Fleiri að bjarga, minni peningar Ólafur Þ. Stephensen skrifar 3. júní 2013 06:00 Giftusamlega tókst að bjarga franskri ferðakonu sem týndist fyrir helgina og var á gangi í 30 tíma áður en hún fannst í fyrrinótt. Þyrla Landhelgisgæzlunnar bjargaði konunni en tugir björgunarsveitarmanna höfðu þá leitað að henni, rétt eins og ótalmörgum öðrum sem týnast eða villast á Íslandi. Starf björgunarsveitanna verður seint ofmetið. Það er nánast allt unnið í sjálfboðavinnu; fólk sem er í fullri vinnu við annað sinnir hlutverki sem löggæzla eða herlið sinnir í flestum nágrannaríkjum okkar. Fréttablaðið sagði frá því í síðustu viku að björgunarsveitirnar hefðu farið í þrefalt fleiri útköll á hálendinu í fyrrasumar en sumarið 2010. Hálendisvakt björgunarsveitanna sinnti þá hátt í tvö þúsund útköllum, samanborið við rúmlega 600 tveimur árum áður. Hörður Már Harðarson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sagði í samtali við blaðið að verkefnum björgunarsveitanna hefði almennt fjölgað verulega undanfarin ár. Ástæðurnar væru aðallega þrjár; í fyrsta lagi strandveiðarnar, þar sem menn á illa búnum smábátum lenda iðulega í vanda, í öðru lagi hin gríðarlega fjölgun ferðamanna og í þriðja lagi vont veður. Við bætist svo niðurskurður framlaga til löggæzlu, sem þýðir að fleiri verkefni lenda á björgunarsveitunum. Við veðrinu er lítið að gera. En stjórnvöld, sem standa annars vegar fyrir strandveiðum sem „byggðaúrræði“ og hvetja hins vegar til fjölgunar ferðamanna, mættu gjarnan hafa í huga að ekki er endalaust hægt að treysta á að björgunarsveitir, sem eru mannaðar sjálfboðaliðum og fjármagnaðar með frjálsum framlögum, grípi inn í þegar mikið liggur við. Hvað ferðamennina varðar, var vitað mál að gífurleg fjölgun þeirra hlyti að þýða margföld verkefni björgunarsveitanna. Hörður segir að sveitirnar hafi til dæmis þurft að eltast við ótal ferðamenn í norðurljósaferðum að vetri til. „Það hefur alltaf verið hlutverk björgunarsveita að sinna slysavörnum og menn sameinuðust í því að gera landið öruggt til heimsóknar en hefur kannski þróast út í það að við séum að bjarga fólki upp úr brunnum í stað þess að byrgja þá,“ segir hann. Ef mál þróast þannig að björgunarsveitirnar ráði ekki við að bjarga ferðamönnum, einfaldlega vegna þess að of margir séu í vandræðum í einu, hefur það áhrif á orðspor Íslands sem ferðamannalands. Það er ekki gott afspurnar ef fólk í vanda fær ekki hjálp í tíma. Á sama tíma og verkefnum björgunarsveitanna hefur snarfjölgað, hafa tekjur þeirra dregizt saman. Þótt ekki sé hörgull á fólki sem er reiðubúið að vinna erfitt sjálfboðastarf á þeirra vegum er tækjakosturinn dýr og reksturinn þungur. Almenningur hlýtur að leggja sitt af mörkum til að styðja við bakið á björgunarsveitunum. Sömuleiðis þarf að stuðla að betri fræðslu til ferðamanna þannig að færri fari sér að voða. En það verður líka að huga að því hvernig einhver hluti af tekjunum af æ fleiri ferðamönnum geti runnið til þessarar starfsemi, sem stuðlar að því að tryggja öryggi ferðalanga. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Giftusamlega tókst að bjarga franskri ferðakonu sem týndist fyrir helgina og var á gangi í 30 tíma áður en hún fannst í fyrrinótt. Þyrla Landhelgisgæzlunnar bjargaði konunni en tugir björgunarsveitarmanna höfðu þá leitað að henni, rétt eins og ótalmörgum öðrum sem týnast eða villast á Íslandi. Starf björgunarsveitanna verður seint ofmetið. Það er nánast allt unnið í sjálfboðavinnu; fólk sem er í fullri vinnu við annað sinnir hlutverki sem löggæzla eða herlið sinnir í flestum nágrannaríkjum okkar. Fréttablaðið sagði frá því í síðustu viku að björgunarsveitirnar hefðu farið í þrefalt fleiri útköll á hálendinu í fyrrasumar en sumarið 2010. Hálendisvakt björgunarsveitanna sinnti þá hátt í tvö þúsund útköllum, samanborið við rúmlega 600 tveimur árum áður. Hörður Már Harðarson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sagði í samtali við blaðið að verkefnum björgunarsveitanna hefði almennt fjölgað verulega undanfarin ár. Ástæðurnar væru aðallega þrjár; í fyrsta lagi strandveiðarnar, þar sem menn á illa búnum smábátum lenda iðulega í vanda, í öðru lagi hin gríðarlega fjölgun ferðamanna og í þriðja lagi vont veður. Við bætist svo niðurskurður framlaga til löggæzlu, sem þýðir að fleiri verkefni lenda á björgunarsveitunum. Við veðrinu er lítið að gera. En stjórnvöld, sem standa annars vegar fyrir strandveiðum sem „byggðaúrræði“ og hvetja hins vegar til fjölgunar ferðamanna, mættu gjarnan hafa í huga að ekki er endalaust hægt að treysta á að björgunarsveitir, sem eru mannaðar sjálfboðaliðum og fjármagnaðar með frjálsum framlögum, grípi inn í þegar mikið liggur við. Hvað ferðamennina varðar, var vitað mál að gífurleg fjölgun þeirra hlyti að þýða margföld verkefni björgunarsveitanna. Hörður segir að sveitirnar hafi til dæmis þurft að eltast við ótal ferðamenn í norðurljósaferðum að vetri til. „Það hefur alltaf verið hlutverk björgunarsveita að sinna slysavörnum og menn sameinuðust í því að gera landið öruggt til heimsóknar en hefur kannski þróast út í það að við séum að bjarga fólki upp úr brunnum í stað þess að byrgja þá,“ segir hann. Ef mál þróast þannig að björgunarsveitirnar ráði ekki við að bjarga ferðamönnum, einfaldlega vegna þess að of margir séu í vandræðum í einu, hefur það áhrif á orðspor Íslands sem ferðamannalands. Það er ekki gott afspurnar ef fólk í vanda fær ekki hjálp í tíma. Á sama tíma og verkefnum björgunarsveitanna hefur snarfjölgað, hafa tekjur þeirra dregizt saman. Þótt ekki sé hörgull á fólki sem er reiðubúið að vinna erfitt sjálfboðastarf á þeirra vegum er tækjakosturinn dýr og reksturinn þungur. Almenningur hlýtur að leggja sitt af mörkum til að styðja við bakið á björgunarsveitunum. Sömuleiðis þarf að stuðla að betri fræðslu til ferðamanna þannig að færri fari sér að voða. En það verður líka að huga að því hvernig einhver hluti af tekjunum af æ fleiri ferðamönnum geti runnið til þessarar starfsemi, sem stuðlar að því að tryggja öryggi ferðalanga.