Lífið

Nýta sér neikvæða athygli vegna klámfenginna auglýsinga

Marín Manda Magnúsdóttir skrifar

Í apríl var tískuvörumerkið umdeilda American Apparel beðið um að fjarlægja nokkrar myndir frá vefsíðu sinni eftir að auglýsingaeftirlitið (e. Advertising Standards Authority), ASA, í Bretlandi úrskurðaði að þær væru „augljóslega kynferðislegar“.

ASA fékk tvær kvartanir vegna ljósmynda á vefsíðu tískuvörumerkisins sem þóttu „móðgandi og kynferðislegar“, en myndirnar sýndu fyrirsætur í viðkvæmum stellingum.

Ein myndin þótti mjög gróf, en það var auglýsing fyrir samfellur og sýnir stúlku í háum sokkum sem krýpur á rúmi með fæturna í sundur.

„Okkur þykir myndirnar vera mjög kynferðislegar og niðurlægjandi fyrir konur þar sem áherslan er lögð á klof og brjóst fyrirsætunnar en ekki andlit hennar,“ sagði talsmaður ASA við breska blaðið The Sun.

Fyrirtækið American Apparel sagðist ætla að gera sitt besta til að fara eftir stöðlum iðnaðarins, þrátt fyrir að þrjá auglýsingar hafi verið bannaðar á rúmlega fjórum mánuðum.

Einhverjum þykja myndirnar "móðgandi og kynferðislegar“.

Síðastliðinn desember var fyrirtækinu skipað að fjarlægja myndir af berbrjósta fyrirsætum af heimasíðu sinni, en sumar fyrirsæturnar virtust vera undir lögaldri.

Það er ekki nýtt af nálinni að vörumerkið hafi fengið kvartanir um ögrandi auglýsingar. Markaðsdeild American Apparel sakar ASA um að einfaldlega banna þeim að fá athygli.

Hins vegar hafa talsmenn ASA sagt að þeir geri sér grein fyrir því að American Apparel fái mikla athygli vegna þessa máls og muni nota þessa umdeildu umfjöllun til þess að auglýsa vörumerki sitt enn fremur, en vörumerkið hefur reitt sig á ögrandi myndaefni alveg frá upphafi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.