Lífið

Fiskaheilsulind opnar á Hverfisgötu

Marín Manda Magnúsdóttir skrifar
Innan skamms geta viðskiptavinir dýft fótunum í þessi fiskakör.
Innan skamms geta viðskiptavinir dýft fótunum í þessi fiskakör. frettabladid/ Gunnar V. Andrésson

„Fiskarnir hafa engar tennur og bíta ekki en þeir sleikja eða sjúga dauða húð,“ segir Hallgrímur Andri Ingvarsson, framkvæmdastjóri hjá Fish Spa Iceland.

Í júní opnar ný og fersk heilsulind, Fish Spa Iceland, á horni Hverfisgötu og Barónsstígs. Þar verða fiskar í aðalhlutverki, en Fish Spa-snyrtingin tekur um það bil tuttugu mínútur og kostar tæplega fimm þúsund krónur. Hallgrímur segir fiskana skilja eftir dítranól-ensím þegar þeir sjúga fæturna, sem örvar endurnýjun húðarinnar. „Eðlishvöt fiskanna er að finna taugaenda í löppunum og róa allar taugar í líkamanum. Það er því einstök upplifun að prófa þetta og láta sér líða vel á líkama og sál,“ segir hann.

Eigendurnir ákváðu að opna fiskaheilsulindina eftir að hafa sjálfir upplifað mikla vellíðan eftir meðferðina erlendis. Garra Rufa-fiskarnir eiga rætur sínar að rekja til Tyrklands en þeir hafa fengið viðurnefnið „doctor“-fiskar þar sem þeir eru notaðir í meðferðum sóríasissjúklinga, en fiskurinn nærist á húðflögum.

Enginn lækning við sóríasis er fyrir hendi en meðferð Garra Rufa-fisksins þykir draga úr einkennum sjúkdómsins. „Við erum með í kringum þúsund fiska. Garra Rufa eru ferskvatnsfiskar og því erum við með sírennsli í búrunum og fullkominn hreinsibúnað til að gæta fyllsta hreinlætis, bæði fyrir viðskiptavini okkar og fiskana. Þetta er tilvalið fyrir vinkonuhópa, gæsun eða bara alla sem vilja upplifa þægilega fótsnyrtingu,“ segir Hallgrímur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.