Facebook breytir verkferlum Friðrika Benónýsdóttir skrifar 4. júní 2013 09:05 Forsætisráðherra Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, lét hafa það eftir sér í gær að samfélagsmiðlar væru mesta ógnin við nútímasamfélög. Ásakar hann öfgaöfl um að nýta sér Facebook og Twitter til að æsa til mótmælanna gegn honum sem nú grassera í landinu. Sjálfsagt hefur hann eitthvað fyrir sér í því en hvort mesta hættan sem að nútímasamfélögum steðjar sé sú að fólk hafi auðveldara aðgengi að upplýsingum og geti skipst á skoðunum og boðað til aðgerða með skjótari hætti en áður er hins vegar málum blandið. Áhrifamáttur samfélagsmiðla til að sameina fólk til mótmæla hefur komið vel í ljós á undanförnum árum og væntanlega eru flestir – nema valdhafar sem ekki kæra sig um krítík – sammála um að það sé af hinu góða fremur en illa. Facebook og Twitter eiga sér hins vegar sínar skuggahliðar eins og allt annað og í síðustu viku lyktaði áralangri baráttu femínista fyrir því að Facebook lokaði síðum með grófum hatursáróðri gegn konum með sigri. Facebook birti opinbera tilkynningu um að gripið yrði til aðgerða gegn netníði og hatursáróðri og gerðar umfangsmiklar breytingar á verkferlum í samráði við sérfræðinga og mannréttindasamtök. Sannarlega mikið framfaraskref sem ber að fagna innilega. Hversu víðtæk þessi verkferlabreyting á að vera kemur ekki fram í yfirlýsingunni en tekið er fram að ekki verði lengur hægt að birta meiðandi ummæli nafnlaust, þeir sem setji slíkt á Facebook verði að gera það undir fullu nafni. Ágætis regla svo langt sem hún nær en það virðist nú ekki hamla fólki í að ausa annað fólk svívirðingum að þurfa að gera það undir nafni, eins og kommentakerfi vefmiðlanna eru gleggsta dæmið um. Ekki er heldur tekið fram til hvaða aðgerða verði gripið haldi fólk uppteknum hætti við hatursáróðurinn. Verður það sett í bann, fær það áminningu, verður hent út í nokkra daga – eins og nú tíðkast – eða hvernig á að koma í veg fyrir að það sem fólk eys úr haughúsi haturs síns komi fyrir augu þúsunda annarra? Falskir prófílar eru heldur ekki óalgengir á Facebook, uppdiktaðar persónur sem geta farið hamförum í skítaustrinum án þess að þurfa að taka afleiðingunum þar sem þær eru ekki til. Hvernig á að koma í veg fyrir slíkt? Valdhafar sem óttast áhrifamátt samfélagsmiðlanna hafa sums staðar gripið til þess ráðs að loka fyrir aðgengi að þeim, við lítinn fögnuð þeirra sem réttsýnni teljast. En hvar liggja mörkin og hversu langt er réttlætanlegt að ganga í ritskoðunum? Við getum öll sameinast um að fordæma hatursáróður gegn konum og minnihlutahópum og fagna þessari ákvörðun Facebook á þeim forsendum að enn einn sigurinn hafi unnist í baráttunni fyrir jafnrétti og virðingu. En – og það er stórt en – hvað gerum við ef Facebook ákveður að áróður gegn valdhöfum sem misnota vald sitt sé óásættanlegur? Munum við líka fagna því? Ritskoðun er tvíeggjað sverð sem við verðum að vona að forkólfar samfélagsmiðlanna kunni með að fara. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Friðrika Benónýsdóttir Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun
Forsætisráðherra Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, lét hafa það eftir sér í gær að samfélagsmiðlar væru mesta ógnin við nútímasamfélög. Ásakar hann öfgaöfl um að nýta sér Facebook og Twitter til að æsa til mótmælanna gegn honum sem nú grassera í landinu. Sjálfsagt hefur hann eitthvað fyrir sér í því en hvort mesta hættan sem að nútímasamfélögum steðjar sé sú að fólk hafi auðveldara aðgengi að upplýsingum og geti skipst á skoðunum og boðað til aðgerða með skjótari hætti en áður er hins vegar málum blandið. Áhrifamáttur samfélagsmiðla til að sameina fólk til mótmæla hefur komið vel í ljós á undanförnum árum og væntanlega eru flestir – nema valdhafar sem ekki kæra sig um krítík – sammála um að það sé af hinu góða fremur en illa. Facebook og Twitter eiga sér hins vegar sínar skuggahliðar eins og allt annað og í síðustu viku lyktaði áralangri baráttu femínista fyrir því að Facebook lokaði síðum með grófum hatursáróðri gegn konum með sigri. Facebook birti opinbera tilkynningu um að gripið yrði til aðgerða gegn netníði og hatursáróðri og gerðar umfangsmiklar breytingar á verkferlum í samráði við sérfræðinga og mannréttindasamtök. Sannarlega mikið framfaraskref sem ber að fagna innilega. Hversu víðtæk þessi verkferlabreyting á að vera kemur ekki fram í yfirlýsingunni en tekið er fram að ekki verði lengur hægt að birta meiðandi ummæli nafnlaust, þeir sem setji slíkt á Facebook verði að gera það undir fullu nafni. Ágætis regla svo langt sem hún nær en það virðist nú ekki hamla fólki í að ausa annað fólk svívirðingum að þurfa að gera það undir nafni, eins og kommentakerfi vefmiðlanna eru gleggsta dæmið um. Ekki er heldur tekið fram til hvaða aðgerða verði gripið haldi fólk uppteknum hætti við hatursáróðurinn. Verður það sett í bann, fær það áminningu, verður hent út í nokkra daga – eins og nú tíðkast – eða hvernig á að koma í veg fyrir að það sem fólk eys úr haughúsi haturs síns komi fyrir augu þúsunda annarra? Falskir prófílar eru heldur ekki óalgengir á Facebook, uppdiktaðar persónur sem geta farið hamförum í skítaustrinum án þess að þurfa að taka afleiðingunum þar sem þær eru ekki til. Hvernig á að koma í veg fyrir slíkt? Valdhafar sem óttast áhrifamátt samfélagsmiðlanna hafa sums staðar gripið til þess ráðs að loka fyrir aðgengi að þeim, við lítinn fögnuð þeirra sem réttsýnni teljast. En hvar liggja mörkin og hversu langt er réttlætanlegt að ganga í ritskoðunum? Við getum öll sameinast um að fordæma hatursáróður gegn konum og minnihlutahópum og fagna þessari ákvörðun Facebook á þeim forsendum að enn einn sigurinn hafi unnist í baráttunni fyrir jafnrétti og virðingu. En – og það er stórt en – hvað gerum við ef Facebook ákveður að áróður gegn valdhöfum sem misnota vald sitt sé óásættanlegur? Munum við líka fagna því? Ritskoðun er tvíeggjað sverð sem við verðum að vona að forkólfar samfélagsmiðlanna kunni með að fara.