Lífið

Fyrrverandi dómari hélt sína fyrstu tónleika

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Jóhannes Valgeirsson var um langt skeið fremsti knattspyrnudómari landsins. Hann er nú kominn með sína eigin hljómsveit sem flytur efni eftir hann.
Jóhannes Valgeirsson var um langt skeið fremsti knattspyrnudómari landsins. Hann er nú kominn með sína eigin hljómsveit sem flytur efni eftir hann. Fréttablaðið/Auðunn

„Maður verður að reyna að finna sér eitthvað nýtt að gera fyrst maður fær ekki að vera með í hinu,“ segir fyrrverandi knattspyrnudómarinn Jóhannes Valgeirsson.

Hann hefur alfarið sagt skilið við dómaraflautuna og hafist handa við að semja tónlist. „Ég var aðeins búinn að vera að leika mér heima í stofu á gítarinn og var kominn í pínu bílskúrsband með félögunum. Svo þegar maður var búinn að reyna að leysa þessa vitleysu hjá KSÍ í heilt ár, án þess að sjá fram á að menn gætu tekist í hendur og reynt að sættast, varð maður bara að reyna að finna sér eitthvað annað að gera,“ segir Jóhannes.

Hann var lengi vel  einn fremsti knattspyrnudómari landsins en hann hætti dómgæslu árið 2011 eftir ósætti við yfirmenn Knattspyrnusambands Íslands.

Fyrstu tónleikar Jóhannesar fóru fram á fimmtudagskvöldið í Pakkhúsinu á Akureyri en þar spilaði hann tuttugu frumsamin lög. „Ég er með fjóra snillinga með mér í þessu, alveg einvala lið af tónlistarmönnum sem draga vagninn. Tónlistin er á mjúku nótunum og er mjög lítið fótboltatengd. Ég passa mig alveg á því að vera ekki með neina texta sem eru bitrir út í fótboltann. Sá tími er búinn,“ segir Jóhannes og hlær.

En á að gefa tónlistina út?

„Það er aldrei að vita. Við byrjuðum á tónleikunum en svo sjáum við bara til hvað við gerum. Það stendur allavega til að skoða þetta og taka mögulega eitthvað upp í haust. Félagi minn er í upptökutækni í Bandaríkjunum og við setjumst niður í ágúst og skoðum málin,“ segir dómarinn fyrrverandi sem kveðst spenntur fyrir þessum nýja vettvangi. „Þetta er rosalega gaman. Maður beið alveg eins og barn á jólunum fram að tónleikunum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.