verið flokkaðir sem pólitísk skoðun og það getur varla skipt sköpum um talsmáta þjóðarinnar hverjir sitja í stjórnarráðinu. Eða hvað?






×